Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009
Áskorun til forseta Íslands. Þjóðaratkvæðagreiðsla um ný Icesave-lög. - www.indefence.is
26.11.2009 | 00:14
* Kjarni málsins er sú sanngjarna krafa að hin þunga efnahagslega byrði, sem ríkisábyrgð leggur á íslenskan almenning og framtíðarkynslóðir þessa lands, verði borin undir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.
* Staðfesting forsetans á lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave síðastliðið sumar var með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis.
* Fyrirvarar Alþingis eru fyrir borð bornir í nýju Icesave-lagafrumvarpi.
Alþingi Íslendinga hefur nú til meðferðar frumvarp til breytinga á lögum nr. 96/2009 um ríkisábyrgð á Icesave samningum. Verði frumvarpið samþykkt, sem enn verður að vona að ekki komi til, er ljóst að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar er stefnt í hættu vegna krafna sem fullar forsendur eru til að þjóðin hafni. Framtíðarkynslóðir Íslands yrðu skuldsettar og lífskjör þeirra skert um langa framtíð.
Við staðfestingu laga nr. 96/2009 ítrekaði forseti Íslands mikilvægi fyrirvara Alþingis með sérstakri áritaðri tilvísun til þeirra, sbr. yfirlýsingu hans dags. 2. september 2009.
Þeir fyrirvarar við ríkisábyrgð sem samþykktir voru í ágúst voru sameiginleg niðurstaða fjögurra þingflokka á Alþingi en með þeim setti Alþingi upp efnahagslegt skjól fyrir þjóðina. Fyrirvararnir taka mið af sanngjörnum rétti og hagsmunum Íslendinga og alþjóðlegri samábyrgð, eins og segir í yfirlýsingu forseta Íslands.
Í nýja Icesave-frumvarpinu eru þeir fyrirvarar Alþingis sem mestu skipta til að takmarka ríkisábyrgðina og verja hagsmuni þjóðarinnar vegna Icesave-samninganna hins vegar nánast að engu gerðir. Með samþykki þessa frumvarps verða skuldbindingar íslenska ríkisins á ný ófyrirsjáanlegar bæði hvað varðar fjárhæðir og tímalengd.
InDefence hópurinn efndi til undirskriftasöfnunar í október 2008 vegna beitingar hryðjuverkalaga gegn Íslendingum. Tugir þúsunda tóku þátt í þeirri söfnun, sem vakti heimsathygli. Með þá reynslu í huga hefur hópurinn ákveðið að efna til undirskriftasöfnunar nú meðal Íslendinga þar sem skorað er á forseta Íslands að synja breytingalögum vegna Icesave-samninga staðfestingar. Í kjölfarið verði sú efnahagslega byrði sem ríkisábyrgðin leggur á íslenskan almenning og framtíðarkynslóðir þessa lands borin undir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ég skora á forseta Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson, að synja nýjum Icesave-lögum staðfestingar. Ég tel að það sé sanngjörn krafa að sú efnahagslega byrði, sem ríkisábyrgðin leggur á íslenskan almenning og framtíðarkynslóðir þessa lands, verði borin undir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Forseti synji Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Árituð tilvísun forseta til fyrirvara Alþingis og ný Icesave lög.
25.11.2009 | 12:47
Eftirfarandi grein eftir undirritaðan og Eirík Svavarsson lögmann birtist í Morgunblaðinu í dag.
---
Árituð tilvísun forseta til fyrirvara Alþingis og ný Icesave lög.
Í september staðfesti forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, lög nr. 96/2009 um ríkisábyrgð vena Icesave. Alþingi hafði þá samþykkt ríkisábyrgð með sérstökum fyrirvörum sem voru afleiðing þverpólitísks samstarfs þingmanna úr öllum flokkum. Einnig komu að gerð fyrirvaranna fjöldi sérfræðinga og áhugafólks úr röðum almennings.
Með hliðsjón af þessu kaus forseti Íslands að staðfesta lögin með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis. Um leið og hann staðfesti lögin, þann 2. september 2009, gaf hann út yfirlýsingu sem sjá má á heimasíðu forsetaembættisins. Í tilvísun forseta sagði meðal annars að fyrirvararnir sem Alþingi samþykkti tækju að hans mati mið af: sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagsmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð."
Með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis hefur forseti ítrekað að hann telji fyrirvarana svo mikilvægan hluta laganna að staðfesting hans hafi krafist sérstakrar tilvísunar til þeirra. Af þessari sérstöku áherslu forseta má því álykta að án fyrirvaranna hefði hann synjað lögunum staðfestingar. Að öðrum kosti hefði sérstakrar tilvísunar til þeirra tæpast verið þörf. Þar fyrir utan er sérstök árituð tilvísun forseta Íslands við staðfestingu laga að öllum líkindum fordæmalaus í lýðveldissögunni.
Ný Icesave lög fella niður marga fyrirvara Alþingis.
Alþingi Íslendinga hefur nú til meðferðar frumvarp sem felur í sér grundvallar breytingar á lögum nr. 96/2009 um ríkisábyrgð vegna Icesave. Margir fyrirvarar Alþingis sem forseti vísaði til í sérstakri áritun sinni eru felldir niður að hluta eða í heild. Sem dæmi um mikilvæg ákvæði í þessu sambandi sem nú eru í gildi í fyrirvörum Alþingis má nefna fyrirvara um lok ríkisábyrgðar árið 2024 og fyrirvara um að allar greiðslur skuli háðar ákveðnu hámarki miðað við hagvöxt. Í nýju frumvarpi er fallið frá þessum fyrirvörum og gert ráð fyrir því að ríkisábyrgð hafi engan endi, heldur framlengist um fimm ár í senn þar til skuldin er að fullu greidd. Jafnframt er gert ráð fyrir að vextir skuli ávallt greiddir utan greiðsluhámarks, óháð íslenskum hagvexti.
Af þessu er ljóst að sérstök árituð tilvísun forseta Íslands til fyrirvara Alþingis hlýtur að hafa gildi ef þetta nýja Icesave frumvarp verður samþykkt á Alþingi og verður lagt fyrir forseta til staðfestingar. Forseti Íslands setti sér, með áritaðri tilvísun í september s.l., ákveðin og skýr viðmið um að lög um ríkisábyrgð vegna Icesave skuli til að hljóta staðfestingu taka mið af sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð." Þessi skilyrði taldi hann einungis vera uppfyllt með fyrirvörum Alþingis í núgildandi lögum.
Getur forseti Íslands staðfest ný lög um Icesave miðað við eigin skilyrði?
Af ofansögðu má þrennt ljóst vera:
1. Forseti Íslands taldi fyrirvara Alþingis forsendu staðfestingar laga um ríkisábyrgð vegna Icesave. Ekki er hægt að túlka sérstaka áritaða tilvísun hans til fyrirvara Alþingis á annan hátt.
2. Ný lög um Icesave munu fella úr gildi marga af mikilvægustu fyrirvörum Alþingis, sem forseti lagði svo sérstaka áherslu á við staðfestingu laganna.
3. Forseti hefur með opinberri yfirlýsingu sett sér og embætti sínu skýr viðmið um það hvaða skilyrði lög um ríkisábyrgð vegna Icesave skulu uppfylla til að hljóta staðfestingu forseta.
Í ljósi þessa hlýtur það að vera sanngjarnt að spyrja hvort forseti Íslands verði samkvæmur eigin yfirlýsingu, ef ný lög um ríkisábyrgð vegna Icesave berast honum til staðfestingar? Ef forseti leggur í raun og sannleika áherslu á að slík lög taki mið af hagsmunum Íslendinga á komandi árum, sem hann taldi fyrirvara Alþingis tryggja í september, á hann tæpast annarra kosta völ nú en að synja lögunum staðfestingar og leggja þau í dóm íslensku þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Slík staðfesta í máli sem varðar sanngjarnan rétt þjóðarinnar, þar sem óumdeilanlega er verið að leggja miklar efnahagslegar byrðar á núverandi og komandi kynslóðir Íslendinga, hlyti að teljast forseta Íslands til sóma.
79 þúsund borga Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |