Færsluflokkur: Bloggar
Nýtt ár - ný áskorun
23.1.2011 | 13:46
Fyrir jólin fékk ég spennandi atvinnutilboð sem ég bara gat ekki hafnað. Það sneri tilveru minni eins og ég hafði planað hana næsta árið algerlega á haus og þýðir að ég segi skilið við kennsluna, hætti störfum í Kennarasambandinu, hætti að taka daglegan þátt í starfi InDefence hópsins og færi mig yfir í pólitíkina.
Ég er búinn að eiga rúm tíu góð ár í Seljaskóla, búinn að fá að vinna þar með hreint frábæru fólki í skemmtilegu og jákvæðu umhverfi og ég á eftir að sakna skólans, vinnufélaganna og krakkanna alveg skelfilega. Fyrir félagsmálakarl eins og mig sem þrífst best í mannfjölda og ati er það svolítið skringileg tilhugsun að sitja hugsanlega einn inni á skrifstofu stóran hluta dagsins, með tölvuna sem félagsskap. Ég hef sömuleiðis átt frábært samstarf við það góða fólk sem vinnur að hagsmunamálum kennara hjá FG og KÍ, sem nú verður endir á þar sem ég hætti að kenna.
Sömuleiðis verður skrýtið að skilja við InDefence starfið, sem er búið að stjórna lífi mínu mikið undanfarin tvö ár. Það er búið að vera algerlega frábært að upplifa þá vinnu, með þessum ótrúlega ólíku einstaklingum, í hóp þar sem mismunandi stjórnmálaskoðanir víkja fyrir sameiginlegu markmiði. Ég hefði ekki trúað því fyrirfam að svona vinna gæti virkað á þann hátt sem hún gerir.
Ég er búinn að vera ótrúlega heppinn með öll þessi störf, gengið vel og náð ágætum árangri í þessu öllu saman. Ég er þakklátur fyrir það og vil nota þetta tækifæri til að þakka öllu þessu góða fólki fyrir samstarfið á liðinum árum. Takk öll, fyrir að hjálpa mér að gera mitt besta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fjálslega túlkað
20.12.2010 | 13:01
Simon Watkins túlkar orð mín töluvert frjálslega í þessari grein á ThisIsMoney.com.
Það sem ég sagði við hann var að hér væri enn óvíst hvernig meðferð Icesave samningurinn fengi í þinginu og hvort samstaða yrði um hann. Ótímabært væri að ræða það hvort þjóðaratkvæði myndi fara fram, ennþá væri verið að skoða forsendur og mögulega áhættu við samninginn og meta hvaða áhrif hann hefði á framtíðina.
Skoðanir væru mjög skiptar um samninginn á Íslandi, bæði á Alþingi og meðal almennings. Enn væru Íslendingar þó almennt fremur neikvæðir gagnvart þessu Icesave máli í heild. Hópur fólks teldi t.d. að það ætti að setja samninginn í þjóðaratkvæði burtséð frá umfjöllun Alþingis.
Á engan hátt var hægt að túlka orð mín þannig að ég væri að kalla eftir þjóðaratkvæði eða að ég teldi miklar líkur vera á að það yrði niðurstaðan. Hér virðist fréttamaðurinn vera að leita að stuði í fréttina sína.
Leiða líkur að synjun forsetans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mætum öll á kjörstað og nýtum atkvæðisréttinn!
21.11.2010 | 18:26
Þá er síðasta kosningabaráttuvikan runnin upp. Við frambjóðendur erum auðvitað á síðustu metrunum að reyna að koma okkur á framfæri og meðal þess sem ég hef gert í dag er að fara í útvarpsviðtal hjá RÚV og að útbúa dreifibréf sem mínir stuðningsmenn geta sent í tölvupósti eða prentað út og lagt fram eða hengt upp, t.d. á vinnustað sínum eða annarsstaðar þar sem áhugasamra kjósenda er von.
Viðtalið verður sent út á Gufunni einhvern næstu daga (það verður líka hægt að nálgast á netinu, ég mun birta tengilinn þegar þar að kemur) og dreifibréfinu er hægt að hala niður með því að smella hér (ath. að vel má prenta það út í svart-hvítu, engin þörf á litaprentun nema fólk vilji það heldur). Athugið að það er líka sem mynd hér neðst í pistlinum ef einhverjir vilja heldur dreifa því á því formi á vefnum, facebook eða annarsstaðar.
Ég hef fengið ábendingar um að við frambjóðendur séum of dugleg við að setja fram almennar áherslur en ekki nægilega skýrt hvernig við viljum ná þessum áherslum fram í komandi stjórnarskrá. Ég ætla að taka það ágæta fólk sem hefur bent á þetta á orðinu og nota vikuna til að setja inn stutta pistla um það hvernig má að mínu mati ná fram grundvallaratriðum sem ég vil leggja áherslu á. Þetta verður auðvitað ekki tæmandi, en ætti að gefa aðeins betri mynd af því hvernig ég hef hugsað þessa hluti.
Kosningarnar á laugardaginn skipta miklu máli. Mætum öll á kjörstað!
Kosið verður til stjórnlagaþingsins á laugardaginn. Ég hvet að sjálfsögðu alla til að skunda á kjörstað á laugardaginn og nýta atkvæðisréttinn, og þá gildir einu hvort fólk ætlar að kjósa mig eða einhvern annan. Lýðræðið er ekki sjálfgefið og það er skylda okkar sem í dag förum höndum um grunngildi íslenska lýðræðissamfélagsins að ganga um þau af virðingu. Við búum við lýðræði, en við þurfum samt að búa það til á hverjum degi. Þessa umgengni okkar við lýðræðið hef ég reyndar áður minnst á hér á síðunni, af öðru tilefni, en sá pistill á reyndar alveg jafn vel við núna. Ég ætla því ekki að endurorða hann hér heldur bara benda á hann og segja: Allir á kjörstað!
Þessar kosningar eru líka sérstaklega merkilegar íslenskri lýðræðissögu. Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins er viðhaft persónukjör í kosningum og ekki er síður merkilegt að nú er landið í fyrsta sinn í sögunni eitt kjördæmi. Báðar þessar hugmyndir hafa verið í umræðunni sem hugsanlegt framtíðarskipulag kosninga á Íslandi og það er því mikilvægt að kosningaþáttaka verði góð núna svo við fáum rétta mynd af því hvernig þessar tvær breytingar koma út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
ENGIN afsökunarbeiðni frá Bretum komin fram!
11.11.2010 | 23:24
Sumir íslenskir fjölmiðlar sýna af sér sömu gagnrýnu fréttamennskuna og venjulega þessa dagana og slá því upp að Liam Fox, utanríkisráðherra Breta, hafi beðið Íslendinga afsökunar á framferði Gordon Brown og félaga sem beittu hryðjuverkalögum gegn íslenska ríkinu, Seðlabankanum og stórsköðuðu íslenska hagsmuni um allan heim.
Þessa framsetningu éta þessir fjölmiðlamenn eftir norskum fjölmiðlamanni sem virðist gera sig sekan um heldur mikla oftúlkun á orðum Liam Fox. Fox viðurkenndi vissulega að beiting hryðjuverkalaganna hefði verið "ófáguð" aðgerð gagnvart öðru Natóríki, og að slíkt myndi ekki henda framar. Hvergi má þó lesa úr orðum hans formlega afsökunarbeiðni vegna þessarar skítaframkomu.
RÚV nær því sem Fox segir í raun:
"Liam Fox, nýr varnarmálaráðherra Breta, segir að hryðjuverkalögum verði ekki aftur beitt gegn bandalagsþjóð eins og gert var þegar íslensku bankarnir hrundu haustið 2008. Í viðtali við norska blaðið Aftenposten segir hann þessar aðfarir óheflaðar. Hann vildi þó ekki biðjast afsökunar á því sem gerðist."
Sem sagt: Engin afsökunarbeiðni!
Staðreyndir málsins eru eftir sem áður þessar:
Bretar hafa ekki beðist formlega afsökunar á því að beita hryðjuverkalögum gegn Íslendingum, né á þeirri staðreynd að forsætisráðherra þeirra og fjármálaráðherra héldu ítrekað fram í alþjóðlegum fréttamiðlum þeirri augljósu lygi að Ísland væri gjaldþrota ríki.
Bretar hafa heldur ekki ljáð máls á því að bæta Íslendingum það mikla tjón sem beitingin olli íslenskum fyrirtækjum og íslenskum hagsmunum um allan heim á meðan Ísland sat á opinberum lista breska fjármálaráðuneytisins yfir hryðjuverkasamtök og ríkisstjórnir sem styðja og hvetja til hryðjuverka.
Bretar hafa þvert á móti gert allt sem í þeirra valdi stendur til að nýta sér veru Íslands á þessum lista til fullnustu í Icesave málinu. Þannig kom það t.d. skýrt og greinilega fram á fundi InDefence hópsins með breskum þingmönnum og fulltrúum breska utanríkisráðuneytisins í mars 2009 að Ísland yrði ekki tekið af listanum fyrr en Ísland hefði samið um fulla "endurgreiðslu" á Icesave "skuldinni". Veru Íslands á hryðjuverkalistanum og þeim skaða sem það augljóslega hélt áfram að valda var svo haldið yfir Íslendingum sem Damoclesarsverði allt fram til júní 2009, þegar Svavarsnefndin samdi á herfilegan hátt um Icesave, einmitt undir pressu hryðjuverkalistans.
Allur framgangur Breta í Icesave málinu hefur einkennst af kúgunartilburðum stórveldis gagnvart lítilli þjóð, t.d. hafa þeir beitt áhrifum sínum innan AGS til að stöðva framgang endurreisnaráætlunar Íslands og þvinga þannig íslensk stjórnvöld í tvígang til að samþykkja ósanngjarna og gífurlega áhættusama Icesave samninga.
EFTIRLÝST: Viðbrögð Íslenskra stjórnvalda.
Íslensk stjórnvöld hafa satt best að segja hagað sér eins og fábjánar í þessu máli frá upphafi þess árið 2008. Virðist þar engu skipta hvaða stjórnmálaflokkar hafa setið á valdastólum. Hvar er krafan um formlega afsökunarbeiðni vegna hryðjuverkalaganna? Af hverju leið heilt ár áður en íslensk stjórnvöld tóku þessa fullkmomlega óeðlilegu hegðun Breta upp á vettvangi NATÓ? Hvers vegna var sendiherra Íslands í Bretlandi ekki kallaður heim samdægurs þegar þetta gerðist? Hvers vegna er Bjarni Benediktsson fyrsti formaður íslensks stjórnmálaflokks sem hittir breskan forsætisráðherra augliti til auglitis tveimur árum eftir þessa atburði? Af hverju hafa allar íslensku ríkisstjórnirnar þrjár sem fjallað hafa um þetta mál gersamlega klúðrað öllum PR málum varðandi það? Hvers vegna þurfti átak grasrótarhóps til þess að snúa við fyrirsögnunum í erlendum fjölmiðlum sem æptu viku eftir viku haustið 2008 að Íslendingar væru gjaldþrota þjófar og glæpamenn? Hvers vegna birtist fyrsta greinin eftir íslenskan forsætisráðherra í stórum erlendum fjölmiðli ekki fyrr en rúmu ári eftir að þetta gerðist?
Hvers vegna í ósköpunum hef ég, grunnskólakennari í Breiðholti, ásamt öðru fólki af götunni þurft að eyða tveimur árum í að vinna vinnuna þeirra við að kynna málstað Íslands, leiðrétta alls konar undarlegan misskilning, útskýra ástandið á Íslandi, benda á einfaldar staðreyndir um Icesave reikningana, sýna fram á að Landsbankinn var einkafyrirtæki sem skattgreiðendur bera ekki ábyrgð á, koma erlendum fréttamönnum í skilning um að Icesave málið snýst um ríkisábyrgð en ekki lögformlegar "skuldir", hamra á því í á fjórða hundrað viðtölum við erlenda fjölmiðla síðastliðin tvö ár að hegðun Breta gagnvart Íslandi hafi ekki verið eðlileg og að þeir skuldi okkur formlega afsökunarbeiðni og bætur fyrir skaðann?
Ég hreinlega lýsi eftir frumkvæði íslenskrar ríkisstjórnar við að krefjast alvöru formlegrar afsökunarbeiðni frá Bretum vegna hryðjuverkalaganna. Samskipti Íslands við þetta ríki eiga ekki að vera eðlileg þar til slík afsökunarbeiðni liggur fyrir. Við erum búin að bíða í tvö ár. Við erum ekki til í að bíða í tvö í viðbót.
Heitir því að beita ekki hryðjuverkalögum á NATO þjóð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8419 efst á listann
29.10.2010 | 20:26
Þá hefur mér verið úthlutað einkennistölu fyrir kosningarnar til stjórnlagaþingsins.
Lukkutalan er
8419
áttatíuogfjórir nítján.
Endilega leggið hana á minnið og munið að setja hana efst á seðilinn þegar þar að kemur. :-)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Verður nýr Icesave samningur nákvæmlega eins og sá gamli?
26.10.2010 | 10:00
Fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að Icesave samningur sé nálægur. Þó ekkert hafi verið upplýst um innihald hans má hugsanlega giska á efni hans með ályktunum út frá fjölmiðlaumfjöllun síðustu vikna. Allar svoleiðis getgátuæfingar, eins og hér fara á eftir, ættu þó að skoðast með hæfilegum fyrirvara.
Óskað eftir tilboði.
Viðskiptablaðið birti fyrir nokkru frétt sem síðar var staðfest af AGS, um að Bretar og Hollendingar hefðu óskað eftir því að Íslendingar legðu fram á ný tilboð sem þeir sendu 25. febrúar 2009. Það tilboð gekk út á að vaxtagreiðslur yrðu lækkaðar. Fréttin hermdi að Bretar og Hollendingar væru tilbúnir að ganga að þessu tilboði.
Þessi frétt hefur ekki verið hrakin og viðtöl við fjármálaráðherra sem tekin foru eftir að þessi frétt birtist gera ekekrt til að hrekja hana. Miðað við það sem á undan er gengið í Icesave málinu og þær upplýsingar sem liggja fyrir úr fjölmiðlum getur þetta talist hugsanleg niðurstaða nú.
Hvað þýðir þetta nýja tilboð ef það er rétt?
Skoðum þá muninn á þessum tveimur samningum, Icesave 2 sem hafnað var í þjóðaratkvæðagreiðslu, og hins vegar Icesave 3 sem virðist vera væntanlegur.
Febrúartilboð Íslendinga hljómaði aðeins upp á vaxtalækkun en ekki breytingar á samningstextanum. Grunnur Icesave 2 og Icesave 3 virðist því stefna í að verða nákvæmlega sami samningstextinn.
Ég set stór spurningamerki við það að öll áhættan sem felst í samningstexta Icesave 2 verði haldið áfram inni í nýjum Icesave samningi. Það er beinlínis óásættanlegt fyrir Ísland.
Við í InDefence hópnum höfum ítrekað bent á það að Icesave samningur snýst ekki bara um vaxtakjör, heldur ekki síður þá áhættu sem samningarnir hingað til hafa borið í sér fyrir Ísland.
Þetta er til dæmis vel fram í umsögn InDefence hópsins til fjárlaganefndar um Icesave samningana og í fjölda annarra skjala og fréttatilkynninga frá hópnum sem lesa má á vefnum indefence.is.
Icsave 2 og mögulegur Icesave 3 í tölum.
Við skulum bera saman tölurnar í Icesave 2 og þessum mögulega Icesave 3 samning:
Vextir á Icesave 2 voru 5,55%
Vextir á mögulegan Icesave 3, miðað við frétt Viðskiptablaðsins, gætu litið svona út (skv. tilboði Íslands frá 25. febrúar):
Vaxtahlé til 1. janúar 2012. | Vextir eftir það: |
2012: | 2,50% |
2013: | 2,75% |
2014: | 3,00% |
2015: | 3,25% |
2016 (til 5. júní): | 3,50% |
Verði þetta niðurstaðan er ljóst að vaxtagreiðslur íslenska ríkisins vegna Icesave myndu lækka umtalsvert frá Icesave 2, sem skv. útreikningum Dr. Jóns Daníelssonar hefðu orðið um 370-380 milljarðar (á gengi þess tíma). Útreikningar Jóns eru miðaðir við 88% endurheimtur eigna Landsbankans og hafa ekki verið hraktir. Heildarkostnaður íslenska ríkisins í Icesave 2 hefði skv. þeim orðið um 507 milljarðar króna.
Ef vaxtamódelið hér að ofan (úr tilboði Íslands síðan í febrúar) er sett inn í svipaðar forsendur en miðað við 90% endurheimtur kemur út sú niðurstaða að heildarskuldbinding íslenska ríkisins með vaxtagreiðslum verði að líkindum undir 130 milljörðum króna miðað við núverandi gengi.
Það er augljóslega töluverður munur. Verði niðurstaðan eitthvað í líkingu við þetta hefur þjóðaratkvæðagreiðslan ótvírætt og augljóslega skilað því að greiðslubyrði Íslands hefur lækkað um hundruð milljarða. Fullyrðingar margra um tilgangsleysi þjóðaratkvæðisins um Icesave myndu með slíkri niðurstöðu líta kjánalega út svo ekki sé sterkar að orði kveðið.
Munu stjórnvöld slá sig til riddara með villandi tölum?
Eitt af því sem þarf að varast er að styrking krónunnar verði notuð til að halda því fram að nýr samningur sé mun betri en hann í raun er, þ.e. beri í sér lægri höfuðstól, lægri ríkisábyrgð en Icesave 2. Þetta er rangt. Höfuðstóll kröfunnar er 3,91 milljarður, hefur alltaf verið og það mun ekkert breytast.
En einmitt vegna þess að Icesave ábyrgðin er í erlendum gjaldeyri þá hafa breytingar á gengi krónunnar áhrif á upphæðirnar í íslenskum krónum. Ef nýr Icesave samningur væri gerður í dag þá væri ríkisábyrgðin um 93 milljörðum lægri í íslenskum krónum en í Icesave 2 um síðustu áramót (miðað við að öll ábyrgðin sé reiknuð í evrum).
Það er vegna þess að krónan hefur styrkst töluvert gagnvart evru frá áramótum. Um áramótin var gengi evru 180 krónur. Í dag er það aðeins 156 krónur. Krafa Breta og Hollendinga er 3,91 milljarður evra, það hefur ekki breyst eins og áður sagði. Gengismunurinn lítur því svona út:
ICESAVE 2 | Gengi um áramót
Evran = 180 krónur | Krafan = 3,91*180 =
703 milljarðar króna |
Mögulegur ICESAVE 3 ? | Gengi í dag:
Evran= 156 krónur | Krafan = 3,91*156 =
610 milljarðar króna |
Gengismunur á Icesave 2 og mögulegum Icesave 3 | 703 610 =93 milljarðar króna |
Þarna hefur myndast 93 milljarða króna gengismunur. Það gæti því verið freistandi að reyna að selja þjóðinni samninginn á þeim grundvelli að höfuðstóllinn og þar með greiðslubyrðin hafi lækkað um 90 milljarða. Það væri hins vegar rangt.
Ef gengi krónunnar fellur aftur, til dæmis í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta, þá hækkar greiðslubyrði Íslands á ný og getur jafnvel hækkað upp fyrir það sem hún var um áramót ef gengisfallið er mikið.
Því er 90 milljarða króna lækkun Icesave greiðslna vegna gengis krónunnar merkingarlaus með öllu, og alls ekki nein gæði í hendi til að flagga í nýjum samningi.
Þjóðaratkvæðagreiðslan snerist um fleira en lægri vexti!
Icesave 2 var algerlega hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars. Sú höfnun var ekki samþykki fyrir því að fá nákvæmlega sama samning en með lægri vöxtum. Eins og við í InDefence hópnum höfum ítrekað bent á þá eru fjöldamörg atriði í samningstextanum sjálfum sem eru óásættanleg fyrir Ísland og verður að breyta, og margt af því er ennþá beint upp úr Svavarssamningnum frá því í júní 2009. Fyrirvarar Alþingis eru þar einnig fótum troðnir eins og InDefence hefur margoft bent á.
Ég óttast að þriðji Icesave samningurinn verði kópía af þeim sem við höfnuðum í þjóðaratkvæðagreiðslunni, nema bara með lægri vöxtum. Og þótt lægri vextir séu mjög góð byrjun þá er það ekki nóg til að hægt sé að sætta sig við byrðarnar og alla áhættuna sem slíkum samningi myndi fylgja.
6,4% atvinnuleysi í haust | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Beint lýðræði? Er það eitthvað ofan á brauð?
25.10.2010 | 18:28
Beint lýðræði í ríkjum nútímans er réttur fólksins í landinu til að fá að taka beinan þátt í ákvarðanatöku í einstökum málum sem varða stjórn ríkisins eða skipan. Langflest lýðræðisríki í dag byggja fyrst og fremst á fulltrúalýðræði, þ.e. almenningur kýs fulltrúa (t.d. þingmenn) sem í þeirra umboði taka ákvarðanir og stjórna ríkinu.
Þótt þetta fyrirkomulag hafi verið við lýði á Íslandi síðan um miðja 19. öld er ekki þar með sagt að það sé það besta sem í boði er. Þvert á móti eru til þónokkur dæmi um að þjóðin hefði gjarnan viljað komast með fingurna nær ákvarðanavaldinu í einstökum málum, sérstaklega eftir lýðveldisstofnun.
Hvers vegna fékk íslenska þjóðin ekki að greiða atkvæði um inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið árið 1949? Hvers vegna fékk hún ekki að segja álit sitt á því hvort hún vildi gerast aðili að evrópska efnahagssvæðinu á tíunda áratugnum? Hvers vegna voru fjölmiðlalögin ekki borin undir þjóðina árið 2004?
Hver ræður því hvort þjóðin fær að segja sína skoðun?
Staðreyndin er sú að íslenska þjóðin er múlbundin. Eina von hennar um að fá að segja skoðun sína á mikilvægum málum í beinni þjóðaratkvæðagreiðslu liggur hjá forseta Íslands skv. 26. grein stjórnarskrárinnar. En jafnvel sá farvegur hefur verið forsmáður nánast alla lýðveldissöguna vegna þess að hefðbundið þótti að forseti nýtti ekki málskotsréttinn.
Það segir ákveðna sögu að jafnvel loksins þegar forseti nýtti málskotsréttinn í fyrsta sinn árið 2004 varð geypilegt uppistand vegna þess hjá handhöfum framkvæmdavalds og löggjafarvalds og að lokum fór svo að ákvæði stjórnarskrár voru ekki virt og engin þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram.
Það er beinlínis sorglegt fyrir íslensku þjóðina að fyrsta þjóðaratkvæðagreiðsla lýðveldissögunnar skuli ekki hafa litið dagsins ljós fyrr en 6. mars 2010, 66 árum eftir lýðveldisstofnun. Hvað segir það um ástand lýðræðisins á Íslandi?
Þjóðin hefur hingað til verið upp á náð og miskunn forseta komin um þjóðaratkvæði, orðið að treysta á að geðþóttaákvörðun eins einstaklings á Bessastöðum félli sér í vil. Það er ekki ásættanlegt fyrir þjóð sem gefur sig út fyrir að vera lýðræðiselskandi.
Vald Alþingis kemur frá þjóðinni og þjóðin á að hafa eftirlit með því hvernig farið er með það.
Þetta snýst um það í hverra höndum öryggisventillinn á löggjafarvaldið á að liggja. Á íslenska þjóðin að vera upp á einn mann komin með eftirlit með löggjafarvaldinu um alla framtíð eða á þjóðin sjálf að geta átt frumkvæðið að slíku eftirliti?
Löggjafarvaldið er af þjóðinni falið 63 fulltrúum á Alþingi. Það liggur því beinast við að þjóðin sjálf hafi eftirlit með fulltrúum sínum og geti gripið inn í milliliðalaust ef þeir eru ekki að standa sig sem skyldi. En hvernig er hægt að gera það?
Í Sviss hefur beint lýðræði verið hluti af stjórnskipan ríkisins einmitt á þennan hátt. Ef ríkisborgararnir safna ákveðnum fjölda undirskrifta á ákveðnum tíma eru viðkomandi lög lögð undir þjóðaratkvæði. Meginreglan er að safna þarf undirskriftum 50.000 manna á innan við 100 dögum.
Undirskriftasöfnun InDefence til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um síðari Icesave lögin sýnir svart á hvítu að þetta fyrirkomulag gæti vel virkað hér á landi. Þar var tæplega 60.000 undirskriftum safnað á um tveimur mánuðum. Til forseta Íslands var skilað 56.089 gildum undirskriftum, sem slær mjög nálægt 25% allra kosningarbærra manna á Íslandi þá. Þrátt fyrir það var það upp á geðþótta forseta komið hvort þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram eða ekki. Það er að mínu mati óásættanlegt fyrirkomulag.
Ég set því fram einfalda tillögu til breytingar á stórnarskránni í átt að auknu beinu lýðræði: Að þjóðin sjálf hafi í hendi sér að setja einstök mál í þjóðaratkvæði með því að safna undirskriftum ákveðins fjölda kosningarbærra manna á ákveðnum tíma. Eina spurningin er hvar við setjum fjöldamörkin og tímamörkin svo það verði hvorki of auðvelt né of erfitt.
Með þessu fyrirkomulagi verður til virkt eftirlit þjóðarinnar með störfum Alþingis og þannig bætir beint lýðræði upp galla fulltrúalýðræðisins.
523 í framboði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Gengismunur ekki lægri evrutala!
21.10.2010 | 21:51
Már er að gefa til kynna að við "skuldum" minna í Icesave nú en áður. Það er rugl. Krafa Breta og Hollendinga er ennþá 3.91 milljarður EVRA.
Um áramót var gengið á evrunni 180 krónur. Það þýddi 703 milljarðar í krónum.
Í dag er evran lægri, bara 156 krónur. Það þýðir 610 milljarðar í krónum.
Þarna er 90 milljarða munur. En það þýðir ekki að það sé búið að lækka Icesave reikninginn. Um leið og krónan fellur aftur, til dæmis ef gjaldeyrishöft verða afnumin, þá hækkar krónutalan á Icesave reikningnum aftur til samræmis við það.
Það eina sem getur lækkað Icesave greiðslubyrði Íslendinga í svona samningum eru verulega mikið lægri vextir, eða hreinlega að Bretar og Hollendingar gefi eftir höfuðstólinn.
Gengissveiflur eru ekki eitthvað sem við höfum í hendi. Það verður að horfa á þetta í erlendum gjaldmiðlum því við verðum að borga í erlendum gjaldmiðlum.
Ég óttast að þetta sé upphafið að því að villa um fyrir þjóðinni í þeim tilgangi að sannfæra hana um ágæti nýs icesave samnings.
Kostnaður við Icesave hugsanlega minni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég tek slaginn
14.10.2010 | 09:11
Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá að frambjóðendum til stjórnlagaþingsins er að fjölga. Ég hef skotið á að það verði um 100-120 manns sem bjóða sig fram, en það lítur út fyrir að það gætu jafnvel orðið um 150 manns sem er hið besta mál. Ég er einn af þessum fjörtíu sem eru búnir að skila inn tilskildum gögnum, tilkynningu, 50 meðmælendum, kynningu og ljósmynd.
Og miðað við fundinn sem ég fór á hjá stjórnarskrárfélaginu í gærkvöldi, þar sem um 20 frambjóðendur voru meðal gesta, þá verður þessi kosningabarátta skemmtileg og málefnaleg. Þar voru allir sammála um að það sem skiptir máli er að út úr stjórnlagaþinginu komi besta mögulega niðurstaða. Allt hefur þetta fólk mismunandi málefni sem það vill berjast fyrir, einhver hjartans mál sem drífa þau áfram til að bjóða sig fram. en það var á öllum að heyra að fyrsta markmið er að þessi vinna verði fagleg og málefnaleg.
Á fundinum var töluvert rætt um kjörseðilinn og persónukjörið. Það er mjög mikilvægt að kjósendur átti sig á því að þótt raða megi 25 manns á kjörseðilinn þá hefur hver kjósandi aðeins eitt atkvæði. Það er því fyrsta valið, fyrsta sætið á kjörseðlinum, sem skiptir öllu máli.
Ef ég raða þremur á kjörseðilinn, fyrsta val, annað val og þriðja val, þá fær sá sem er í þriðja sætinu ekki atkvæði nema hinir tveir fyrir ofan hann í röðinni eru annað hvort komnir inn á þingið eða dottnir út vegna atkvæðaskorts. Kjörseðillinn er því ekki 25 atkvæði, heldur eitt atkvæði sem flyst niður listann í forgangsröð.
Sá sem er númer 15 í forgangsröðinni fær ekki atkvæðíð fyrr en hinir 14 eru orðnir þingmenn eða dottnir út. Þetta þarf að útskýra vel til að kjósendur átti sig á því. Það mun því skipta öllu máli að kjósendur velji vel þann frambjóðanda sem þeir vilja setja í fyrsta sæti á listanum, þ.e. þann frambjóðanda sem þeir vilja greiða atkvæði sitt. Í raun eru hinir 24 valdir til vara.
Um 40 framboð til stjórnlagaþings | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég býð mig fram til stjórnlagaþings
11.10.2010 | 11:27
Ég hef ákveðið að bjoða mig fram til stjórnlagaþings sem kosið verður til þann 27. nóvember.
Stjórnlagaþing gefur okkur gullið tækifæri til að sameinast um nýjan samfélagssáttmála sem við viljum að móti líf okkar og samfélag til framtíðar. Ég vil berjast fyrir stórauknu beinu lýðræði, persónukjöri, jöfnu vægi atkvæða á landsvísu og að málskotsréttur forseta verði færður í hendur þjóðarinnar sjálfrar.
Einnig vil ég tryggja skýra þrískiptingu ríkisvaldsins, að ráðherrar verði ekki þingmenn, að þjóðin öll njóti auðlinda sinna, að ríki og kirkja verði aðskilin og að samfélagið byggi á manngildi og jafnrétti allra þegna þess.
Ég er 37 ára, kvæntur og tveggja barna faðir. Ég er með B.A. gráðu í sagnfræði, hef verið grunnskólakennari við Seljaskóla í Reykjavík síðastliðin 10 ár og hef starfað í InDefence hópnum frá október 2008 við að vekja athygli á málstað Íslands erlendis og berjast gegn ósanngjörnum Icesave samningum.
Ég hef m.a. skrifað fjölmargar blaðagreinar í tengslum við starf hópsins og hef síðastliðin tvö ár verið talsmaður InDefence hópsins á opinberum vettvangi, þar á meðal í fjölmörgum virtum erlendum fjölmiðlum.
Ég vil taka þátt í því stórmerkilega verkefni að setja Íslandi nýja stjórnarskrá, nýjan samfélagssáttmála sem getur mótað líf okkar og framtíð íslensks samfélags. Auk minna eigin áherslna mun ég að sjálfsögðu taka mið af niðurstöðum þjóðfundarins 2009 og þjóðfundar um nýja stjórnarskrá, sem ég er sannfærður um að muni verða mjög þýðingarmikill í vinnu stjórnlagaþingsins.
Upplýsingar um framboðið, stefnu og áherslur er einnig að finna á vefsíðunni http://facebook.com/johannesthorskulason . Ég hvet alla til að skrá sig á facebook síðunni til að fylgjast með framboðinu og umræðum um stjórnarsrkármálefni og stjórnlagaþingskosningarnar. Hægt er að smella á "Like" hér í kassanum til hægri til að fylgjast með.
Svo vonast ég auðvitað til að sjá ykkur öll á kjörstað þann 27. nóvember :-)
Boða framboð til stjórnlagaþings | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)