Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

8419 efst á listann

Þá hefur mér verið úthlutað einkennistölu fyrir kosningarnar til stjórnlagaþingsins.

Lukkutalan er

8419

áttatíuogfjórir nítján.

Endilega leggið hana á minnið og munið að setja hana efst á seðilinn þegar þar að kemur. :-)


Verður nýr Icesave samningur nákvæmlega eins og sá gamli?

Fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að Icesave samningur sé nálægur. Þó ekkert hafi verið upplýst um innihald hans má hugsanlega giska á efni hans með ályktunum út frá fjölmiðlaumfjöllun síðustu vikna. Allar svoleiðis getgátuæfingar, eins og hér fara á eftir, ættu þó að skoðast með hæfilegum fyrirvara.

 

Óskað eftir tilboði.

Viðskiptablaðið birti fyrir nokkru frétt sem síðar var staðfest af AGS, um að Bretar og Hollendingar hefðu óskað eftir því að Íslendingar legðu fram á ný tilboð sem þeir sendu 25. febrúar 2009.  Það tilboð gekk út á að vaxtagreiðslur yrðu lækkaðar. Fréttin hermdi að Bretar og Hollendingar væru tilbúnir að ganga að þessu tilboði.

Þessi frétt hefur ekki verið hrakin og viðtöl við fjármálaráðherra sem tekin foru eftir að þessi frétt birtist gera ekekrt til að hrekja hana.  Miðað við það sem á undan er gengið í Icesave málinu og þær upplýsingar sem liggja fyrir úr fjölmiðlum getur þetta talist hugsanleg  niðurstaða nú.

 

Hvað þýðir þetta nýja tilboð ef það er rétt?

Skoðum þá muninn á þessum tveimur samningum, Icesave 2 sem hafnað var í þjóðaratkvæðagreiðslu, og hins vegar Icesave 3 sem virðist vera væntanlegur.

Febrúartilboð Íslendinga hljómaði aðeins upp á vaxtalækkun en ekki breytingar á samningstextanum. Grunnur Icesave 2 og Icesave 3 virðist því stefna í að verða nákvæmlega sami samningstextinn.

Ég set stór spurningamerki við það að öll áhættan sem felst í samningstexta Icesave 2 verði haldið áfram inni í nýjum Icesave samningi. Það er beinlínis óásættanlegt fyrir Ísland.

Við í InDefence hópnum höfum ítrekað bent á það að Icesave samningur snýst ekki bara um vaxtakjör, heldur ekki síður þá áhættu sem samningarnir hingað til hafa borið í sér fyrir Ísland.

Þetta er til dæmis vel fram í umsögn InDefence hópsins til fjárlaganefndar um Icesave samningana og í fjölda annarra skjala og  fréttatilkynninga frá hópnum sem lesa má á vefnum indefence.is.

 

Icsave 2 og mögulegur Icesave 3 í tölum.

Við skulum bera saman tölurnar í Icesave 2 og þessum mögulega Icesave 3 samning:

Vextir á Icesave 2 voru 5,55%

Vextir á mögulegan Icesave 3, miðað við frétt Viðskiptablaðsins, gætu litið svona út (skv. tilboði Íslands frá 25. febrúar):

Vaxtahlé til 1. janúar 2012.Vextir eftir það:
2012:2,50%
2013:2,75%
2014:3,00%
2015:3,25%
2016 (til 5. júní):

3,50%

Verði þetta niðurstaðan er ljóst að vaxtagreiðslur íslenska ríkisins vegna Icesave myndu lækka umtalsvert frá Icesave 2, sem skv. útreikningum Dr. Jóns Daníelssonar hefðu orðið um 370-380 milljarðar (á gengi þess tíma). Útreikningar Jóns eru miðaðir við 88% endurheimtur eigna Landsbankans og hafa ekki verið hraktir. Heildarkostnaður íslenska ríkisins í Icesave 2 hefði skv. þeim orðið um 507 milljarðar króna.

Ef vaxtamódelið hér að ofan (úr tilboði Íslands síðan í febrúar) er sett inn í svipaðar forsendur en miðað við 90% endurheimtur kemur út sú niðurstaða að heildarskuldbinding íslenska ríkisins með vaxtagreiðslum verði að líkindum undir 130 milljörðum króna miðað við núverandi gengi.

Það er augljóslega töluverður munur.  Verði niðurstaðan eitthvað í líkingu við þetta hefur þjóðaratkvæðagreiðslan ótvírætt og augljóslega skilað því að greiðslubyrði Íslands hefur lækkað um hundruð milljarða. Fullyrðingar margra um tilgangsleysi þjóðaratkvæðisins um Icesave myndu með slíkri niðurstöðu líta kjánalega út svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

 

Munu stjórnvöld slá sig til riddara með villandi tölum?

Eitt af því sem þarf að varast er að styrking krónunnar verði notuð til  að halda því fram að nýr samningur sé mun betri en hann í raun er, þ.e. beri í sér lægri höfuðstól, lægri ríkisábyrgð en Icesave 2.  Þetta er rangt. Höfuðstóll kröfunnar er 3,91 milljarður, hefur alltaf verið og það mun ekkert breytast.

En einmitt vegna þess að Icesave ábyrgðin er í erlendum gjaldeyri þá hafa breytingar á gengi krónunnar áhrif á upphæðirnar í íslenskum krónum. Ef nýr Icesave samningur væri gerður í dag þá væri ríkisábyrgðin um 93 milljörðum lægri í íslenskum krónum en í Icesave 2 um síðustu áramót (miðað við að öll ábyrgðin sé reiknuð í evrum).

Það er vegna þess að krónan hefur styrkst töluvert gagnvart evru frá áramótum. Um áramótin var gengi evru 180 krónur. Í dag er það “aðeins” 156 krónur. Krafa Breta og Hollendinga er 3,91 milljarður evra, það hefur ekki breyst eins og áður sagði. Gengismunurinn lítur því svona út:

ICESAVE 2Gengi um áramót

 

Evran = 180 krónur

Krafan = 3,91*180 =

 

703 milljarðar króna

Mögulegur ICESAVE 3 ?Gengi í dag:

 

Evran= 156 krónur

Krafan = 3,91*156 =

 

610 milljarðar króna

Gengismunur á Icesave 2 og mögulegum Icesave 3 703 – 610 =93 milljarðar króna

Þarna hefur myndast 93 milljarða króna gengismunur.  Það gæti því verið freistandi að reyna að selja þjóðinni samninginn á þeim grundvelli að höfuðstóllinn og þar með greiðslubyrðin hafi lækkað um 90 milljarða. Það væri hins vegar rangt.

Ef gengi krónunnar fellur aftur, til dæmis í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta, þá hækkar greiðslubyrði Íslands á ný og getur jafnvel hækkað upp fyrir það sem hún var um áramót ef gengisfallið er mikið.

Því er 90 milljarða króna lækkun Icesave greiðslna vegna gengis krónunnar merkingarlaus með öllu, og alls ekki nein gæði í hendi til að flagga í nýjum samningi.

 

Þjóðaratkvæðagreiðslan snerist um fleira en lægri vexti!

Icesave 2 var algerlega hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars. Sú höfnun var ekki samþykki fyrir því að fá nákvæmlega sama samning en með lægri vöxtum.  Eins og við í InDefence hópnum höfum ítrekað bent á þá eru fjöldamörg atriði í samningstextanum sjálfum sem eru óásættanleg fyrir Ísland og verður að breyta, og margt af því er ennþá beint upp úr Svavarssamningnum frá því í júní 2009. Fyrirvarar Alþingis eru þar einnig fótum troðnir eins og InDefence hefur margoft bent á.

Ég óttast að þriðji Icesave samningurinn verði kópía af þeim sem við höfnuðum í þjóðaratkvæðagreiðslunni, nema bara með lægri vöxtum. Og þótt lægri vextir séu mjög góð byrjun þá er það ekki nóg til að hægt sé að sætta sig við byrðarnar og alla áhættuna sem slíkum samningi myndi fylgja.


mbl.is 6,4% atvinnuleysi í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beint lýðræði? Er það eitthvað ofan á brauð?

Beint lýðræði í ríkjum nútímans er réttur fólksins í landinu til að fá að taka beinan þátt í ákvarðanatöku í einstökum málum sem varða stjórn ríkisins eða skipan. Langflest lýðræðisríki í dag byggja fyrst og fremst á fulltrúalýðræði, þ.e. almenningur kýs fulltrúa (t.d. þingmenn) sem í þeirra umboði taka ákvarðanir og stjórna ríkinu.

Þótt þetta fyrirkomulag hafi verið við lýði á Íslandi síðan um miðja 19. öld er ekki þar með sagt að það sé það besta sem í boði er. Þvert á móti eru til þónokkur dæmi um að þjóðin hefði gjarnan viljað komast með fingurna nær ákvarðanavaldinu í einstökum málum, sérstaklega eftir lýðveldisstofnun.

Hvers vegna fékk íslenska þjóðin ekki að greiða atkvæði um inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið árið 1949? Hvers vegna fékk hún ekki að segja álit sitt á því hvort hún vildi gerast aðili að evrópska efnahagssvæðinu á tíunda áratugnum? Hvers vegna voru fjölmiðlalögin ekki borin undir þjóðina árið 2004?

Hver ræður því hvort þjóðin fær að segja sína skoðun?

Staðreyndin er sú að íslenska þjóðin er múlbundin. Eina von hennar um að fá að segja skoðun sína á mikilvægum málum í beinni þjóðaratkvæðagreiðslu liggur hjá forseta Íslands skv. 26. grein stjórnarskrárinnar. En jafnvel sá farvegur hefur verið forsmáður nánast alla lýðveldissöguna vegna þess að hefðbundið þótti að forseti nýtti ekki málskotsréttinn.

Það segir ákveðna sögu að jafnvel loksins þegar forseti nýtti málskotsréttinn í fyrsta sinn árið 2004 varð geypilegt uppistand vegna þess hjá handhöfum framkvæmdavalds og löggjafarvalds og að lokum fór svo að ákvæði stjórnarskrár voru ekki virt og engin þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram.

Það er beinlínis sorglegt fyrir íslensku þjóðina að fyrsta þjóðaratkvæðagreiðsla lýðveldissögunnar skuli ekki hafa litið dagsins ljós fyrr en 6. mars 2010, 66 árum eftir lýðveldisstofnun. Hvað segir það um ástand lýðræðisins á Íslandi?

Þjóðin hefur hingað til verið upp á náð og miskunn forseta komin um þjóðaratkvæði, orðið að treysta á að geðþóttaákvörðun eins einstaklings á Bessastöðum félli sér í vil. Það er ekki ásættanlegt fyrir þjóð sem gefur sig út fyrir að vera lýðræðiselskandi.

Vald Alþingis kemur frá þjóðinni og þjóðin á að hafa eftirlit með því hvernig farið er með það.

Þetta snýst um það í hverra höndum öryggisventillinn á löggjafarvaldið á að liggja. Á íslenska þjóðin að vera upp á einn mann komin með eftirlit með löggjafarvaldinu um alla framtíð eða á þjóðin sjálf að geta átt frumkvæðið að slíku eftirliti?

Löggjafarvaldið er af þjóðinni falið 63 fulltrúum á Alþingi. Það liggur því beinast við að þjóðin sjálf hafi eftirlit með fulltrúum sínum og geti gripið inn í milliliðalaust ef þeir eru ekki að standa sig sem skyldi. En hvernig er hægt að gera það?

Í Sviss hefur beint lýðræði verið hluti af stjórnskipan ríkisins einmitt á þennan hátt. Ef ríkisborgararnir safna ákveðnum fjölda undirskrifta á ákveðnum tíma eru viðkomandi lög lögð undir þjóðaratkvæði. Meginreglan er að safna þarf undirskriftum 50.000 manna á innan við 100 dögum.

Undirskriftasöfnun InDefence til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um síðari Icesave lögin sýnir svart á hvítu að þetta fyrirkomulag gæti vel virkað hér á landi. Þar var tæplega 60.000 undirskriftum safnað á um tveimur mánuðum. Til forseta Íslands var skilað 56.089 gildum undirskriftum, sem slær mjög nálægt 25% allra kosningarbærra manna á Íslandi þá. Þrátt fyrir það var það upp á geðþótta forseta komið hvort þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram eða ekki. Það er að mínu mati óásættanlegt fyrirkomulag.

Ég set því fram einfalda tillögu til breytingar á stórnarskránni í átt að auknu beinu lýðræði: Að þjóðin sjálf hafi í hendi sér að setja einstök mál í þjóðaratkvæði með því að safna undirskriftum ákveðins fjölda kosningarbærra manna á ákveðnum tíma. Eina spurningin er hvar við setjum fjöldamörkin og tímamörkin svo það verði hvorki of auðvelt né of erfitt.

Með þessu fyrirkomulagi verður til virkt eftirlit þjóðarinnar með störfum Alþingis og þannig bætir beint lýðræði upp galla fulltrúalýðræðisins.


mbl.is 523 í framboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengismunur ekki lægri evrutala!

Már er að gefa til kynna að við "skuldum" minna í Icesave nú en áður. Það er rugl. Krafa Breta og Hollendinga er ennþá 3.91 milljarður EVRA.

Um áramót var gengið á evrunni 180 krónur. Það þýddi 703 milljarðar í krónum.
Í dag er evran lægri, bara 156 krónur. Það þýðir 610 milljarðar í krónum.

Þarna er 90 milljarða munur. En það þýðir ekki að það sé búið að lækka Icesave reikninginn. Um leið og krónan fellur aftur, til dæmis ef gjaldeyrishöft verða afnumin, þá hækkar krónutalan á Icesave reikningnum aftur til samræmis við það.

Það eina sem getur lækkað Icesave greiðslubyrði Íslendinga í svona samningum eru verulega mikið lægri vextir, eða hreinlega að Bretar og Hollendingar gefi eftir höfuðstólinn.

Gengissveiflur eru ekki eitthvað sem við höfum í hendi. Það verður að horfa á þetta í erlendum gjaldmiðlum því við verðum að borga í erlendum gjaldmiðlum.

Ég óttast að þetta sé upphafið að því að villa um fyrir þjóðinni í þeim tilgangi að sannfæra hana um ágæti nýs icesave samnings.


mbl.is Kostnaður við Icesave hugsanlega minni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég tek slaginn

Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá að frambjóðendum til stjórnlagaþingsins er að fjölga. Ég hef skotið á að það verði um 100-120 manns sem bjóða sig fram, en það lítur út fyrir að það gætu jafnvel orðið um 150 manns sem er hið besta mál. Ég er einn af þessum fjörtíu sem eru búnir að skila inn tilskildum gögnum, tilkynningu, 50 meðmælendum, kynningu og ljósmynd.

 Og miðað við fundinn sem ég fór á hjá stjórnarskrárfélaginu í gærkvöldi, þar sem um 20 frambjóðendur voru meðal gesta, þá verður þessi kosningabarátta skemmtileg og málefnaleg. Þar voru allir sammála um að það sem skiptir máli er að út úr stjórnlagaþinginu komi besta mögulega niðurstaða. Allt hefur þetta fólk mismunandi málefni sem það vill berjast fyrir, einhver hjartans mál sem drífa þau áfram til að bjóða sig fram. en það var á öllum að heyra að fyrsta markmið er að þessi vinna verði fagleg og málefnaleg.

Á fundinum var töluvert rætt um kjörseðilinn og persónukjörið. Það er mjög mikilvægt að kjósendur átti sig á því að þótt raða megi 25 manns á kjörseðilinn þá hefur hver kjósandi aðeins eitt atkvæði. Það er því fyrsta valið, fyrsta sætið á kjörseðlinum, sem skiptir öllu máli.

Ef ég raða þremur á kjörseðilinn, fyrsta val, annað val og þriðja val, þá fær sá sem er í þriðja sætinu ekki atkvæði nema hinir tveir fyrir ofan hann í röðinni eru annað hvort komnir inn á þingið eða dottnir út vegna atkvæðaskorts. Kjörseðillinn er því ekki 25 atkvæði, heldur eitt atkvæði sem flyst niður listann í forgangsröð.

Sá sem er númer 15 í forgangsröðinni fær ekki atkvæðíð fyrr en hinir 14 eru orðnir þingmenn eða dottnir út. Þetta þarf að útskýra vel til að kjósendur átti sig á því. Það mun því skipta öllu máli að kjósendur velji vel þann frambjóðanda sem þeir vilja setja í fyrsta sæti á listanum, þ.e. þann frambjóðanda sem þeir vilja greiða atkvæði sitt. Í raun eru hinir 24 valdir til vara.


mbl.is Um 40 framboð til stjórnlagaþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég býð mig fram til stjórnlagaþings

Ég hef ákveðið að bjoða mig fram til stjórnlagaþings sem kosið verður til þann 27. nóvember.

Stjórnlagaþing gefur okkur gullið tækifæri til að sameinast um nýjan samfélagssáttmála sem við viljum að móti líf okkar og samfélag til framtíðar. Ég vil berjast fyrir stórauknu beinu lýðræði, persónukjöri, jöfnu vægi atkvæða á landsvísu og að málskotsréttur forseta verði færður í hendur þjóðarinnar sjálfrar.

Einnig vil ég tryggja skýra þrískiptingu ríkisvaldsins, að ráðherrar verði ekki þingmenn, að þjóðin öll njóti auðlinda sinna, að ríki og kirkja verði aðskilin og að samfélagið byggi á manngildi og jafnrétti allra þegna þess.

Ég er 37 ára, kvæntur og tveggja barna faðir. Ég er með B.A. gráðu í sagnfræði, hef verið grunnskólakennari við Seljaskóla í Reykjavík síðastliðin 10 ár og hef starfað í InDefence hópnum frá október 2008 við að vekja athygli á málstað Íslands erlendis og berjast gegn ósanngjörnum Icesave samningum.

Ég hef m.a. skrifað fjölmargar blaðagreinar í tengslum við starf hópsins og hef síðastliðin tvö ár verið talsmaður InDefence hópsins á opinberum vettvangi, þar á meðal í fjölmörgum virtum erlendum fjölmiðlum.

Ég vil taka þátt í því stórmerkilega verkefni að setja Íslandi nýja stjórnarskrá, nýjan samfélagssáttmála sem getur mótað líf okkar og framtíð íslensks samfélags. Auk minna eigin áherslna mun ég að sjálfsögðu taka mið af niðurstöðum þjóðfundarins 2009 og þjóðfundar um nýja stjórnarskrá, sem ég er sannfærður um að muni verða mjög þýðingarmikill í vinnu stjórnlagaþingsins.

Upplýsingar um framboðið, stefnu og áherslur er einnig að finna á vefsíðunni http://facebook.com/johannesthorskulason . Ég hvet alla til að skrá sig á facebook síðunni til að fylgjast með framboðinu og umræðum um stjórnarsrkármálefni og stjórnlagaþingskosningarnar. Hægt er að smella á "Like" hér í kassanum til hægri til að fylgjast með.

Svo vonast ég auðvitað til að sjá ykkur öll á kjörstað þann 27. nóvember :-)


mbl.is Boða framboð til stjórnlagaþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjartsláttur þjóðar

Austurvöllur mánudaginn 4. október 2010. Tvö ár frá mánudeginum 6. október 2008. 

Fyrstu merkin um að eitthvað sérstakt væri að gerast í kvöld voru að á leiðinni inn að miðborginni sá ég að það dreif að kuldaklætt fólk hvaðanæva að gangandi og akandi í átt að Austurvelli.

Að ganga fyrir hornið á Dómkirkjunni í flasið á þúsundum er upplifun sem ég gleymi aldrei. Fullur Austurvöllur klukkan 20:00. Fullt út í hliðargötur. Allskonar fólk. Börn, unglingar, ellilífeyrisþegar, heilar fjölskyldur saman komnar til að sýna hug sinn. 

Fánar í hálfa stöng.  Pottar, pönnur, Machintosh dósir. Það er eitthvað sér íslensktvið að mæta með tóma Machintosh dósina frá jólunum til að búa til hávaða á mótmælum. Hvar annarsstaðar sæi maður það í veröldinni? 

Skiltin. "Ég á ekki fyrir mat"  "Viljið þið ekki fötin mín líka?"  "Vér mótmælum öll!"  "Flokka út - Fólk inn" "Skítt með skrílinn - Verjum auðvaldið"  "ASÍ: Fundarlaun í boði". Einhvern skorti skiltplass til að segja allt sem segja þurfti, summaði upp í: "MARGT NIÐRANDI". Sagði allt sem segja þurfti.

Það var súrrealískt að standa í fremstu röð við "skjaldborgina", álvegginn umhverfis Alþingishúsið, og hlusta á stefnuræðuna í útvarpinu í öðru eyranu og dynjandi tunnusláttinn yfirgnæfandi allt í hinu. Það var eins og þetta væru tveir heimar sem mörgþúsund ljósár bar í milli, annars vegar raunveruleikinn fyrir utan þinghúsið og hins vegar veruleikafirringin inni í því.

Yfir öllu saman gnæfði Jón Sigurðsson á stalli sínum þögull og steinrunninn. 

Mér þótti vænt um landa mína í kvöld. Ég fann að ég var hluti af einhverju stærra, að mínar áhyggjur eru allra áhyggjur. Að þótt ég haldi enn sem komið er höfðinu rétt ofan við vatnið þá er vandi þeirra sem hafa misst atvinnuna og eru við það að missa heimili sín, eiga ekki fyrir mat, það er líka minn vandi. Okkar örlög eru samtofin.. Við munum vinna okkur upp úr þessu saman, því við erum eitt. Ein þjóð. Ein heild. 

Að standa og horfa yfir skjaldborgina á óeirðaklædda lögreglumenn, Alþingishúsið útatað eggjum og málningu, vakti blendnar tilfinningar. Stolt yfir því að þjóðin skuli loks vera vöknuð með látum. Og sorg yfir því að svona sé komið fyrir okkur. 

Ég velti því fyrir mér þarna niður frá, hversu heppinn ég var að detta fyrir tilviljun inn í verkefni þar sem ég hef getað gert eitthvað, fengið útrás fyrir þörfina til að breyta einhverju, hafa áhrif á það sem er að gerast í kring um mig. Velti fyrir mér hversu brjálaður ég væri orðinn á þeirri tilfinningu að vera leiksoppur örlaganna, hefði ég ekki haft það tækifæri sem InDefence hefur veitt mér til að leggja mitt lóð á skálarnar. 

Ég get ekki setið aðgerðalaus hjá. Og það eru margir sem hugsa þannig núna, fleiri en áður. Ekki sitja kyrr. Gerum eitthvað. Grasrótasamtök geta haft áhrif. Það hefur sýnt sig á þessum tveimur árum. Það er fullt af hópum sem hafa unnið frábært starf. Attac hópurinn, Hagsmunasamtök heimilanna, Raddir fólksins, fleiri og fleiri.

Við getum öll haft áhrif. Finnið vettvang, veljið verkefni og út á akurinn! Ef við erum ekki tilbúin að berjast fyrir okkur sjálf þá mun enginn gera það fyrir okkur. Það kostar vinnu, svita, svefnleysi og tár, en það getur skilað árangri. Það er þess virði.    

Þetta er búið að vera ótrúlegt kvöld. Einn maður á Austurvelli bar af öðrum. Geir Jón Þórisson gekk milli fólks, brosti, tók í hendur, spjallaði, gerði sér far um að tengjast náunganum. Hann á heiður skilinn. Sýndi hvað það þýðir að vera lögreglumaður.

Klukkan sígur í miðnætti. Enn drynur taktfastur slátturinn við Alþingishúsið inn í nóttina. Eins og hjartsláttur þjóðar. 

 

 

 

 



mbl.is Rúður brotnar í þinghúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband