Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009
35.203 undirskriftir tilbúnar til afhendingar
31.12.2009 | 02:18
InDefence hópurinn fagnar því að fá tækifæri til að koma vilja þjóðarinnar á framfæri við forseta Íslands við afhendingu undirskrifta rúmlega fjörtíu þúsund Íslendinga.
InDefence hópurinn hefur verið beðinn að vera tilbúinn að afhenda undirskriftirnar með stuttum fyrirvara. við verðum tilbúin þegar þar að kemur. Nú þegar hafa 35.203 undirskriftir verið sannreyndar með samkeyrslu við þjóðskrá og það sem kemur í nótt verður sannreynt fyrir klukkan átta í fyrramálið.
InDefence hópurinn hefur ákveðið að hægt verður að skrifa undir áskorunina á http://indefence.is allt þar til forseti hefur tilkynnt ákvörðun sína. Fjöldi heildarskráninga á síðuna nálgast nú 45.000 hratt.
Við gerum eðlilega ráð fyrir því að afhenda langstærstan meirihluta þeirra áður en forseti tekur ákvörðun, en við ábyrgjumst að allar sannreyndar undirskriftir verða afhentar forsetaembættinu.
Yfir 42 þúsund skorað á forseta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hvað með Sviss? Rangt hjá Árna Þór.
29.12.2009 | 10:11
Enn og aftur er það dregið upp sem einhver Stóri Sannleikur að "almennt sé viðurkennt" hjá "flestum þjóðum" að ákveðin mál megi ekki setja í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú segir Árni Þór Sigurðsson þetta:
Auk þess er það yfirleitt svo hjá þeim þjóðum sem hafa slíkan ramma [um þjóðaratkvæðagreiðslur] að mál af ýmsum gerðum eru undanskilin þjóðaratkvæðagreiðslum, s.s. fjárlög, skattamál, þjóðréttarlegar skuldbindingar og slíkir hlutir. Þetta mál er þeirrar gerðar. Ég sé ekki að þetta sé bært til að setja í þann farveg, segir Árni
Í ljósi þessa vil ég benda Árna Þór Sigurðssyni, Steingrími J. Sigfússyni, Björgvin Sigurðssyni og öðrum sem viðhafa sömu rök, á eftirtaldar, einfaldar staðreyndir:
1. Danmörk eina Norðurlandaríkið sem hefur slík takmarkandi ákvæði í stjórnarskrá sinni.
2. Af stjórnarskrám helstu nágrannaríkja okkar eru aðeins Danmörk og Ítalía sem undanskilja ákveðin málefni þjóðaratkvæði á þennan hátt. Þar eru sérstaklega tiltekin fjárlög og alþjóðasamningar.
3. Mjög skýrt dæmi um hið gagnstæða er Sviss, ríki með mjög sterka hefð fyrir beinu lýðræði. Í Sviss getur almenningur (með undirskriftasöfnun) krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um hvaða mál sem er. eina skilyrðið er að 50.000 undirskriftir safnist á innan við 100 dögum. Engin málefni eru þar undanskilin, hvorki alþjóðasamningar né fjárlög. Þessu gleyma Árni Þór og félagar alltaf á hentugan hátt þegar þeir draga dönsku stjórnarskrána fram sem dæmi.
4. Því má bæta við að 50.000 manns eru 0,6% af svissnesku þjóðinni,sem telur um 8 milljónir manna. Í dag hafa 33.000 undirskriftir á www.indefence.is verið sannreyndar með samkeyrslu við þjóðskrá. Það eru 10,4% af íslensku þjóðinni (m.v. desembertölur Hagstofunnar). Það er sautjánfaldur fjöldi þeirra sem til þyrfti ef notast væri við sama hlutfall og í Sviss.
5. Icesave samningarnir eru ekki alþjóðasamningar. Stór hluti af vandanum við samningana kemur til vegna þess að þeir eru lánasamningar gerðir á grundvelli einkaréttar, sem íslenska ríkið á aðeins aðild að sem ábyrgðaraðili.
6. Þjóðaratkvæðagreiðsla um málið eins og það liggur nú fyrir Alþingi myndi því ekki snúast um rétt ríkisins til að skuldbinda ríkissjóð skv. alþjóðasamingi. Auk þess hefur Alþingi þegar samþykkt að veita ríkisábyrgð að uppfylltum ákveðnum fyrirvörum. Bretar og Hollendingar eru því með vilyrði í höndunum fyrir fullgildum samningi. Þjóðaratkvæðagreiðsla um málið eins og það er nú myndi því aðeins snúast um það hvort breytingalögin, (þ.e. nýju útþynntu fyrirvararnir), ættu að gilda eða hvort lögin sem nú eru í gildi, (gömlu fyrirvararnir frá því í ágúst) ættu að gilda áfram.
Og hér er svo að síðustu áleitin spurning sem ég skora á Árna Þór og félaga að svara opinberlega:
7. Ef það er rétt sem sumir halda fram (með sérvöldum dæmi um dönsku stjórnarskrána sér til stuðnings), að það sé almennt ekki álitið gott að alþjóðasamningar og mál sem lúta að fjárskuldbindingum ríkisins séu lögð í þjóðaratkvæði, hvers vegna eru þá allir stjórnmálaflokkar á Íslandi, og flest nágrannaríki (t.d. Danmörk) sammála um að aðildarsamning við ESB skuli ótvírætt leggja undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar?
Aðildarsamningur Íslands að ESB hlýtur að vera mikilvægasti alþjóðasamningur Íslandssögunnar, auk þess sem aðild að ESB myndi krefjast mikilla fjárskuldbindinga af hendi Íslands, sem og ákveðið afsal fullveldisréttinda í hendur yfirþjóðlegu valdi og mögulega einhvers konar afsal yfirráða (eða sameiginleg yfirráð að einhverju marki) yfir auðlindum landsins, t.d. fiskimiðum.
Árni Þór,hvernig eru þetta samrýmanleg sjónarmið:
a) annars vegar að þjóðinni skuli skilyrðislaust ráða örlögum aðildarsamnings að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu,
og
b) hins vegar að þjóðin geti ekki fengið að segja álit sitt á einfaldri ríkisábyrgð á einföldum lánasamningi ríkissjóðs vegna þess að "það sé almennt viðurkennt að milliríkjasamninga og málefni varðandi fjárskuldbindingar ríkisins séu undanskilin, eða henti ekki, þjóðaratkvæði" ?
Rúmlega 30.000 Íslendingar sem hafa ritað nafn sitt á indefence.is eiga kröfu á skýru og greinargóðu svari frá Árna Þór Sigurðssyni, Steingrími J. Sigfússyni, Björgvin Sigurðssyni og öllum öðrum sem hafa á síðustu vikum fullyrt að þjóðin geti ekki fengið að greiða atkvæði um ný Icesave lög, og hafa aðeins nefnt dönsku stjórnarskrána sem sitt eina haldreipi því til stuðnings. Slík rökfærsla er aðeins til þess fallin að kasta ryki í augu fólks.
Fyrst þyrfti löggjöf um þjóðaratkvæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |