Bloggfærslur mánaðarins, september 2010
Hvaða gildi hefur stjórnlagaþing?
26.9.2010 | 12:30
Breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins standa fyrir dyrum. Alþingi hefur sagt svo fyrir að þær breytingar skuli fara fram samkvæmt nýju ferli, þ.e. í gegn um sérstakt stjórnlagaþing sem leggi tillögur fyrir Alþingi að undangenginni umfjöllun þjóðfundar um stjórnarskrármálefni.
Þetta er mjög atygliverð tilraun. Íslenska stjórnarskráin er ekki gamalt plagg, í það minnsta ekki þegar borið er saman við stjórnarskrár margra nágrannalanda okkar. Sú bandaríska er frá 1789, sú norska fra 1814 og stjórnlög breta, þó ekki séu þau beinlínis sérstök stjórnarskrá, státa af langri sögu og þróun allt aftur til Magna Carta frá árinu 1215.
Þrátt fyrir litla elli í víðara samhengi má færa rök fyir því að íslenska stjórnarskráin sé að innihaldi komin að ákveðnu leyti til ára sinna. Hún er byggð að grunni til á stjórnarskrá Konungsríkisins Íslands frá 1920, sem var lagfæring á gjafastjórnarskrá konungs frá 1874 til samræmis við nýfengið fullveldi. Stjórnarskráin frá 1874 samræmdist aftur þeirri dönsku frá 1849. Þannig að í raun má segja að Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands eigi sér nú um 160 ára sögu.
Á þessum 160 árum hefur hún tekið töluverðum breytingum. Því er stundum haldið fram að svo sé ekki, en það þarf ekki annað en að bera saman þessi tvö skjöl, frá 1874 annars vegar og frá deginum í dag hins vegar, til að sjá að stjórnarskráin hefur í raun fylgt þróun íslensks samfélags og sambands þess við umheiminn í gegn um þessi 160 ár.Grunnatriði stjórnarskrárinnar frá 1944 eru hins vegar minna breytt, þ.e. fyrst og fremst sá kafli sem lýtur að grunnskipan ríkisins, fyrirkomulagi valddreifingar, grunnreglum réttarríkisins og þess háttar, og það má færa fyrir því sterk rök að slík grundvallaratriði þurfi að vera nokkuð stöðug til að stjórnarskrá njóti virðingar og réttmætrar stöðu sem grunnlög ríkisins.
Í stjórnarskránni birtist samfélagssáttmálinn.
Stjórnarskrá er eins konar samfélagssáttmáli, þ.e. grunnreglur sem við ákveðum að skuli gilda fyrir alla í samfélaginu og að skuli móta allar aðrar reglur þess. Hugmyndin um samfélagssáttmálann er auðvitað ekki ný af nálinni, hún er ein af þeim hugmyndum sem frönsku byltingarmennirnir höfðu að leiðarljósi þegar þeir kröfðust frelsis, jafnréttis og bræðralags í lok 18. aldar. Hugmyndin um samfélagssáttmálann er nátengd hugmyndum um hlutverk og takmörk ríkisvaldsins, þrískiptingu þess og réttindi og skyldur þegnanna, sem komu fram á þessum tíma og hafa mótað lýðræði, mannréttindi og skipan ríkisvalds á Vesturlöndum alla tíð síðan.
Sú heildarendurskoðun á stjórnarskrá Íslands sem liggur fyrir nú er því í raun heildarendurskoðun á þeim samfélagssáttmála sem við kjósum að leggja til grundvallar lífi okkar, og sem við viljum að móti líf og samfélag komandi kynslóða Íslendinga. Hún er í þeim skilningi hápólitískt mál. Alls ekki flokkspólitískt, heldur pólitískt á þann hátt að hún snertir grundvallar lífsskoðanir okkar, hugmyndir okkar um það hvers konar samfélag við viljum búa til og búa við. Að smíða nýja stjórnarskrá getur því aldrei orðið kalt og stranglega lögfræðilegt ferli. Það á ekki að vera það og má ekki vera það.
Eitt besta sögulega dæmið um það hvernig stjórnlagaþing getur á þennan hátt lagt grunn að samfélagi til framtíðar er stjórnarskrá Bandaríkjanna frá 1789. Grunngildi hennar eru enn í dag ein sterkasta stoð bandarísks samfélags. Hún kom fram á tíma þegar lýðræðislegt stjórnskipulag var ennþá ný hugmynd í heiminum, en það var hugmynd sem stjórnlagaþing þess tíma vildi að myndaði grunninn að hinu nýja samfélagi. Lífsskoðun og framtíðarsýn þeirra sem þar sátu réði ferðinni.
Nýja Ísland, hvenær kemur þú?
Stjórnlagaþing er því ekki fræðilegt fyrirbæri þar sem lögfræðin er kóngur. Þvert á móti er stjórnlagaþing lifandi vettvangur þjóðar til að vefa lífsskoðanir sínar, fortíðarreynslu og framtíðarsýn saman í nýjan samfélagssáttmála. Sáttmála sem getur leitt íslensku þjóðina inn í framtíðina á farsælan hátt. Með stjórnlagaþingi er okkur, íslensku þjóðinni, falið í hendur tækifæri til að leggja leikreglurnar fyrir nýtt samfélag. Nýtt Ísland. Nýtum það vel.Jóhannes Þ. Skúlason
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Auknar tekjur = auknir skattar
2.9.2010 | 15:11
Á næsta ári gerir Norræna velferðarstjórnin "aðeins" ráð fyrir 8 milljörðum í auknum tekjum ríkissjóðs. Þetta hljómar afskaplega áferðarfallegt svona á pólitíkusamáli. Ef við þýðum þessi ummæli Jóhönnu á mannamál hins vegar þá komumst við að því hvað þetta þýðir í raunveruleikanum.
"Aukna tekjur" eða "nýjar tekjur" ríkissjóðs þýðir aðeins eitt. Hærri skattar eða nýjir skattar. Ríkissjóður aflar tekna með skattheimtu. Ef ríkissjóður fær auknar tekjur þýðir það að einhver er að borga ríkissjóði þær tekjur í formi skatta. Svo einfalt er það.
Í umræðunni um fjármál og efnahagslíf undanfarin tvö ár þar sem upphæðirnar sem um ræðir eru gríðarlegar hvert sem litið er, er ekki skrýtið að töluskilningur fólks hafi almennt skekkst. Þegar talað er um t.d. 100 milljarða liggur við að fólk hvái: "Er það mikið eða lítið?" Því virðast 8 milljarðar kannski við fyrstu sýn vera dropi í haf ríkisfjármálanna.
En 8 milljarðar eru 8 þúsund milljónir. Það eru engir smápeningar. Sérstaklega ekki þegar ríkið ætlar sér að veiða þessar 8 þúsund milljónir upp úr vasa venjulegs fólks í landinu, ofan á allt sem á undan er gengið.
Íslendingar eru um 319 þúsund manns. 8 þúsund milljónir gera því rúmlega 25.000 krónur á hvern einasta Íslending. Það eru 100 þúsund krónur á ári fyrir venjulega fjögurra manna fjölskyldu. Aftur, það virðist kannski ekki mikið við fyrstu sýn, því hversu mikils virði er 100.000 kall í dag?
100 þúsund krónur á ári eru tæplega ein mánaðarlaun fyrir fólk sem dregur fram lífið á lægstu laununum.
100 þúsund krónur á ári jafngilda greiðslum fyrir skólamáltíðir beggja barnanna á heimilinu allt skólaárið.
100 þúsund krónur á ári kaupa tæplega 7 matarkörfur í ódýrustu matvöruverslun landsins skv. verðkönnun ASÍ.
100 þúsund krónur á ári kaupa um það bil tíu bensínáfyllingar fyrir venjulegan fjölskyldubíl.
100 þúsund krónur á ári kaupa notaðar skólabækur og ritföng fyrir unglinginn á heimlinu á ódýrasta skiptimarkaði landsins fyrir u.þ.b tvö framhaldsskóláár.
Og svo mætti lengi telja. Þetta er Ísland í dag. Íslenskar fjölskyldur finna sannarlega fyrir því þegar 100 þúsund krónur eru teknar úr veskinu þeirra á einu ári. Það gleymist allt of oft þegar ríkisstjórnin ákveður að hækka skatta að þessir peningar koma úr vösum fólks.
Þetta er í raun mjög einföld afleiðsla, "elementary, my dear Dr. Watson", eins og maðurinn sagði:
Auknir skattar lækka ráðstöfunartekjur fólks og skerða afkomu fyrirtækja.
-> fólk með lægri ráðstöfunartekjur þarf að oftar (og gjarnan á sársaukafyllri hátt) að velja og hafna í hvað það notar peningana sem koma upp úr launaumslaginu
-> fólk eyðir minni peningum því það hefur minni peninga milli handanna. Fólk neyðist til að minnka einkaneysluna því að skuldirnar og lánin lækka ekki.
-> minni peningar flæða út í atvinnulífið og efnahagslífið
-> Afkoma fyrirtækja skaðast vegna þess að færri kaupa vöru og þjónustu og fyrir minni peninga.
-> Fyrirtæki með skerta afkomu geta ekki haldið úti sömu starfsemi og áður. Skert afkoma = skert starfsemi
-> Launakostnaður fyrirtækja er oftast hár kostnaðarliður. Uppsagnir koma til hjá mörgum þeirra einfaldlega vegna þess að það er eina leiðin til að halda fyrirtækinu lifandi í núverandi efnahagsástandi og skattheimtustefnu.
-> Aukið atvinnuleysi verður til þess að fleiri hafa minna á milli handanna.
Þessi vítahringur er grafalvarlegur. Núverandi ríkisstjórn virðist halda að með aukinni skattheimtu skapist verðmæti. Það er einfaldlega ekki þannig. Því er líka stundum haldið fram að þetta sé í lagi því þetta séu skattar á fyrirtæki en ekki almenning. En það er bara ekki svo einfalt. Auknir skattar á fyrirtæki skerða afkomu þeirra einnig sem leiðir til aukins atvinnuleysis og hægari hagvaxtar. Almenningur borgar alltaf fyrir aukna skatta á endanum, annað hvort úr eigin vasa, vegna atvinnuleysis, vegna verðhækkana á vörum og þjónustu og svo framvegis.
Það versta við þetta allt er þetta hér: Réttlætingin fyrir því að hækka skatta á almenning og atvinnulífið er gjarnan sú að á Norðurlöndunum, sem þessi ríkisstjórn lítur mikið til og kennir sig við, er rekið velferðarsamfélag sem er fjármagnað með hærri skattprósentu en gerist á Íslandi. Þess vegna, segir ríkisstjórnin, hljótum við líka að geta hækkað skatta nokkuð og fengið velferðarsamfélag í staðinn, eins og þar.
En þar lýkur samanburðinum hentuglega. Í þessari samlíkingu er aldrei minnst á þá staðreynd að í norrænu velferðarsamfélögunum fá skattgreiðendur miklu, miklu meiri og betri þjónustu frá ríknu fyrir skattpeningnana sína heldur en Íslendingar. Þar tíðkast margs konar styrkir og þjónusta sem Íslendinga getur aðeins dreymt um, og það ekki aðeins vegna hrunsins heldur hefur það verið þannig lengi. Þar er hefð fyrir hárri skattprósentu og háu endurgjaldi í formi þjónustu til borgaranna.
Þegar skattar eru hækkaðir á Íslandi í dag fara þeir í að greiða niður vaxtagjöld ríkissjóðs vegna erlendra lána, sem sagt beint út úr landinu. Þeir fara í að stoppa upp í fjárlagagat ríkissjóðs. Eini staðurinn sem þeir fara ekki er út til borgaranna aftur.
Á Íslandi er nefnilega verið að skera harkalega niður þjónustu ríkisins við borgarana, t.d. í heilbrigðismálum og menntamálum, og hækka skatta á sama tíma. Meiri skattar, minni þjónusta.
Nú er komið nóg. Í alvöru, það er komið nóg. Heimilin í þessu landi þola ekki meira. Við höfum ekki meira að gefa ríkinu. Því miður, en það er bara þannig. Ef þetta heldur áfram þá er bara eitt skref eftir fyrir ótrúlega marga Íslendinga. Að pakka saman og flýja. Flytja til norrænu velferðarríkjanna, þar sem fólk á von um atvinnu, hærri laun en hér þrátt fyrir hærri skattprósentu og alvöru þjónustu frá ríkinu út á þá skattprósentu. Fólk mun fara. Það gerðist í Færeyjum og það er byrjað að gerast á Íslandi.
Skattahækkanir eru öruggasta leiðin til að hægja á endurreisninni. Ekki meir, í guðana bænum ekki meir.
8 milljarða nýjar tekjur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)