Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Nýtt ár - ný áskorun

Fyrir jólin fékk ég spennandi atvinnutilboð sem ég bara gat ekki hafnað. Það sneri tilveru minni eins og ég hafði planað hana næsta árið algerlega á haus og þýðir að ég segi skilið við kennsluna, hætti störfum í Kennarasambandinu, hætti að taka daglegan þátt í starfi InDefence hópsins og færi mig yfir í pólitíkina.

Ég er búinn að eiga rúm tíu góð ár í Seljaskóla, búinn að fá að vinna þar með hreint frábæru fólki í skemmtilegu og jákvæðu umhverfi og ég á eftir að sakna skólans, vinnufélaganna og krakkanna alveg skelfilega. Fyrir félagsmálakarl eins og mig sem þrífst best í mannfjölda og ati er það svolítið skringileg tilhugsun að sitja hugsanlega einn inni á skrifstofu stóran hluta dagsins, með tölvuna sem félagsskap. Ég hef sömuleiðis átt frábært samstarf við það góða fólk sem vinnur að hagsmunamálum kennara hjá FG og KÍ, sem nú verður endir á þar sem ég hætti að kenna.

Sömuleiðis verður skrýtið að skilja við InDefence starfið, sem er búið að stjórna lífi mínu mikið undanfarin tvö ár. Það er búið að vera algerlega frábært að upplifa þá vinnu, með þessum ótrúlega ólíku einstaklingum, í hóp þar sem mismunandi stjórnmálaskoðanir víkja fyrir sameiginlegu markmiði. Ég hefði ekki trúað því fyrirfam að svona vinna gæti virkað á þann hátt sem hún gerir.

Ég er búinn að vera ótrúlega heppinn með öll þessi störf, gengið vel og náð ágætum árangri í þessu öllu saman. Ég er þakklátur fyrir það og vil nota þetta tækifæri til að þakka öllu þessu góða fólki fyrir samstarfið á liðinum árum. Takk öll, fyrir að hjálpa mér að gera mitt besta.


Skammarlega lélegt hjá ASÍ

Umsögn ASÍ um frumvarp vegna nýju Icesave samninganna er eitt arfaslakasta skjal sem ég hef nokkurntíma lesið.

Byrjum á að rifja upp að ASÍ forystan hefur frá því Svavarssamningurinn var undirritaður haldið því fram að Icesave deiluna verði að leysa sem allra fyrst, Alþingi bara verði að afgreiða málið hratt, staðfesta hvaða samning sem liggur fyrir.

Þetta gerðist þegar Icesave 1 var lagður fyrir í júní 2009. Engu máli virtist skipta ASÍ hversu slæmur þessi samningur var.  Einhliða skuldabréf íslenskra skattborgara, minnst 300 milljarða vaxtagreiðslur, fullveldisafsal og allar eigur íslenska ríkisins aðfararhæfar. Forysta ASÍ setti flýti og afgreiðslu málsins fram fyrir augljósa hagsmuni Íslenskra skattgreiðenda.

Þetta gerðist líka þegar Icesave 2 viðaukasamningarnir voru lagðir fram í október 2010.  Þá hvöttu Gylfi Arnbjörnsson og fleiri forseta Íslands til að skrifa strax undir Icesave lögin, sem tæp 25% kjörgengra Íslendinga skoraði á forseta að gera ekki. "Ég tel að við munum skaðast áður en tekst að umturna alþjóðlegu fjármálakerfi," sagði Gylfi þá, og að "klára þurfi málið, það sé komið í gegnum Alþingi og ótækt að opna það á ný." Aftur öll áhersla á flýti og afgreiðslu án tillits til innihalds samningsins.

Síðan Icesave 3 samningurinn frá desember 2010 kom fram hafa nánast allir sem tjáð sig hafa um málið bent á hversu miklu betri þeir líta út fjárhagslega fyrir íslenska skattgreiðendur. Í frumvarpinu sjálfu er reiknað út að munirinn á Icesave 2 og Icesave 3 sé 71% kostnaðarminnkun. Steingrímur og Jóhanna hafa bæði talað um það að árangur hafi náðst.  Jafnvel menn eins og Vilhjálmur Egilsson hafa dregið í land og játað að mikill árangur hafi náðst í þriðju samningalotunni miðað við fyrri samninga. En ASÍ og Gylfi eru enn við sama heygarðshornið og kunna ekki að skammast sín.

Fjárlaganefnd bað ASÍ að skila inn umsögn um frumvarp vegna Icesave 3 samningana. Sú umsögn er í stuttu máli óskaplega rýrt plagg, bæði að efni og innihaldi.  Ein og hálf blaðsíða, og er þá bréfsefnishaus og undirritun talin með. Jafnvel TIF, sem í raun skilar bara inn skjali til að segja að þau hafi verið með í samningagerðinni og hafi því ekkert meira um málið að segja, nær að segja það á tveimur og hálfri síðu. Greinilega metnaðarfull vinna hjá ASÍ.

Í þessari umsögn gerir Gylfi Arnbjörnsson, sem undirritar hana, ansi margt til að verja og breiða yfir fyrri afglöp sín og Alþýðusambandsins í málinu. Gylfi gerir sér hins vegar ekki grein fyrir því að þessi yfirbreiðsla er götótt og gagnsæ. Hvergi í umsögninni er nokkuð getið um efnisatriði frumvarpsins sem ASÍ átti að veita umsögn um. Einni setningu er vikið að efnisatriðum samninganna, sem Gylfa og ASÍ er svo óskaplega umhugað um að verði ... jú þið gátuð rétt til ... staðfestir án tafar.

Grípum hér niður í nokkur atriði umsagnarinnar:

1) Gylfi ræðir um muninn á fyrri og núverandi samningum:

"Nýr samningur um lausn Icesave deilunnar virðist hagstæðari en fyrri samningar, þó erfitt sé að meta það einhlýtt."

Þetta er ótrúleg setning, komandi frá formanni samtaka sem á sínum snærum hefur t.d. hagfræðing í fullri vinnu. Það er ekkert flókið eða erfitt við að fjárhagslegan mun á Icesave 1 og Icesave 2. Fyrir utan það að forsendurnar eru útskýrðar nokkuð ítarlega í greinargerðinni með frumvarpinu sem ASÍ átti að veita umsögn um, tókst mörgum öðrum umsagnaraðilum ágætlega upp í því efni. Þar má t.d. nefna IFS greininguGAM Management og InDefence.  Að Gylfi Arnbjörnsson haldi því fram að erfitt sé að meta muninn á samningunum segir einfaldlega það að engin vinna fór í að skoða það.  Miðað við þetta lítur sannarlega út fyrir að Gylfi og félagar í ASÍ hafi hvorki lesið frumvarpið, greinargerðina né samningana sem þeim er svo annt um að koma í gildi.

2) Gylfi reynir að breiða yfir þann áþreifanlega árangur að vextir eru mun lægri en í samningunum sem hann vildi láta staðfesta 2009.

"Einnig skiptir máli að náðst hafa lægri vextir á lánum Breta og Hollendinga, þó fyrri samningar hafi falið í sér möguleika á endurupptöku þeirra ákvæða."

Það kom kyrfilega fram í löngum umræðum um Icesave 1 og Icesave 2 frá júní til desember 2009 að endurupptökuákvæði þeirra samninga voru fullkomlega ónýt. Í besta falli voru þau ákvæði loforð um teboð. Engin skylda lá á Bretum og Hollendingum að breyta neinu í skuldabréfinu eftir að það var komið í gildi, sama hvaða hörmungar dyndu yfir Ísland. Að halda því fram að "endurupptökuákvæði" Icesave 1 og 2 hafi gefið vonir um lækun vaxta síðar er algerlega óraunhæft og hreinlega ekki í neinni tengingu við raunveruleikann.

Þessi setning er þarna í þeim eina tilgangi að breiða yfir þá staðreynd að ASÍ barðist hart fyrir því að ábyrgð á einhliða skuldabréfi með 5,55% vexti (2,35 prósentustigum hærri en meðalvextir núverandi samninga), væri sett á íslenska skattgreiðendur án athugasemda.

3) Gylfi greinir  mismunandi stefnur sem málið hefði getað tekið:

Hvort er hyggilegra að fara fram með ákveðinni sjálfsgagnrýni gagnvart þeim atburðum sem hér urðu á fjármálamarkaði (án þess að hvika frá grundvallar hagsmunum okkar) en gera jafnframt kröfu um ákveðin skilningi [sic.] alþjóðasamfélagsins á getu okkar til að axla afleiðingar af óábyrgu hátterni bankamanna (innlendra sem erlendra)

eða

setja fram ýtrustu kröfur og taka á þeim af hörku án þess að setja okkur inn í þann vanda sem viðsemjendur okkar eru í.

Ef ég lít fram hjá þeirri staðreynd að þessi ambögutexti fer í mínar fínustu kennarataugar, þá eru þarna þrjú atriði sem ég geri alvarlegar athugasemdir við.

í fyrsta lagi, hvað á Gylfi við með að gefa í skyn að sjálfsgagnrýni vanti í Iceasve málinu? Íslendingar hafa lítið annað gert frá hruni en að gagnrýna eigið fjármála- og stjórnmálakerfi. Heil Rannsóknarskýrsla Alþingis hefur verið unnin og þar er "sjálfsgagnrýni á þá atburði sem urðu hér á fjármálamarkaði" upp á tæpar þúsund blaðsíður. Hvað vill Gylfi meira? Íslendingar hafa skipt um ríkisstjórn, skipt um Seðlabankastjórn, skipt um yfirmenn fjármálaeftirlits, og í Icesave málinu lýst ítrekað yfir pólitískum vilja til að taka ábyrgð á greiðslu 20.887 evra á hvern Icesave reikning. Gylfi Arnbjörnsson getur ekki haldið því fram sem rökum fyrir því að Icesave samninga hefði átt að samþykkja fyrr vegna þess að "sjálfsgagnrýni" skorti. Það sem skiptir máli í Icesave málinu er þetta: Þrátt fyrir alla þessa sjálfsgagnrýni, þá eigum við ekki að samþykkja hvaða samning sem er, hversu slæmur og áhættusamur hann er. En það er það sem Gylfi hefur talað fyrir frá upphafi og það er það sem þessi málsgrein er að segja í raun.

í öðru lagi, hvernig skilgreinir Gylfi "grundvallar hagsmuni okkar"? Það væri fróðlegt að fá nánari útskýringu á því hugtaki þarna, því að það má færa fyrir því rök í löngu máli að málflutningur Gylfa og ASÍ hafi frá upphafi Icesave málsins algerlega litið fram hjá "grundvallar hagsmunum okkar", a.m.k. eins og ég skilgreini þá. T.d. því grunnatriði að við eigum ekki að samþykkja samning sem hefur í för með sér 10-25% líkur á gjalþroti ríkissjóðs.

Í þriðja lagi er stórfurðurleg ályktun að Ísland hafi sett fram ítrustu kröfur og ekki sett okkur inn í vanda viðsemjenda okkar. Hvaða vanda? þær upphæðir sem Bretar og Hollendingar lögðu fram til að greiða út innistæður upp að 20.887 evrum eru smáaurar í heildarpakka sem þessi ríki hafa lagt fram til að bjarga eifin bankakerfi. Icesave krafa Bretlands nemur t.d. aðeins um 0,4% af þeim 512 milljörðum punda sem breska ríkið hefur lagt bönkunum til af skattfé. Eini vandi viðsemjenda okkar og alþjóðasamfélagsins er að innistæðutryggingakerfi Evrópusambandsins var og er meingallað, og það er pólitískt óhentugt að viðurkenna þann galla. Viðhalda verður blöffinu gagnvart innistæðueigendum svo þeir taki ekki út peningana sína. Fyrst og fremst þess vegna, þarf að sjást að Ísland borgi innistæður. Ísland er blóraböggull fyrir gallað kerfi ESB ríkjanna. Raunverulegur fjárhagslegur vandi Bretlands og Hollands vegna Iceasve er enginn.

Að halda því fram að Ísland hafi sett fram ítrustu kröfur í Icesave málinu er della. Ítrustu kröfur væru að borga ekki grónu á grundvelli þess að engin lagastoð er fyrir ríkisábyrgð á innistæðum í Evrópusambandinu eða á Íslandi. Þvert á móti hefur Ísland komið mjög langt til móts við ESB og viðsemjendur sína með Brussel viðmiðunum í nóvember 2008, þar sem skrifað var undir pólitíska lausn málsins. Hún fól það í sér að Ísland gekkst við greiðslum á lágmarkstryggingunni gegn því að fá samninga sem ekki knésettu landið og gerðu því kleift að endurreisa efnahagskerfið.  Íslendingar hafa alla tíð síðan staðið fullkomlega við sinn hluta þessa samkomulags. Aldrei hefur því verið lýst yfir að Ísland myndi ekki borga. Aftur og aftur hefur það verið áréttað að Ísland muni axla þessa ábyrgð, af ríkisstjórn, af forseta, í viljayfirlýsingum til AGS svo eitthvað sé nefnt.

Það má miklu frekar, og auðveldlega, halda því fram að samningsaðilar okkar hafi haldið fram ítrustu kröfum sínum og hreinlega ekki uppfyllt sinn hluta Brussel viðmiðana. Fyrsti samningurinn var með þvílíkum ólíkindum að það er furðulegt að nokkur íslensk samninganefnd hefði ljáð máls á því að skrifa undir það plagg, hvað þá ríkisstjórnin sjálf. Þar voru hagsmunir Íslands algerlega bornir fyrir borð. ASÍ krafðist þess að þeir yrðu samþykktir hið fyrsta. Annar samningurinn var litlu skárri og bar enn í sér stórhættu á gjaldþroti ríkisins eða eilífðarskuld þess með tilheyrandi álögum á skattgreiðendur áratugi inn í framtíðina. ASÍ krafðist þess að þeir yrðu samþykktir án tafar.

Að halda því fram að Íslendingar hafi verið óbilgjarnir og kröfuharðir í þessu máli er einfaldlega rangt Gylfi Arnbjörnsson. Þvert á móti hafa Íslendingar sýnt ótrúlega sanngirni gagnvart kröfum sem eiga sér enga lagastoð, og það þrátt fyrir tveggja ára langa kúgunartilburði viðsemjenda sinna á ýmsum vettvangi.

4) Gylfi reynir að kenna töfum Icesave málsins um skaddað lánstraust og glötuð tækifæri.

"Óvissan er búin að valda okku miklum búsifjum eins og m.a. margir af forsvarsmönnum stærstu fyrirtækja landsins í orku og hátækni hafa bent á. Lánstraust er minna, orðspor Íslands er laskað og miklir fjármunir og tækifæri hafa glatast vegna þessa."

Hvaða "margir forsvarsmenn" eru þetta Gylfi? Það sem Gylfi er að skauta yfir hér eigin málflutningi til hjálpar er að þessir forsvarsmenn eru í raun aðeins tveir, annars vegar talsmenn Landsvirkjunar og hins vegar forstjóri Össurar.

Landsvirkjun hefur verið í vanda við að fjármagna Búðarhálsvirkjun. En skýringin er einföld, og hún er sú að sú fjármögnun átti að koma úr Evrópska fjárfestingabankanum, banka sem er stýrt beint af fjármálaráðherrum Evrópuríkjanna. Í stjórn bankans eiga því sæti fjármálaráðherrar Bretlands og Hollands.  Að öðru leyti hefur Landsvirkjun fjármagnað sig að fullu til 2012.

Forstjóri Össurar lýsti því í haust  hversu erfitt Icesave málið væri fyrir fjármögnun einkafyrirtækja. Stuttu síðar bárust fréttir af fullri fjármögnun Marel, þar á meðal frá þrem stærstu bönkum Hollands. Þar þurfti að vísa frá lánsfjáreigendum sem vildu lána Íslensku fyrirtæki.

Þessi flökkusaga um að Icesave stöðvi allar erlendar lánveitingar og fjárfestingar á ekki við nein rök að styðjast og það er sorglegt að sjá henni haldið fram af ASÍ eftir öll þau augljósu dæmi sem komið hafa fram um hið gagnstæða. Til frekari glöggvunar á þessu bendi ég á "Viðauka IV: Icesave og erlend fjárfesting" í umsögn InDefence hópsins til fjárlaganefndar um Icesave 3. Þar er gerð ágæt grein fyrir þessum málum.

Varðandi lánstraust er vert að skoða skuldatryggingaálagið. Skuldatryggingaálag Íslands (til 5 ára) í byrjun nóvember 2010 (7 mánuðum eftir þjóðaratkvæði um Icesave) var 273 punktar. Það er aðeins 90 punktum yfir meðalskuldatryggingarálagi Vestur-Evrópuríkja, sem á sama tíma var 184 punktar. Til samanburðar má nefna að Grikkland stóð þá í 852 punktum, Portúgal í 439 punktum og Írland í 583 punktum.  NB: þetta er staðan tæpum mánuði áður en Írar fengu risalán frá AGS og ESB. Það má líka benda á að skuldatryggingaálag Íslands fór upp í 675 punkta í febrúar 2010.  Icesave þjóðaratkvæði var 6. mars og síðan þá var Icesave óleyst fram í desember.  Á þeim tíma lækkaði álagið stöðugt um c.a. 400 punkta. Það er líka vert að benda á að síðan Icesave 3 samningurinn kom á borðið í desember hefur skuldatryggingaálag Íslands hækkað.

Að síðustu

Hér hefur verið vitnað í 14 línur af samtals 34 sem umsögnin samanstendur af. Afgangurinn tengist ekki Icesave málinu á annan hátt en að þar er Alþingi eggjað til að ljúka málinu sem fyrst, annað muni hafa alvarlegar afleiðingar sem taldar eru upp. Vissulega er einnig hægt að gera ákveðnar athugasemdir við þann málflutning, en það skal látið kyrrt liggja hér.

Eftir stendur að það er óskiljanlegt hvers vegna heildarsamtök launamanna skila svona hrákavinnu til Alþingis í jafn mikilvægu máli, þar sem þau hafa verið áberandi aðilar á öðrum vængnum. forysta ASÍ skuldar félagsmönnum sínum, íslenskum skattgreiðendum, að taka ábyrgari þátt í Icesave umræðunni sem framundan er heldur en hún hefur sýnt hingað til. Fyrsta skrefið gæti verið að draga þetta skjal til baka og skila alvöru umsögn um málið til fjárlaganefndar


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband