Ég tek slaginn

Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá að frambjóðendum til stjórnlagaþingsins er að fjölga. Ég hef skotið á að það verði um 100-120 manns sem bjóða sig fram, en það lítur út fyrir að það gætu jafnvel orðið um 150 manns sem er hið besta mál. Ég er einn af þessum fjörtíu sem eru búnir að skila inn tilskildum gögnum, tilkynningu, 50 meðmælendum, kynningu og ljósmynd.

 Og miðað við fundinn sem ég fór á hjá stjórnarskrárfélaginu í gærkvöldi, þar sem um 20 frambjóðendur voru meðal gesta, þá verður þessi kosningabarátta skemmtileg og málefnaleg. Þar voru allir sammála um að það sem skiptir máli er að út úr stjórnlagaþinginu komi besta mögulega niðurstaða. Allt hefur þetta fólk mismunandi málefni sem það vill berjast fyrir, einhver hjartans mál sem drífa þau áfram til að bjóða sig fram. en það var á öllum að heyra að fyrsta markmið er að þessi vinna verði fagleg og málefnaleg.

Á fundinum var töluvert rætt um kjörseðilinn og persónukjörið. Það er mjög mikilvægt að kjósendur átti sig á því að þótt raða megi 25 manns á kjörseðilinn þá hefur hver kjósandi aðeins eitt atkvæði. Það er því fyrsta valið, fyrsta sætið á kjörseðlinum, sem skiptir öllu máli.

Ef ég raða þremur á kjörseðilinn, fyrsta val, annað val og þriðja val, þá fær sá sem er í þriðja sætinu ekki atkvæði nema hinir tveir fyrir ofan hann í röðinni eru annað hvort komnir inn á þingið eða dottnir út vegna atkvæðaskorts. Kjörseðillinn er því ekki 25 atkvæði, heldur eitt atkvæði sem flyst niður listann í forgangsröð.

Sá sem er númer 15 í forgangsröðinni fær ekki atkvæðíð fyrr en hinir 14 eru orðnir þingmenn eða dottnir út. Þetta þarf að útskýra vel til að kjósendur átti sig á því. Það mun því skipta öllu máli að kjósendur velji vel þann frambjóðanda sem þeir vilja setja í fyrsta sæti á listanum, þ.e. þann frambjóðanda sem þeir vilja greiða atkvæði sitt. Í raun eru hinir 24 valdir til vara.


mbl.is Um 40 framboð til stjórnlagaþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir að benda á þetta, einhvern vegin gerði maður ráð fyrir því að allir þeir sem maður setti á listann fengju eitt atkvæði. Ákvað því að reyna að lesa í gegnum fyrirkomulagið og er það alls ekki það einfaldasta. Vona að það komi góð skýring einhvern tíman (fjölmiðlarnir munu ekki geta það þar sem þeir varla skilja kerfið í kringum Alþingiskosningarnar sem er nú sennilega eitt það einfaldasta).

En ef ég skil þetta rétt þá munu sumir landsmenn greiða nokkrum atkvæði á meðan aðrir greiða bara einum (þeir sem setja einstakling sem ekki nær kjöri í efsta sætið). Enn fremur kemur sú staða upp að annað val manna fær mismunandi vægi: Segjum sem svo að A setji B í fyrsta val og C setji D í fyrsta val. Nú eru bæði B og D kjörnir inn og fer þá annað val A og C að telja. B fékk mun fleiri atkvæði sem fyrsta val en D og munu atkvæði þeirra sem settu B í fyrsta val því vega meira en hinna í annað val, þ.e. annað val A vegur meira en annað val C.

Við fyrstu hugsun líst mér ekki alvega á það.

BaldurM (IP-tala skráð) 15.10.2010 kl. 22:39

2 identicon

Þetta dæmi sem Baldur tekur er rétt en mig langar til að útskýra kerfið aðeins. Ég held nefnilega að það sé engin ástæða til að lítast illa á þetta atriði. Segjum að það þurfi 5000 atkvæði til að ná kjöri en B fái 15.000 en D 10.000. Þá þurfti B aðeins 1/3 af atkvæðum sínum til að ná kjöri. Þess vegna eiga A og allir þeir sem kusu B í raun 2/3 af sínu atkvæði eftir, þessir 2/3 hlutar hafa ekki nýst. Þess vegna fær í næstu umferð annað val A 2/3 atkvæði. Fyrir D er það þannig að hann þurfti 1/2 af sínum atkvæðum til að ná kjöri. Þá eiga C og allir þeir sem kusu D 1/2 atkvæði eftir ónýtt. Í næstu umferð fær þá annað val D 1/2 atkvæði.

Þetta sýnir að það er ónýtti hlutinn sem færist yfir á næsta val. Þessi ónýtti hluti er þeim mun meiri eftir því sem fleiri kusu þennan tiltekna frambjóðanda.

Stefán Ingi Valdimarsson (IP-tala skráð) 16.10.2010 kl. 17:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband