Færsluflokkur: Bloggar

Hjartsláttur þjóðar

Austurvöllur mánudaginn 4. október 2010. Tvö ár frá mánudeginum 6. október 2008. 

Fyrstu merkin um að eitthvað sérstakt væri að gerast í kvöld voru að á leiðinni inn að miðborginni sá ég að það dreif að kuldaklætt fólk hvaðanæva að gangandi og akandi í átt að Austurvelli.

Að ganga fyrir hornið á Dómkirkjunni í flasið á þúsundum er upplifun sem ég gleymi aldrei. Fullur Austurvöllur klukkan 20:00. Fullt út í hliðargötur. Allskonar fólk. Börn, unglingar, ellilífeyrisþegar, heilar fjölskyldur saman komnar til að sýna hug sinn. 

Fánar í hálfa stöng.  Pottar, pönnur, Machintosh dósir. Það er eitthvað sér íslensktvið að mæta með tóma Machintosh dósina frá jólunum til að búa til hávaða á mótmælum. Hvar annarsstaðar sæi maður það í veröldinni? 

Skiltin. "Ég á ekki fyrir mat"  "Viljið þið ekki fötin mín líka?"  "Vér mótmælum öll!"  "Flokka út - Fólk inn" "Skítt með skrílinn - Verjum auðvaldið"  "ASÍ: Fundarlaun í boði". Einhvern skorti skiltplass til að segja allt sem segja þurfti, summaði upp í: "MARGT NIÐRANDI". Sagði allt sem segja þurfti.

Það var súrrealískt að standa í fremstu röð við "skjaldborgina", álvegginn umhverfis Alþingishúsið, og hlusta á stefnuræðuna í útvarpinu í öðru eyranu og dynjandi tunnusláttinn yfirgnæfandi allt í hinu. Það var eins og þetta væru tveir heimar sem mörgþúsund ljósár bar í milli, annars vegar raunveruleikinn fyrir utan þinghúsið og hins vegar veruleikafirringin inni í því.

Yfir öllu saman gnæfði Jón Sigurðsson á stalli sínum þögull og steinrunninn. 

Mér þótti vænt um landa mína í kvöld. Ég fann að ég var hluti af einhverju stærra, að mínar áhyggjur eru allra áhyggjur. Að þótt ég haldi enn sem komið er höfðinu rétt ofan við vatnið þá er vandi þeirra sem hafa misst atvinnuna og eru við það að missa heimili sín, eiga ekki fyrir mat, það er líka minn vandi. Okkar örlög eru samtofin.. Við munum vinna okkur upp úr þessu saman, því við erum eitt. Ein þjóð. Ein heild. 

Að standa og horfa yfir skjaldborgina á óeirðaklædda lögreglumenn, Alþingishúsið útatað eggjum og málningu, vakti blendnar tilfinningar. Stolt yfir því að þjóðin skuli loks vera vöknuð með látum. Og sorg yfir því að svona sé komið fyrir okkur. 

Ég velti því fyrir mér þarna niður frá, hversu heppinn ég var að detta fyrir tilviljun inn í verkefni þar sem ég hef getað gert eitthvað, fengið útrás fyrir þörfina til að breyta einhverju, hafa áhrif á það sem er að gerast í kring um mig. Velti fyrir mér hversu brjálaður ég væri orðinn á þeirri tilfinningu að vera leiksoppur örlaganna, hefði ég ekki haft það tækifæri sem InDefence hefur veitt mér til að leggja mitt lóð á skálarnar. 

Ég get ekki setið aðgerðalaus hjá. Og það eru margir sem hugsa þannig núna, fleiri en áður. Ekki sitja kyrr. Gerum eitthvað. Grasrótasamtök geta haft áhrif. Það hefur sýnt sig á þessum tveimur árum. Það er fullt af hópum sem hafa unnið frábært starf. Attac hópurinn, Hagsmunasamtök heimilanna, Raddir fólksins, fleiri og fleiri.

Við getum öll haft áhrif. Finnið vettvang, veljið verkefni og út á akurinn! Ef við erum ekki tilbúin að berjast fyrir okkur sjálf þá mun enginn gera það fyrir okkur. Það kostar vinnu, svita, svefnleysi og tár, en það getur skilað árangri. Það er þess virði.    

Þetta er búið að vera ótrúlegt kvöld. Einn maður á Austurvelli bar af öðrum. Geir Jón Þórisson gekk milli fólks, brosti, tók í hendur, spjallaði, gerði sér far um að tengjast náunganum. Hann á heiður skilinn. Sýndi hvað það þýðir að vera lögreglumaður.

Klukkan sígur í miðnætti. Enn drynur taktfastur slátturinn við Alþingishúsið inn í nóttina. Eins og hjartsláttur þjóðar. 

 

 

 

 



mbl.is Rúður brotnar í þinghúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða gildi hefur stjórnlagaþing?

Breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins standa fyrir dyrum. Alþingi hefur sagt svo fyrir að þær breytingar skuli fara fram samkvæmt nýju ferli, þ.e. í gegn um sérstakt stjórnlagaþing sem leggi tillögur fyrir Alþingi að undangenginni umfjöllun þjóðfundar um stjórnarskrármálefni.

Þetta er mjög atygliverð tilraun. Íslenska stjórnarskráin er ekki gamalt plagg, í það minnsta ekki þegar borið er saman við stjórnarskrár margra nágrannalanda okkar. Sú bandaríska er frá 1789, sú norska fra 1814 og stjórnlög breta, þó ekki séu þau beinlínis sérstök stjórnarskrá, státa af langri sögu og þróun allt aftur til Magna Carta frá árinu 1215.

Þrátt fyrir litla elli í víðara samhengi má færa rök fyir því að íslenska stjórnarskráin sé að innihaldi komin að ákveðnu leyti til ára sinna. Hún er byggð að grunni til á stjórnarskrá Konungsríkisins Íslands frá 1920, sem var lagfæring á gjafastjórnarskrá konungs frá 1874 til samræmis við nýfengið fullveldi. Stjórnarskráin frá 1874 samræmdist aftur þeirri dönsku frá 1849. Þannig að í raun má segja að Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands eigi sér nú um 160 ára sögu.

Á þessum 160 árum hefur hún tekið töluverðum breytingum. Því er stundum haldið fram að svo sé ekki, en það þarf ekki annað en að bera saman þessi tvö skjöl, frá 1874 annars vegar og frá deginum í dag hins vegar, til að sjá að stjórnarskráin hefur í raun fylgt þróun íslensks samfélags og sambands þess við umheiminn í gegn um þessi 160 ár.Grunnatriði stjórnarskrárinnar frá 1944 eru hins vegar minna breytt, þ.e. fyrst og fremst sá kafli sem lýtur að grunnskipan ríkisins, fyrirkomulagi valddreifingar, grunnreglum réttarríkisins og þess háttar, og það má færa fyrir því sterk rök að slík grundvallaratriði þurfi að vera nokkuð stöðug til að stjórnarskrá njóti virðingar og réttmætrar stöðu sem grunnlög ríkisins.

Í stjórnarskránni birtist samfélagssáttmálinn.

Stjórnarskrá er eins konar samfélagssáttmáli, þ.e. grunnreglur sem við ákveðum að skuli gilda fyrir alla í samfélaginu og að skuli móta allar aðrar reglur þess. Hugmyndin um samfélagssáttmálann er auðvitað ekki ný af nálinni, hún er ein af þeim hugmyndum sem frönsku byltingarmennirnir höfðu að leiðarljósi þegar þeir kröfðust frelsis, jafnréttis og bræðralags í lok 18. aldar. Hugmyndin um samfélagssáttmálann er nátengd hugmyndum um hlutverk og takmörk ríkisvaldsins, þrískiptingu þess og réttindi og skyldur þegnanna, sem komu fram á þessum tíma og hafa mótað lýðræði, mannréttindi og skipan ríkisvalds á Vesturlöndum alla tíð síðan.

Sú heildarendurskoðun á stjórnarskrá Íslands sem liggur fyrir nú er því í raun heildarendurskoðun á þeim samfélagssáttmála sem við kjósum að leggja til grundvallar lífi okkar, og sem við viljum að móti líf og samfélag komandi kynslóða Íslendinga. Hún er í þeim skilningi hápólitískt mál. Alls ekki flokkspólitískt, heldur pólitískt á þann hátt að hún snertir grundvallar lífsskoðanir okkar, hugmyndir okkar um það hvers konar samfélag við viljum búa til og búa við. Að smíða nýja stjórnarskrá getur því aldrei orðið kalt og stranglega lögfræðilegt ferli. Það á ekki að vera það og má ekki vera það.

Eitt besta sögulega dæmið um það hvernig stjórnlagaþing getur á þennan hátt lagt grunn að samfélagi til framtíðar er stjórnarskrá Bandaríkjanna frá 1789. Grunngildi hennar eru enn í dag ein sterkasta stoð bandarísks samfélags. Hún kom fram á tíma þegar lýðræðislegt stjórnskipulag var ennþá ný hugmynd í heiminum, en það var hugmynd sem stjórnlagaþing þess tíma vildi að myndaði grunninn að hinu nýja samfélagi. Lífsskoðun og framtíðarsýn þeirra sem þar sátu réði ferðinni.

Nýja Ísland, hvenær kemur þú?

Stjórnlagaþing er því ekki fræðilegt fyrirbæri þar sem lögfræðin er kóngur. Þvert á móti er stjórnlagaþing lifandi vettvangur þjóðar til að vefa lífsskoðanir sínar, fortíðarreynslu og framtíðarsýn saman í nýjan samfélagssáttmála. Sáttmála sem getur leitt íslensku þjóðina inn í framtíðina á farsælan hátt. Með stjórnlagaþingi er okkur, íslensku þjóðinni, falið í hendur tækifæri til að leggja leikreglurnar fyrir nýtt samfélag. Nýtt Ísland. Nýtum það vel.Jóhannes Þ. Skúlason


Auknar tekjur = auknir skattar

Á næsta ári gerir Norræna velferðarstjórnin "aðeins" ráð fyrir 8 milljörðum í auknum tekjum ríkissjóðs.  Þetta hljómar afskaplega áferðarfallegt svona á pólitíkusamáli. Ef við þýðum þessi ummæli Jóhönnu á mannamál hins vegar þá komumst við að því hvað þetta þýðir í raunveruleikanum.

"Aukna tekjur" eða "nýjar tekjur" ríkissjóðs þýðir aðeins eitt. Hærri skattar eða nýjir skattar. Ríkissjóður aflar tekna með skattheimtu. Ef ríkissjóður fær auknar tekjur þýðir það að einhver er að borga ríkissjóði þær tekjur í formi skatta. Svo einfalt er það.

Í umræðunni um fjármál og efnahagslíf undanfarin tvö ár þar sem upphæðirnar sem um ræðir eru gríðarlegar hvert sem litið er, er ekki skrýtið að töluskilningur fólks hafi almennt skekkst. Þegar talað er um t.d. 100 milljarða liggur við að fólk hvái: "Er það mikið eða lítið?" Því virðast 8 milljarðar kannski við fyrstu sýn vera dropi í haf ríkisfjármálanna.

En 8 milljarðar eru 8 þúsund milljónir. Það eru engir smápeningar. Sérstaklega ekki þegar ríkið ætlar sér að veiða þessar 8 þúsund milljónir upp úr vasa venjulegs fólks í landinu, ofan á allt sem á undan er gengið.

Íslendingar eru um 319 þúsund manns. 8 þúsund milljónir gera því rúmlega 25.000 krónur á hvern einasta Íslending. Það eru 100 þúsund krónur á ári fyrir venjulega fjögurra manna fjölskyldu. Aftur, það virðist kannski ekki mikið við fyrstu sýn, því hversu mikils virði er 100.000 kall í dag?

100 þúsund krónur á ári eru tæplega ein mánaðarlaun fyrir fólk sem dregur fram lífið á lægstu laununum.

100 þúsund krónur á ári jafngilda greiðslum fyrir skólamáltíðir beggja barnanna á heimilinu allt skólaárið.

100 þúsund krónur á ári kaupa tæplega 7 matarkörfur í ódýrustu matvöruverslun landsins skv. verðkönnun ASÍ.    

100 þúsund krónur á ári kaupa um það bil tíu bensínáfyllingar fyrir venjulegan fjölskyldubíl.   

100 þúsund krónur á ári kaupa notaðar skólabækur og ritföng fyrir unglinginn á heimlinu á ódýrasta skiptimarkaði landsins fyrir u.þ.b tvö framhaldsskóláár.

 Og svo mætti lengi telja. Þetta er Ísland í dag. Íslenskar fjölskyldur finna sannarlega fyrir því þegar 100 þúsund krónur eru teknar úr veskinu þeirra á einu ári. Það gleymist allt of oft þegar ríkisstjórnin ákveður að hækka skatta að þessir peningar koma úr vösum fólks.

 

Þetta er í raun mjög einföld afleiðsla, "elementary, my dear Dr. Watson", eins og maðurinn sagði:

 Auknir skattar lækka ráðstöfunartekjur fólks og skerða afkomu fyrirtækja.

-> fólk með lægri ráðstöfunartekjur þarf að oftar (og gjarnan á sársaukafyllri hátt) að velja og hafna í hvað það notar peningana sem koma upp úr launaumslaginu

-> fólk eyðir minni peningum því það hefur minni peninga milli handanna. Fólk neyðist til að minnka einkaneysluna því að skuldirnar og lánin lækka ekki.

-> minni peningar flæða út í atvinnulífið og efnahagslífið

-> Afkoma fyrirtækja skaðast vegna þess að færri kaupa vöru og þjónustu og fyrir minni peninga.

-> Fyrirtæki með skerta afkomu geta ekki haldið úti sömu starfsemi og áður. Skert afkoma = skert starfsemi

-> Launakostnaður fyrirtækja er oftast hár kostnaðarliður. Uppsagnir koma til hjá mörgum þeirra einfaldlega vegna þess að það er eina leiðin til að halda fyrirtækinu lifandi í núverandi efnahagsástandi og skattheimtustefnu.

-> Aukið atvinnuleysi verður til þess að fleiri hafa minna á milli handanna.

Þessi vítahringur er grafalvarlegur. Núverandi ríkisstjórn virðist halda að með aukinni skattheimtu skapist verðmæti. Það er einfaldlega ekki þannig. Því er líka stundum haldið fram að þetta sé í lagi því þetta séu skattar á fyrirtæki en ekki almenning. En það er bara ekki svo einfalt. Auknir skattar á fyrirtæki skerða afkomu þeirra einnig sem leiðir til aukins atvinnuleysis og hægari hagvaxtar. Almenningur borgar alltaf fyrir aukna skatta á endanum, annað hvort úr eigin vasa, vegna atvinnuleysis, vegna verðhækkana á vörum og þjónustu og svo framvegis.

 Það versta við þetta allt er þetta hér:  Réttlætingin fyrir því að hækka skatta á almenning og atvinnulífið er gjarnan sú að á Norðurlöndunum, sem þessi ríkisstjórn lítur mikið til og kennir sig við, er rekið velferðarsamfélag sem er fjármagnað með hærri skattprósentu en gerist á Íslandi. Þess vegna, segir ríkisstjórnin, hljótum við líka að geta hækkað skatta nokkuð og fengið velferðarsamfélag í staðinn, eins og þar.

En þar lýkur samanburðinum hentuglega. Í þessari samlíkingu er aldrei minnst á þá staðreynd að í norrænu velferðarsamfélögunum fá skattgreiðendur miklu, miklu meiri og betri þjónustu frá ríknu fyrir skattpeningnana sína heldur en Íslendingar. Þar tíðkast margs konar styrkir og þjónusta sem Íslendinga getur aðeins dreymt um, og það ekki aðeins vegna hrunsins heldur hefur það verið þannig lengi. Þar er hefð fyrir hárri skattprósentu og háu endurgjaldi í formi þjónustu til borgaranna. 

Þegar skattar eru hækkaðir á Íslandi í dag fara þeir í að greiða niður vaxtagjöld ríkissjóðs vegna erlendra lána, sem sagt beint út úr landinu. Þeir fara í að stoppa upp í fjárlagagat ríkissjóðs. Eini staðurinn sem þeir fara ekki er út til borgaranna aftur.

Á Íslandi er nefnilega verið að skera harkalega niður þjónustu ríkisins við borgarana, t.d. í heilbrigðismálum og menntamálum, og hækka skatta á sama tíma. Meiri skattar, minni þjónusta.

Nú er komið nóg. Í alvöru, það er komið nóg. Heimilin í þessu landi þola ekki meira. Við höfum ekki meira að gefa ríkinu. Því miður, en það er bara þannig. Ef þetta heldur áfram þá er bara eitt skref eftir fyrir ótrúlega marga Íslendinga. Að pakka saman og flýja. Flytja til norrænu velferðarríkjanna, þar sem fólk á von um atvinnu, hærri laun en hér þrátt fyrir hærri skattprósentu og alvöru þjónustu frá ríkinu út á þá skattprósentu. Fólk mun fara. Það gerðist í Færeyjum og það er byrjað að gerast á Íslandi.

Skattahækkanir eru öruggasta leiðin til að hægja á endurreisninni. Ekki meir, í guðana bænum ekki meir.


mbl.is 8 milljarða nýjar tekjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að gefa eigin þjóð fingurinn.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þá ákvörðun forsætisráðherra og fjármálaráðherra að hafa atkvæðagreiðsluna að engu og nýta ekki kosningaréttinn. Fyrirsögnin segir allt sem segja þarf um þá afstöðu þeirra.

Hins vegar virðist algerlega ljóst, af ótrúlega sterkum viðbrögðum almennings við þessum yfirlýsingum þeirra, að þau hafi ekki gert sér neina greinn fyrir því að með þessu eru þau að lýsa sjálf sig ómerkinga í augum stórs hluta þjóðarinnar. Það er nefnilega ennþá svo, þrátt fyrir allt, að þjóð sem skilar 89% kosningaþáttöku að meðaltali í rúmlega hálfa öld ber virðingu fyrir kosningaréttinum og finnst skammarlegt að sjá forystufólk sitt troða hann niður í skítinn með þessum hætti.  

Þau Jóhanna og Steingrímur hafa misst virðingu ansi margra í dag vegna afstöðu sinnar. Þeim stendur enn til boða að vinna hana aftur á morgun, með því að mæta og kjósa.

Ég bendi á frábæra grein Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur sem skýrir í einföldu máli hvers vegna Íslendingar, líka Jóhannna og Steingrímur, eiga að mæta á kjörstað og nýta kosningaréttinn 6. mars.  Þessa grein ættu allir að lesa. Hún segir allt sem segja þarf.

 


mbl.is Steingrímur: Ólíklegt að ég kjósi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær er lýðræðið marklaust?

Fyrsta þjóðaratkvæðagreiðsla lýðveldisins stendur fyrir dyrum 6. mars. Forsætisráðherra, fjármálaráðherra, fjölmiðlamenn og bloggarar keppast nú við að koma þeirri hugmynd inn hjá Íslendingum að þessi atkvæðagreiðsla sé markleysa, óþarfi, sóun á tíma og peningum. Engin skyldi því finna hjá sér þörf fyrir að taka þátt í vitleysunni, mæta á kjörstað er tómur óþarfi.  Jafnvel fjármálaráðherra sjálfur er að hugsa um að gera bara eitthvað annað þennan dag. Til hvers að kjósa í marklausri atkvæðagreiðslu?

Þetta er hreint makalaus afstaða hjá lýðræðislega kjörnum fulltrúum almennings. Hvenær er lýðræðið marklaust? Hvenær er vilji þjóðar sóun á tíma og peningum?  

Íslenska lýðveldið er enginn öldungur í samfélagi þjóðanna. Fólkið sem fagnaði sjálfstæði landsins í þjóðhátíðarveðrinu á Þingvöllum árið 1944 voru ekki fjarskyldir forfeður, heldur feður okkar og mæður, afar og ömmur. Enn lifir meðal okkar fólk sem ungt fagnaði fullveldi Íslands í skugga farsóttar og frostaveturs 1918. 

Íslenska lýðveldið hefur varla slitið barnsskónum. En þrátt fyrir það geta Íslendingar státað af lýðræðishefð sem hvaða þjóð gæti verið stolt af. Í fáum löndum taka íbúarnir lýðræðið jafn alvarlega og Íslendingar. Það birtist í því að á kjördag, hvort sem er í Alþingis- sveitarstjórna- eða forsetakosningum, þá þykir það sjálfsagt mál að nánast allir sem á annað borð eiga heimangengt mæti á kjörstað og nýti kosningarétt sinn.

Fjölmörg vestræn lýðræðisríki  hafa á síðustu 60 árum glímt við sídvínandi kosningaþátttöku og aukið áhugaleysi almennings á lýðræðinu. Á sama tíma hefur kosningaþátttaka á Íslandi verið að meðaltali 89% (USA=54%, UK=76%) og Ísland er í áttunda sæti yfir hæstu kosningaþátttöku í heiminum á síðari hluta 20. aldar. Íslendingar vita sem er að kosningarétturinn er grunnréttur hvers manns, og þeir nýta þennan rétt. 

Og kosningar eru enn mjög hátíðlegt tækifæri á Íslandi. Fólk klæðir sig gjarnan upp á til að fara á kjörstað, býður vinafólki í síðdegiskaffi og dregur fána að hún. Og hvers vegna? Jú, í þjóðarvitundinni situr nefnilega enn vitneskjan um að lýðræðið fékkst ekki ókeypis. Að þessi dýra gjöf, kosningarétturinn, kom ekki til að sjálfu sér. Að lýðræðið, réttur hvers og eins borgara til að hafa áhrif á líf sitt og stjórn ríkisins, er hvorki algilt né sjálfsagt.

Við búm vissulega við lýðræði, en við þurfum samt að búa það til á hverjum degi. Það er skylda okkar sem í dag förum höndum um grunngildi íslenska lýðræðissamfélagsins að ganga um þau af virðingu. Að gleyma því ekki í þrætum líðandi stundar að lýðræðið er stærra en svo að því megi kasta fyrir róða þegar á þarf að halda. Því ef lýðræðið er vegið á skálum skammtímahagsmuna og léttvægt fundið, þá var til lítils barist á árum áður.

Lýðræði er ekki bara eitthvert hugtak sem slengt er fram í ræðuhöldum á tyllidögum.  Það er í senn hugsjón og raunveruleiki, grundvallarréttur manna til að hafa áhrif á líf sitt og ákvarðanir samfélagsins. Þjóðaratkvæðagreiðsla, ákvarðanataka þjóðar um beinar stjórnarathafnir, getur því aldrei verið marklaus. Þótt stundarþref geti villt mönnum sýn þá breytir það ekki grundvallargildum lýðræðisins í einu vetfangi. 

Þegar íslenska þjóðin greiddi atkvæði um stofnun lýðveldis var tæpast nokkur maður sem ekki nýtti atkvæðisrétt sinn. Þá vissu menn, rétt eins og nú, að kosningaþátttaka hefur ekki siður mikið vægi en sjálf úrslitin. Því fyrsta skrefið í falli lýðræðisins er ætið fólgið í að telja fólkinu trú um að skoðun þess skipti ekki máli. Að atkvæðið þitt sé marklaust. Og til hvers að taka þátt í marklausum leik? 

En lýðræðið er aldrei marklaust. Því eggja ég alla þá sem hafa þennan helga rétt, kosningaréttinn, til að mæta á kjörstað og nýta hann á laugardaginn. Þar bjóðast þrír kostir, já, nei og að skila auðum seðli. Og allir þrír eru þeir betri kostir en að sitja heima í stundargremju og vanvirða lýðræðið.  

Það getur enginn setið heima á laugardaginn og sagt með sjálfum sér, "Ég tók ekki þátt í leiknum, ég ber ekki ábyrgð". Þvert a móti. Að sitja heima og kasta þannig frá sér kosningaréttinum, grundvallar byggingareiningu lýðræðissamfélagsins, í því liggur mesta ábyrgðin. 


35.203 undirskriftir tilbúnar til afhendingar

 

InDefence hópurinn fagnar því að fá tækifæri til að koma vilja þjóðarinnar á framfæri við forseta Íslands við afhendingu undirskrifta rúmlega fjörtíu þúsund Íslendinga.

InDefence hópurinn hefur verið beðinn að vera tilbúinn að afhenda undirskriftirnar með stuttum fyrirvara. við verðum tilbúin þegar þar að kemur. Nú þegar hafa 35.203 undirskriftir verið sannreyndar með samkeyrslu við þjóðskrá og það sem kemur í nótt verður sannreynt fyrir klukkan átta í fyrramálið.

InDefence hópurinn hefur ákveðið að hægt verður að skrifa undir áskorunina á http://indefence.is allt þar til forseti hefur tilkynnt ákvörðun sína. Fjöldi heildarskráninga á síðuna nálgast nú 45.000 hratt.

Við gerum eðlilega ráð fyrir því að afhenda langstærstan meirihluta þeirra áður en forseti tekur ákvörðun, en við ábyrgjumst að allar sannreyndar undirskriftir verða afhentar forsetaembættinu.

 


mbl.is Yfir 42 þúsund skorað á forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunveruleg ástæða tímapressunnar?

Hér er áhugaverð pæling varðandi tengsl uppgjörs bankanna við tímapressuna á að ljúka Icesave málinu fyrir októberlok:

  • Uppgjör bankanna og aðkoma erlendu kröfuhafanna þýðir í stuttu máli að verið er að færa kröfuhöfunum bankann aftur, gefa þeim færi á að leggja í Landsbankann eigið fé og fá eitthvað út úr honum.
  • Hið sama er í gangi í Glitni og Kaupþingi.
  • Meðal stærstu kröfuhafa Landsbankans eru UK og Holland. 
  • Þetta þýðir í raun að neyðarlögin snúast ekki lengur um mismunun milli innlánseigenda, heldur um það að halda gangandi bankakerfi.  Ef kröfuhafarnir samþykkja þetta eru þeir í raun að samþykkja áhrif neyðarlaganna, að þau hafi verið skynsamleg leið.
  • Frestur kröfuhafa til að samþykkja samskonar uppgjör Glitnis rennur út á morgun(ritað í gær).  Fresturinn í tilfelli Kaupþings rennur út 31. okt.  Líkur eru á að fresturinn í tilfelli Landsbankans sé einhverst staðar þarna á milli eða í kring.
  • Ef allir stærstu kröfuhafar bankanna þriggja samþykkja að ganga inn í þá með þessum hætti er hafa þeir í raun samþykkt neyðarlögin, þ.e. afleiðingar þeirra, og grundvöllur fyrir málshöfðun gegn neyðarlögunum því fallinn um sjálfan sig.

Og hér er áhugaverði punkturinn:  Getur verið að tímapressan í Icesave málinu sé einmitt m.a. vegna þess að ein stærsta hótun Breta og Hollendinga í málinu, að fella neyðarlögin fyrir dómstólum, verður innantóm orð eftir 31. október, þegar kröfuhafarnir hafa de facto samþykkt neyðarlögin? 


mbl.is Segir yfirtökuna betri kost
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mörgum spurningum ósvarað

Í dag er eitt ár liðið frá því að bresk yfirvöld beittu ákvæum hryðjuverkalaga á íslenska ríkið, Seðlabanka Íslands og Landsbankann.  InDefence sendi frá sér yfirlýsingu af þessu tilefni sem lesa má í heild sinni hér.

Í gær birti vefútgáfa breska blaðsins Telegraph áhugaverða grein þar sem hluti atburðarásarinnar er rekinn og spurningum velt upp um það sem ekki hefur verið útskýrt.  ÞAr segir meðal annars:

"A much harsher fate befell Landsbanki: although defaulted in Iceland the Treasury put out a freezing order on Landsbanki by using the Anti-Terrorism, Crime and Security Act 2001. The Treasury believed that “action to the detriment of the UK’s economy (or part of it) has been or is likely to be taken by certain persons who are the government of or resident of a country or territory outside the UK”.

This Delphic utterance meant that suddenly the Anti-Terrorism Act was able to target the whole of Iceland, with serious effect for the country’s companies and individuals. It took weeks for the Treasury to define the target more accurately. However, the Treasury has never clarified why this nuclear option was necessary. What dreadful deeds did the Treasury so fear that only the Anti-Terrorism Act would do? Or was this only an unfortunate sign of nerves?

There has been no answer as yet ...

Now, a year later, many EU central bankers feel that Iceland was unjustly hit by unclear EU directives on deposits as Iceland struggled with the Icesave debts. The Icelandic government has not clarified what it knew of the UK action on October 3 – and possibly earlier, if the Icelandic Central Bank knew that the FSA had taken action against Kaupthing before the loan of €500m was issued. It is unclear why the British government was so complacent in the summer of 2008. The Government has kept quiet as to why the Dutch bank was used, what necessitated the use of the Anti-Terrorism Act – and it’s still a mystery why the Icelandic banks were allowed to operate unfettered in the UK.


mbl.is Ár frá beitingu hryðjuverkalaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matið er rangt, Jóhanna!

Það er alltaf sami söngurinn, hræðsluáróður án rökstuðnings: "Ef við viljum ekki einangrast sem þjóð og loka öllum samskiptaleiðum við alþjóðasamfélagið þá er okkur nauðugur einn kostur að leiða Icesave-málið til lykta."

Á fundinum 30. september sagði Jóhanna: Það er ekki sanngjarnt að við borgun neitt af þessu, ekki eina einustu krónu.... EN viðviljum ekki einangrast sem þjóð."

Ég bendi á að fjárfestar veltast nú hver um annan þveran til að komast að fjármögnun verkefna á Íslandi, Íslensk útflutningsfyrirtæki færa þjóðarbúinu gjaldeyri sem aldrei fyrr vegna lágs gengis krónunar og það fyrirtæki sem Árni Páll Árnason hefur básúnað síðustu daga að fái ekki erlent lánsfé, Hitaveita suðurnesja, kannast ekkert við það vandamál.

Þetta er hræðsluáróður og ekkert annað.  Það eina sem ríkisstjórnin er hrædd við er lækkun lánshæfismats Íslands.  Það hefði vissulega slæmar afleiðingar, en þrátt fyrir það hefur ríkisstjórnin enn ekki útskýrt Icesave málið í þaula fyrir lánshæfismatsfyrirtækjunum.  Í skýrslu þeirra kemur t.d. skýrt fram grundvallarmisskilningur á því hvernig málið er vaxið.  

Samninganefnd Íslands GERÐI BARA RÁÐ FYRIR því að lánshæfismatið myndi hækka við undirritun samningsins.  Hún gerði líka ráð fyrir því að krónan myndi hækka í kjölfarið á undirritun samningsins. Krónan hefur verið í frjálsu falli síðan.  Ef ríkisstjórnin er óviss um viðbrögð lánshæfismatsfyrirtækjanna þá er það einungis vegna þess að hún sjálf hefur ekki hirt um að kynna málið fyrir þeim vel og vandlega, og biðja um skýrt mat á því hvað Icesave skuldbindingin þýðir fyrir lánshæfismat Íslands, eða hvað það þýðir að taka ekki á sig skuldbindinguna.

 Athugið vel, að í síðustu skýrslu lánshæfismatsfyrirtækjanna er aðeins talað um að óvissan sé vandamál. Þar á bæ er ekker samasem merki á milli þess að samþykkja 700 milljarða aukaskuldir og hækkaðs lánshæfismats.  Auknar skuldir hljóta að hafa áhrif þar einnig.

Þetta "kalda hagsmunamat" Jóhönnu er því einfaldlega hagræðing sannleikans til að hljóma betur í eyrum landsmanna.  Það er rétt að benda á að það er ekki í fyrsta sinn, og ekki í annað sinn heldur, sem þessi ríkisstjórn lýgur beint út og blákalt upp í opið geðið á þjóðinni til að ná markmiðum sínum á bak við tjöldin. 


mbl.is Vill óráðsíu og græðgi burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr vettvangur

Hér er nýr og ágætur vettvangur fyrir skoðanir mínar á mönnum og málefnum.  Þarf ekki að fylla í skörð þeirra sem farið hafa hvort eð er?

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband