ENGIN afsökunarbeiðni frá Bretum komin fram!

Sumir íslenskir fjölmiðlar sýna af sér sömu gagnrýnu fréttamennskuna og venjulega þessa dagana og slá því upp að Liam Fox, utanríkisráðherra Breta, hafi beðið Íslendinga afsökunar á framferði Gordon Brown og félaga sem beittu hryðjuverkalögum gegn íslenska ríkinu, Seðlabankanum og stórsköðuðu íslenska hagsmuni um allan heim.

Þessa framsetningu éta þessir fjölmiðlamenn eftir norskum fjölmiðlamanni sem virðist gera sig sekan um heldur mikla oftúlkun á orðum Liam Fox.  Fox viðurkenndi vissulega að beiting hryðjuverkalaganna hefði verið "ófáguð" aðgerð gagnvart öðru Natóríki, og að slíkt myndi ekki henda framar.  Hvergi má þó lesa úr orðum hans formlega afsökunarbeiðni vegna þessarar skítaframkomu.

RÚV nær því sem Fox segir í raun:

"Liam Fox, nýr varnarmálaráðherra Breta, segir að hryðjuverkalögum verði ekki aftur beitt gegn bandalagsþjóð eins og gert var þegar íslensku bankarnir hrundu haustið 2008. Í viðtali við norska blaðið Aftenposten segir hann þessar aðfarir óheflaðar. Hann vildi þó ekki biðjast afsökunar á því sem gerðist."

Sem sagt: Engin afsökunarbeiðni!

Staðreyndir málsins eru eftir sem áður þessar:

Bretar hafa ekki beðist formlega afsökunar á því að beita hryðjuverkalögum gegn Íslendingum, né á þeirri staðreynd að forsætisráðherra þeirra og fjármálaráðherra héldu ítrekað fram í alþjóðlegum fréttamiðlum þeirri augljósu lygi að Ísland væri gjaldþrota ríki.

Bretar hafa heldur ekki ljáð máls á því að bæta Íslendingum það mikla tjón sem beitingin olli íslenskum fyrirtækjum og íslenskum hagsmunum um allan heim á meðan Ísland sat á opinberum lista breska fjármálaráðuneytisins yfir hryðjuverkasamtök og ríkisstjórnir sem styðja og hvetja til hryðjuverka.

Bretar hafa þvert á móti gert allt sem í þeirra valdi stendur til að nýta sér veru Íslands á þessum lista til fullnustu í Icesave málinu. Þannig kom það t.d. skýrt og greinilega fram á fundi InDefence hópsins með breskum þingmönnum og fulltrúum breska utanríkisráðuneytisins í mars 2009 að Ísland yrði ekki tekið af listanum fyrr en Ísland hefði samið um fulla "endurgreiðslu" á Icesave "skuldinni". Veru Íslands á hryðjuverkalistanum og þeim skaða sem það augljóslega hélt áfram að valda var svo haldið yfir Íslendingum sem Damoclesarsverði allt fram til júní 2009, þegar Svavarsnefndin samdi á herfilegan hátt um Icesave, einmitt undir pressu hryðjuverkalistans.

Allur framgangur Breta í Icesave málinu hefur einkennst af kúgunartilburðum stórveldis gagnvart lítilli þjóð, t.d. hafa þeir beitt áhrifum sínum innan AGS til að stöðva framgang endurreisnaráætlunar Íslands og þvinga þannig íslensk stjórnvöld í tvígang til að samþykkja ósanngjarna og gífurlega áhættusama Icesave samninga.

EFTIRLÝST:  Viðbrögð Íslenskra stjórnvalda.

Íslensk stjórnvöld hafa satt best að segja hagað sér eins og fábjánar í þessu máli frá upphafi þess árið 2008. Virðist þar engu skipta hvaða stjórnmálaflokkar hafa setið á valdastólum. Hvar er krafan um formlega afsökunarbeiðni vegna hryðjuverkalaganna?  Af hverju leið heilt ár áður en íslensk stjórnvöld tóku þessa fullkmomlega óeðlilegu hegðun Breta upp á vettvangi NATÓ? Hvers vegna var sendiherra Íslands í Bretlandi ekki kallaður heim samdægurs þegar þetta gerðist? Hvers vegna er Bjarni Benediktsson fyrsti formaður íslensks stjórnmálaflokks sem hittir breskan forsætisráðherra augliti til auglitis tveimur árum eftir þessa atburði? Af hverju hafa allar íslensku ríkisstjórnirnar þrjár sem fjallað hafa um þetta mál gersamlega klúðrað öllum PR málum varðandi það? Hvers vegna þurfti átak grasrótarhóps til þess að snúa við fyrirsögnunum í erlendum fjölmiðlum sem æptu viku eftir viku haustið 2008 að Íslendingar væru gjaldþrota þjófar og glæpamenn?  Hvers vegna birtist fyrsta greinin eftir íslenskan forsætisráðherra í stórum erlendum fjölmiðli ekki fyrr en rúmu ári eftir að þetta gerðist?

Hvers vegna í ósköpunum hef ég, grunnskólakennari í Breiðholti, ásamt öðru fólki af götunni þurft að eyða tveimur árum í að vinna vinnuna þeirra við að kynna málstað Íslands, leiðrétta alls konar undarlegan misskilning, útskýra ástandið á Íslandi, benda á einfaldar staðreyndir um Icesave reikningana, sýna fram á að Landsbankinn var einkafyrirtæki sem skattgreiðendur bera ekki ábyrgð á, koma erlendum fréttamönnum í skilning um að Icesave málið snýst um ríkisábyrgð en ekki lögformlegar "skuldir", hamra á því í á fjórða hundrað viðtölum við erlenda fjölmiðla síðastliðin tvö ár að hegðun Breta gagnvart Íslandi hafi ekki verið eðlileg og að þeir skuldi okkur formlega afsökunarbeiðni og bætur fyrir skaðann?

Ég hreinlega lýsi eftir frumkvæði íslenskrar ríkisstjórnar við að krefjast alvöru formlegrar afsökunarbeiðni frá Bretum vegna hryðjuverkalaganna. Samskipti Íslands við þetta ríki eiga ekki að vera eðlileg þar til slík afsökunarbeiðni liggur fyrir. Við erum búin að bíða í tvö ár. Við erum ekki til í að bíða í tvö í viðbót.


mbl.is Heitir því að beita ekki hryðjuverkalögum á NATO þjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Gott að skerpa á þessu. Ein meinleg villa:

"Ég hreinlega lýsi eftir frumkvæði íslenskrar ríkisstjórnar við að krefjast alvöru formlegrar afsökunarbeiðni frá Bretum vegna hryðjuverkalaganna. "

Þú átt væntanlega að við krefjumst afsökunnar en ekki að við heimtum að þeir biðji okkur um að biðjast afsökunnar, ef þú skilur hvað ég meina....

Þú mátt svo taka þessa athugasemd út.  Hún er bara hugsuð sem ábending.

Jón Steinar Ragnarsson, 12.11.2010 kl. 00:58

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sama meiningarvilla er raunar í fyrirsögninni líka...

Jón Steinar Ragnarsson, 12.11.2010 kl. 01:02

3 identicon

Ef þeir biðjast afsökunar, er það þá ekki beiðni um að við afsökum þessa hegðun? - afsökunarbeiðni til okkar? Sbr. "Ég bið þig að afsaka þetta..." - beiðni um að afsaka...?

Jóhannes Þór Skúlason (IP-tala skráð) 12.11.2010 kl. 13:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband