Sex afsakanir fyrir því að kjósa ekki – og af hverju þær virka ekki.
28.11.2010 | 00:56
Ég leyni því ekki að ég er undrandi og vonsvikinn með mína ágætu þjóð. Ég átti von á því að fólk sem hefur talað í tvö ár um
- - meiri áhrif fólksins í landinu,
- - meiri þátttöku í ákvarðanatökum um framtíðina,
- - minni áhrif stjórnmálaflokkanna,
- - að landið eigi að vera eitt kjördæmi eða að atkvæðavægi eigi að vera jafnt á annan hátt,
- - að við eigum að fá meiri rétt til að kjósa einstaklinga en ekki flokka persónukjör
myndi þegar allt þetta er í boði í einni atkvæðagreiðslu mæta á kjörstað og nýta tækifærið, nýta atkvæðisréttinn.
En nei. Staðreyndin virðist því miður vera sú að þegar tækifærið gefst þá sitja 60% þjóðarinnar heima og láta sér fátt um finnast. Það gerir mig sorgmæddari en orð fá lýst.
Ekki vegna þess að ég vildi að þetta fólk kysi mig. Nei. Vegna þess að nú munu úrtölumenn framtíðarinnar geta sagt: Þjóðaratkvæði? Þjóðarfrumkvæði? Lýðræði yfir höfuð? Það er ekki til neins, sjáið bara stjórnlagaþingskosningarnar.
Ég get á engan hátt skilið það hvers vegna fólk nýtir ekki atkvæðisréttinn, helgustu réttindi þegns í lýðræðissamfélagi. Ég bara skil það ekki.
Og skýringarnar sem ég heyri eru allar jafn ótrúlega fáránlegar og/eða órökréttar. Hér eru þær helstu:
1. Ég er að mótmæla þessu rugli, það á að eyða peningunum í mikilvægari hluti.
Mættu þá á kjörstað og skilaðu auðu. Það er líka gild afstaða. Og auður seðill er augljósari mótmæli en að sitja heima og vera flokkaður með letingjunum sem nenntu ekki eða var alveg sama.
2. Það eru of margir í framboði, ég hef ekki tíma/hef ekki þekkingu/get ekki valið 25 af 522.
Þú þurftir ekki að kjósa 25. Það var jafn gilt atkvæði að kjósa einn. Allir hefðu auðveldlega getað fundið einn af þessum 522 sem þeim leist vel á.
3. Þetta nýja kosningakerfi er svo flókið. Ég skil það ekki.
Þetta er einföld forgangsröðun. Sá sem þú vilt helst kjósa fer í efstu línuna, sá sem þér finnst næstbestur fer í línu tvö og svo framvegis. Í alvöru, hvað er flókið við þetta?
4. Þetta er of mikið vesen, of margar tölur, þetta mun taka of mikinn tíma, það verða endalausar biðraðir, ég nenni ekki að eyða öllum deginum í þetta.
Aftur, kjóstu þá bara einn=bara ein tala að muna. Notaðu æfingaseðilinn og afritaðu tölurnar yfir á kjörseðilinn í kjörklefanum=tekur 5 mínútur í mesta lagi. Það voru 10 kjörklefar í hverri kjördeild = ekki lengri biðröð en í öðrum kosningum. Þú ert letingi og þetta eru afsakanir letingjans.
5. Ég er á móti því að breyta stjórnarskránni, hún er fín eins og hún er. Hrunið var ekki stjórnarskránni að kenna.
Þá hefðir þú átt að kjósa þá frambjóðendur sem börðust fyrir nákvæmlega þessu, að breyta engu eða litlu. Þeir voru fleiri en 25. Þannig hefðir þú getað séð til þess að þín sjónarmið ættu málsvara á stjórnlagaþinginu. Með því að sitja heima hefur þú séð til þess að þín sjónarmið eiga minni möguleika.
6. Þetta skiptir engu máli. Helvítis Fjórflokkurinn á Alþingi mun ekkert fara eftir því sem stjórnlagaþingið segir. Helvítis stjórnmálamenn grumblegrumble
Ef einhver hefur séð til þess að þetta geti gerst þá ert það þú, sem sast heima og tókst ekki þátt. Því að sterkasta afsökun Alþingis til að breyta tillögum stjórnlagaþings eða fara ekki eftir þeim er einmitt að það hafi lélegt umboð þjóðarinnar, þ.e. að kosningaþátttakan hafi verið svo lág að stjórnlagaþingmenn séu ekki raunverulegir fulltrúar þjóðarinnar. Þetta er það sem kallað er self-fulfilling prophecy. Mundu því, að ef þetta gerist þá þýðir ekki að væla því það er á þína eigin ábyrgð!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:22 | Facebook
Athugasemdir
Sjómenn höfðu nú ekki allir möguleika á því að kjósa vegna vinnu sinnar.
Er það lýðræðislegt að hafa ekki veitt þeim möguleika á því að kjósa?
Þess vegna fór ég ekki á kjörstað, því ég er sjómaður.
Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 01:32
Það eru margir fúlir út af þessu. Annars er þetta sallafín samantekt - eiginlega svo góð að það er varla hægt að rífast um þetta lengur. Að vísu vantar "Ég tek ekki þátt í neinu sem kemur frá helv... vinstristjórninni..." en þá væri þetta upptalið.
Verður örugglega linkað helling á þig í framhaldinu
Svo er þetta klúður sem bent er á hér að ofan - náttúrlega óásættanlegt!
Haraldur Rafn Ingvason, 28.11.2010 kl. 02:14
Sorglegt mál og sorglegir einstaklingar sem kusu að vera heima og skemma þessa frumraun á heimsmælikvarða til að hafa áhrif í lýðræðisátt.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.11.2010 kl. 02:18
Algerlega sammála Stefáni þarna, það er til skammar að svona hafi verið farið með sjómenn.
En ég er ekki sammála því að vegna þess að sumir sjómenn gátu ekki kosið ættu allir sjómenn að sleppa því að kjósa til að mótmæla.
Ég er svo sem ekkert fúll yfir þessu í sjálfu sér, þetta var bara svona í þetta sinn og það verður að hafa það. En ég hef áhyggjur af því að við séum ekki komin lengra en þetta, að fólk skuli eftir tvö ár af mótmælum og ákalli um meiri áhrif ekki átta sig á því að hér er tækifærið til að hafa áhrif lifandi komið. Og ég hef miklar áhyggjur af því að þetta verði notað gegn lýðræðisþróun hér í framtíðinni.
Jóhannes Þór Skúlason, 28.11.2010 kl. 10:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.