Nýtt ár - ný áskorun
23.1.2011 | 13:46
Fyrir jólin fékk ég spennandi atvinnutilboð sem ég bara gat ekki hafnað. Það sneri tilveru minni eins og ég hafði planað hana næsta árið algerlega á haus og þýðir að ég segi skilið við kennsluna, hætti störfum í Kennarasambandinu, hætti að taka daglegan þátt í starfi InDefence hópsins og færi mig yfir í pólitíkina.
Ég er búinn að eiga rúm tíu góð ár í Seljaskóla, búinn að fá að vinna þar með hreint frábæru fólki í skemmtilegu og jákvæðu umhverfi og ég á eftir að sakna skólans, vinnufélaganna og krakkanna alveg skelfilega. Fyrir félagsmálakarl eins og mig sem þrífst best í mannfjölda og ati er það svolítið skringileg tilhugsun að sitja hugsanlega einn inni á skrifstofu stóran hluta dagsins, með tölvuna sem félagsskap. Ég hef sömuleiðis átt frábært samstarf við það góða fólk sem vinnur að hagsmunamálum kennara hjá FG og KÍ, sem nú verður endir á þar sem ég hætti að kenna.
Sömuleiðis verður skrýtið að skilja við InDefence starfið, sem er búið að stjórna lífi mínu mikið undanfarin tvö ár. Það er búið að vera algerlega frábært að upplifa þá vinnu, með þessum ótrúlega ólíku einstaklingum, í hóp þar sem mismunandi stjórnmálaskoðanir víkja fyrir sameiginlegu markmiði. Ég hefði ekki trúað því fyrirfam að svona vinna gæti virkað á þann hátt sem hún gerir.
Ég er búinn að vera ótrúlega heppinn með öll þessi störf, gengið vel og náð ágætum árangri í þessu öllu saman. Ég er þakklátur fyrir það og vil nota þetta tækifæri til að þakka öllu þessu góða fólki fyrir samstarfið á liðinum árum. Takk öll, fyrir að hjálpa mér að gera mitt besta.
Athugasemdir
Gangi þér vel með nýja starfið Jóhannes. 'Eg er líka að breyta til og hætta í starfi sem ég hef verið í meira og minna í yfir 30 ár. Það verður erfitt en ég hlakka til að fara út í aðra sálma, og einfalda lífið.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.1.2011 kl. 14:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.