Mætum öll á kjörstað og nýtum atkvæðisréttinn!

Þá er síðasta kosningabaráttuvikan runnin upp. Við frambjóðendur erum auðvitað á síðustu metrunum að reyna að koma okkur á framfæri og meðal þess sem ég hef gert í dag er að fara í útvarpsviðtal hjá RÚV og að útbúa dreifibréf sem mínir stuðningsmenn geta sent í tölvupósti eða prentað út og lagt fram eða hengt upp, t.d. á vinnustað sínum eða annarsstaðar þar sem áhugasamra kjósenda er von.

Viðtalið verður sent út á Gufunni einhvern næstu daga (það verður líka hægt að nálgast á netinu, ég mun birta tengilinn þegar þar að kemur) og dreifibréfinu er hægt að hala niður með því að smella hér (ath. að vel má prenta það út í svart-hvítu, engin þörf á litaprentun nema fólk vilji það heldur). Athugið að það er líka  sem mynd hér neðst í pistlinum ef einhverjir vilja heldur dreifa því á því formi á vefnum, facebook eða annarsstaðar.

Ég hef fengið ábendingar um að við frambjóðendur séum of dugleg við að setja fram almennar áherslur en ekki nægilega skýrt hvernig við viljum ná þessum áherslum fram í komandi stjórnarskrá.  Ég ætla að taka það ágæta fólk sem hefur bent á þetta á orðinu og nota vikuna til að setja inn stutta pistla um það hvernig má að mínu mati ná fram grundvallaratriðum sem ég vil leggja áherslu á.  Þetta verður auðvitað ekki tæmandi, en ætti að gefa aðeins betri mynd af því hvernig ég hef hugsað þessa hluti.

Kosningarnar á laugardaginn skipta miklu máli. Mætum öll á kjörstað!

Kosið verður til stjórnlagaþingsins á laugardaginn. Ég hvet að sjálfsögðu alla til að skunda á kjörstað á laugardaginn og nýta atkvæðisréttinn, og þá gildir einu hvort fólk ætlar að kjósa mig eða einhvern annan. Lýðræðið er ekki sjálfgefið og það er skylda okkar sem í dag förum höndum um grunngildi íslenska lýðræðissamfélagsins að ganga um þau af virðingu. Við búum við lýðræði, en við þurfum samt að búa það til á hverjum degi. Þessa umgengni okkar við lýðræðið hef ég reyndar áður minnst á hér á síðunni, af öðru tilefni, en sá pistill á reyndar alveg jafn vel við núna. Ég ætla því ekki að endurorða hann hér heldur bara benda á hann og segja: Allir á kjörstað!

Þessar kosningar eru líka sérstaklega merkilegar íslenskri lýðræðissögu. Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins er viðhaft persónukjör í kosningum og ekki er síður merkilegt að nú er landið í fyrsta sinn í sögunni eitt kjördæmi.  Báðar þessar hugmyndir hafa verið í umræðunni sem hugsanlegt framtíðarskipulag kosninga á Íslandi og það er því mikilvægt að kosningaþáttaka verði góð núna svo við fáum rétta mynd af því hvernig þessar tvær breytingar koma út.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég ætla örugglega á kjörstað og kjósa.  Hvet alla til að gera slíkt hið sama.  Gangi þér vel Jóhannes.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.11.2010 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband