Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010
Sex afsakanir fyrir því að kjósa ekki – og af hverju þær virka ekki.
28.11.2010 | 00:56
Ég leyni því ekki að ég er undrandi og vonsvikinn með mína ágætu þjóð. Ég átti von á því að fólk sem hefur talað í tvö ár um
- - meiri áhrif fólksins í landinu,
- - meiri þátttöku í ákvarðanatökum um framtíðina,
- - minni áhrif stjórnmálaflokkanna,
- - að landið eigi að vera eitt kjördæmi eða að atkvæðavægi eigi að vera jafnt á annan hátt,
- - að við eigum að fá meiri rétt til að kjósa einstaklinga en ekki flokka persónukjör
myndi þegar allt þetta er í boði í einni atkvæðagreiðslu mæta á kjörstað og nýta tækifærið, nýta atkvæðisréttinn.
En nei. Staðreyndin virðist því miður vera sú að þegar tækifærið gefst þá sitja 60% þjóðarinnar heima og láta sér fátt um finnast. Það gerir mig sorgmæddari en orð fá lýst.
Ekki vegna þess að ég vildi að þetta fólk kysi mig. Nei. Vegna þess að nú munu úrtölumenn framtíðarinnar geta sagt: Þjóðaratkvæði? Þjóðarfrumkvæði? Lýðræði yfir höfuð? Það er ekki til neins, sjáið bara stjórnlagaþingskosningarnar.
Ég get á engan hátt skilið það hvers vegna fólk nýtir ekki atkvæðisréttinn, helgustu réttindi þegns í lýðræðissamfélagi. Ég bara skil það ekki.
Og skýringarnar sem ég heyri eru allar jafn ótrúlega fáránlegar og/eða órökréttar. Hér eru þær helstu:
1. Ég er að mótmæla þessu rugli, það á að eyða peningunum í mikilvægari hluti.
Mættu þá á kjörstað og skilaðu auðu. Það er líka gild afstaða. Og auður seðill er augljósari mótmæli en að sitja heima og vera flokkaður með letingjunum sem nenntu ekki eða var alveg sama.
2. Það eru of margir í framboði, ég hef ekki tíma/hef ekki þekkingu/get ekki valið 25 af 522.
Þú þurftir ekki að kjósa 25. Það var jafn gilt atkvæði að kjósa einn. Allir hefðu auðveldlega getað fundið einn af þessum 522 sem þeim leist vel á.
3. Þetta nýja kosningakerfi er svo flókið. Ég skil það ekki.
Þetta er einföld forgangsröðun. Sá sem þú vilt helst kjósa fer í efstu línuna, sá sem þér finnst næstbestur fer í línu tvö og svo framvegis. Í alvöru, hvað er flókið við þetta?
4. Þetta er of mikið vesen, of margar tölur, þetta mun taka of mikinn tíma, það verða endalausar biðraðir, ég nenni ekki að eyða öllum deginum í þetta.
Aftur, kjóstu þá bara einn=bara ein tala að muna. Notaðu æfingaseðilinn og afritaðu tölurnar yfir á kjörseðilinn í kjörklefanum=tekur 5 mínútur í mesta lagi. Það voru 10 kjörklefar í hverri kjördeild = ekki lengri biðröð en í öðrum kosningum. Þú ert letingi og þetta eru afsakanir letingjans.
5. Ég er á móti því að breyta stjórnarskránni, hún er fín eins og hún er. Hrunið var ekki stjórnarskránni að kenna.
Þá hefðir þú átt að kjósa þá frambjóðendur sem börðust fyrir nákvæmlega þessu, að breyta engu eða litlu. Þeir voru fleiri en 25. Þannig hefðir þú getað séð til þess að þín sjónarmið ættu málsvara á stjórnlagaþinginu. Með því að sitja heima hefur þú séð til þess að þín sjónarmið eiga minni möguleika.
6. Þetta skiptir engu máli. Helvítis Fjórflokkurinn á Alþingi mun ekkert fara eftir því sem stjórnlagaþingið segir. Helvítis stjórnmálamenn grumblegrumble
Ef einhver hefur séð til þess að þetta geti gerst þá ert það þú, sem sast heima og tókst ekki þátt. Því að sterkasta afsökun Alþingis til að breyta tillögum stjórnlagaþings eða fara ekki eftir þeim er einmitt að það hafi lélegt umboð þjóðarinnar, þ.e. að kosningaþátttakan hafi verið svo lág að stjórnlagaþingmenn séu ekki raunverulegir fulltrúar þjóðarinnar. Þetta er það sem kallað er self-fulfilling prophecy. Mundu því, að ef þetta gerist þá þýðir ekki að væla því það er á þína eigin ábyrgð!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mætum öll á kjörstað og nýtum atkvæðisréttinn!
21.11.2010 | 18:26
Þá er síðasta kosningabaráttuvikan runnin upp. Við frambjóðendur erum auðvitað á síðustu metrunum að reyna að koma okkur á framfæri og meðal þess sem ég hef gert í dag er að fara í útvarpsviðtal hjá RÚV og að útbúa dreifibréf sem mínir stuðningsmenn geta sent í tölvupósti eða prentað út og lagt fram eða hengt upp, t.d. á vinnustað sínum eða annarsstaðar þar sem áhugasamra kjósenda er von.
Viðtalið verður sent út á Gufunni einhvern næstu daga (það verður líka hægt að nálgast á netinu, ég mun birta tengilinn þegar þar að kemur) og dreifibréfinu er hægt að hala niður með því að smella hér (ath. að vel má prenta það út í svart-hvítu, engin þörf á litaprentun nema fólk vilji það heldur). Athugið að það er líka sem mynd hér neðst í pistlinum ef einhverjir vilja heldur dreifa því á því formi á vefnum, facebook eða annarsstaðar.
Ég hef fengið ábendingar um að við frambjóðendur séum of dugleg við að setja fram almennar áherslur en ekki nægilega skýrt hvernig við viljum ná þessum áherslum fram í komandi stjórnarskrá. Ég ætla að taka það ágæta fólk sem hefur bent á þetta á orðinu og nota vikuna til að setja inn stutta pistla um það hvernig má að mínu mati ná fram grundvallaratriðum sem ég vil leggja áherslu á. Þetta verður auðvitað ekki tæmandi, en ætti að gefa aðeins betri mynd af því hvernig ég hef hugsað þessa hluti.
Kosningarnar á laugardaginn skipta miklu máli. Mætum öll á kjörstað!
Kosið verður til stjórnlagaþingsins á laugardaginn. Ég hvet að sjálfsögðu alla til að skunda á kjörstað á laugardaginn og nýta atkvæðisréttinn, og þá gildir einu hvort fólk ætlar að kjósa mig eða einhvern annan. Lýðræðið er ekki sjálfgefið og það er skylda okkar sem í dag förum höndum um grunngildi íslenska lýðræðissamfélagsins að ganga um þau af virðingu. Við búum við lýðræði, en við þurfum samt að búa það til á hverjum degi. Þessa umgengni okkar við lýðræðið hef ég reyndar áður minnst á hér á síðunni, af öðru tilefni, en sá pistill á reyndar alveg jafn vel við núna. Ég ætla því ekki að endurorða hann hér heldur bara benda á hann og segja: Allir á kjörstað!
Þessar kosningar eru líka sérstaklega merkilegar íslenskri lýðræðissögu. Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins er viðhaft persónukjör í kosningum og ekki er síður merkilegt að nú er landið í fyrsta sinn í sögunni eitt kjördæmi. Báðar þessar hugmyndir hafa verið í umræðunni sem hugsanlegt framtíðarskipulag kosninga á Íslandi og það er því mikilvægt að kosningaþáttaka verði góð núna svo við fáum rétta mynd af því hvernig þessar tvær breytingar koma út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
ENGIN afsökunarbeiðni frá Bretum komin fram!
11.11.2010 | 23:24
Sumir íslenskir fjölmiðlar sýna af sér sömu gagnrýnu fréttamennskuna og venjulega þessa dagana og slá því upp að Liam Fox, utanríkisráðherra Breta, hafi beðið Íslendinga afsökunar á framferði Gordon Brown og félaga sem beittu hryðjuverkalögum gegn íslenska ríkinu, Seðlabankanum og stórsköðuðu íslenska hagsmuni um allan heim.
Þessa framsetningu éta þessir fjölmiðlamenn eftir norskum fjölmiðlamanni sem virðist gera sig sekan um heldur mikla oftúlkun á orðum Liam Fox. Fox viðurkenndi vissulega að beiting hryðjuverkalaganna hefði verið "ófáguð" aðgerð gagnvart öðru Natóríki, og að slíkt myndi ekki henda framar. Hvergi má þó lesa úr orðum hans formlega afsökunarbeiðni vegna þessarar skítaframkomu.
RÚV nær því sem Fox segir í raun:
"Liam Fox, nýr varnarmálaráðherra Breta, segir að hryðjuverkalögum verði ekki aftur beitt gegn bandalagsþjóð eins og gert var þegar íslensku bankarnir hrundu haustið 2008. Í viðtali við norska blaðið Aftenposten segir hann þessar aðfarir óheflaðar. Hann vildi þó ekki biðjast afsökunar á því sem gerðist."
Sem sagt: Engin afsökunarbeiðni!
Staðreyndir málsins eru eftir sem áður þessar:
Bretar hafa ekki beðist formlega afsökunar á því að beita hryðjuverkalögum gegn Íslendingum, né á þeirri staðreynd að forsætisráðherra þeirra og fjármálaráðherra héldu ítrekað fram í alþjóðlegum fréttamiðlum þeirri augljósu lygi að Ísland væri gjaldþrota ríki.
Bretar hafa heldur ekki ljáð máls á því að bæta Íslendingum það mikla tjón sem beitingin olli íslenskum fyrirtækjum og íslenskum hagsmunum um allan heim á meðan Ísland sat á opinberum lista breska fjármálaráðuneytisins yfir hryðjuverkasamtök og ríkisstjórnir sem styðja og hvetja til hryðjuverka.
Bretar hafa þvert á móti gert allt sem í þeirra valdi stendur til að nýta sér veru Íslands á þessum lista til fullnustu í Icesave málinu. Þannig kom það t.d. skýrt og greinilega fram á fundi InDefence hópsins með breskum þingmönnum og fulltrúum breska utanríkisráðuneytisins í mars 2009 að Ísland yrði ekki tekið af listanum fyrr en Ísland hefði samið um fulla "endurgreiðslu" á Icesave "skuldinni". Veru Íslands á hryðjuverkalistanum og þeim skaða sem það augljóslega hélt áfram að valda var svo haldið yfir Íslendingum sem Damoclesarsverði allt fram til júní 2009, þegar Svavarsnefndin samdi á herfilegan hátt um Icesave, einmitt undir pressu hryðjuverkalistans.
Allur framgangur Breta í Icesave málinu hefur einkennst af kúgunartilburðum stórveldis gagnvart lítilli þjóð, t.d. hafa þeir beitt áhrifum sínum innan AGS til að stöðva framgang endurreisnaráætlunar Íslands og þvinga þannig íslensk stjórnvöld í tvígang til að samþykkja ósanngjarna og gífurlega áhættusama Icesave samninga.
EFTIRLÝST: Viðbrögð Íslenskra stjórnvalda.
Íslensk stjórnvöld hafa satt best að segja hagað sér eins og fábjánar í þessu máli frá upphafi þess árið 2008. Virðist þar engu skipta hvaða stjórnmálaflokkar hafa setið á valdastólum. Hvar er krafan um formlega afsökunarbeiðni vegna hryðjuverkalaganna? Af hverju leið heilt ár áður en íslensk stjórnvöld tóku þessa fullkmomlega óeðlilegu hegðun Breta upp á vettvangi NATÓ? Hvers vegna var sendiherra Íslands í Bretlandi ekki kallaður heim samdægurs þegar þetta gerðist? Hvers vegna er Bjarni Benediktsson fyrsti formaður íslensks stjórnmálaflokks sem hittir breskan forsætisráðherra augliti til auglitis tveimur árum eftir þessa atburði? Af hverju hafa allar íslensku ríkisstjórnirnar þrjár sem fjallað hafa um þetta mál gersamlega klúðrað öllum PR málum varðandi það? Hvers vegna þurfti átak grasrótarhóps til þess að snúa við fyrirsögnunum í erlendum fjölmiðlum sem æptu viku eftir viku haustið 2008 að Íslendingar væru gjaldþrota þjófar og glæpamenn? Hvers vegna birtist fyrsta greinin eftir íslenskan forsætisráðherra í stórum erlendum fjölmiðli ekki fyrr en rúmu ári eftir að þetta gerðist?
Hvers vegna í ósköpunum hef ég, grunnskólakennari í Breiðholti, ásamt öðru fólki af götunni þurft að eyða tveimur árum í að vinna vinnuna þeirra við að kynna málstað Íslands, leiðrétta alls konar undarlegan misskilning, útskýra ástandið á Íslandi, benda á einfaldar staðreyndir um Icesave reikningana, sýna fram á að Landsbankinn var einkafyrirtæki sem skattgreiðendur bera ekki ábyrgð á, koma erlendum fréttamönnum í skilning um að Icesave málið snýst um ríkisábyrgð en ekki lögformlegar "skuldir", hamra á því í á fjórða hundrað viðtölum við erlenda fjölmiðla síðastliðin tvö ár að hegðun Breta gagnvart Íslandi hafi ekki verið eðlileg og að þeir skuldi okkur formlega afsökunarbeiðni og bætur fyrir skaðann?
Ég hreinlega lýsi eftir frumkvæði íslenskrar ríkisstjórnar við að krefjast alvöru formlegrar afsökunarbeiðni frá Bretum vegna hryðjuverkalaganna. Samskipti Íslands við þetta ríki eiga ekki að vera eðlileg þar til slík afsökunarbeiðni liggur fyrir. Við erum búin að bíða í tvö ár. Við erum ekki til í að bíða í tvö í viðbót.
Heitir því að beita ekki hryðjuverkalögum á NATO þjóð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)