Verður nýr Icesave samningur nákvæmlega eins og sá gamli?

Fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að Icesave samningur sé nálægur. Þó ekkert hafi verið upplýst um innihald hans má hugsanlega giska á efni hans með ályktunum út frá fjölmiðlaumfjöllun síðustu vikna. Allar svoleiðis getgátuæfingar, eins og hér fara á eftir, ættu þó að skoðast með hæfilegum fyrirvara.

 

Óskað eftir tilboði.

Viðskiptablaðið birti fyrir nokkru frétt sem síðar var staðfest af AGS, um að Bretar og Hollendingar hefðu óskað eftir því að Íslendingar legðu fram á ný tilboð sem þeir sendu 25. febrúar 2009.  Það tilboð gekk út á að vaxtagreiðslur yrðu lækkaðar. Fréttin hermdi að Bretar og Hollendingar væru tilbúnir að ganga að þessu tilboði.

Þessi frétt hefur ekki verið hrakin og viðtöl við fjármálaráðherra sem tekin foru eftir að þessi frétt birtist gera ekekrt til að hrekja hana.  Miðað við það sem á undan er gengið í Icesave málinu og þær upplýsingar sem liggja fyrir úr fjölmiðlum getur þetta talist hugsanleg  niðurstaða nú.

 

Hvað þýðir þetta nýja tilboð ef það er rétt?

Skoðum þá muninn á þessum tveimur samningum, Icesave 2 sem hafnað var í þjóðaratkvæðagreiðslu, og hins vegar Icesave 3 sem virðist vera væntanlegur.

Febrúartilboð Íslendinga hljómaði aðeins upp á vaxtalækkun en ekki breytingar á samningstextanum. Grunnur Icesave 2 og Icesave 3 virðist því stefna í að verða nákvæmlega sami samningstextinn.

Ég set stór spurningamerki við það að öll áhættan sem felst í samningstexta Icesave 2 verði haldið áfram inni í nýjum Icesave samningi. Það er beinlínis óásættanlegt fyrir Ísland.

Við í InDefence hópnum höfum ítrekað bent á það að Icesave samningur snýst ekki bara um vaxtakjör, heldur ekki síður þá áhættu sem samningarnir hingað til hafa borið í sér fyrir Ísland.

Þetta er til dæmis vel fram í umsögn InDefence hópsins til fjárlaganefndar um Icesave samningana og í fjölda annarra skjala og  fréttatilkynninga frá hópnum sem lesa má á vefnum indefence.is.

 

Icsave 2 og mögulegur Icesave 3 í tölum.

Við skulum bera saman tölurnar í Icesave 2 og þessum mögulega Icesave 3 samning:

Vextir á Icesave 2 voru 5,55%

Vextir á mögulegan Icesave 3, miðað við frétt Viðskiptablaðsins, gætu litið svona út (skv. tilboði Íslands frá 25. febrúar):

Vaxtahlé til 1. janúar 2012.Vextir eftir það:
2012:2,50%
2013:2,75%
2014:3,00%
2015:3,25%
2016 (til 5. júní):

3,50%

Verði þetta niðurstaðan er ljóst að vaxtagreiðslur íslenska ríkisins vegna Icesave myndu lækka umtalsvert frá Icesave 2, sem skv. útreikningum Dr. Jóns Daníelssonar hefðu orðið um 370-380 milljarðar (á gengi þess tíma). Útreikningar Jóns eru miðaðir við 88% endurheimtur eigna Landsbankans og hafa ekki verið hraktir. Heildarkostnaður íslenska ríkisins í Icesave 2 hefði skv. þeim orðið um 507 milljarðar króna.

Ef vaxtamódelið hér að ofan (úr tilboði Íslands síðan í febrúar) er sett inn í svipaðar forsendur en miðað við 90% endurheimtur kemur út sú niðurstaða að heildarskuldbinding íslenska ríkisins með vaxtagreiðslum verði að líkindum undir 130 milljörðum króna miðað við núverandi gengi.

Það er augljóslega töluverður munur.  Verði niðurstaðan eitthvað í líkingu við þetta hefur þjóðaratkvæðagreiðslan ótvírætt og augljóslega skilað því að greiðslubyrði Íslands hefur lækkað um hundruð milljarða. Fullyrðingar margra um tilgangsleysi þjóðaratkvæðisins um Icesave myndu með slíkri niðurstöðu líta kjánalega út svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

 

Munu stjórnvöld slá sig til riddara með villandi tölum?

Eitt af því sem þarf að varast er að styrking krónunnar verði notuð til  að halda því fram að nýr samningur sé mun betri en hann í raun er, þ.e. beri í sér lægri höfuðstól, lægri ríkisábyrgð en Icesave 2.  Þetta er rangt. Höfuðstóll kröfunnar er 3,91 milljarður, hefur alltaf verið og það mun ekkert breytast.

En einmitt vegna þess að Icesave ábyrgðin er í erlendum gjaldeyri þá hafa breytingar á gengi krónunnar áhrif á upphæðirnar í íslenskum krónum. Ef nýr Icesave samningur væri gerður í dag þá væri ríkisábyrgðin um 93 milljörðum lægri í íslenskum krónum en í Icesave 2 um síðustu áramót (miðað við að öll ábyrgðin sé reiknuð í evrum).

Það er vegna þess að krónan hefur styrkst töluvert gagnvart evru frá áramótum. Um áramótin var gengi evru 180 krónur. Í dag er það “aðeins” 156 krónur. Krafa Breta og Hollendinga er 3,91 milljarður evra, það hefur ekki breyst eins og áður sagði. Gengismunurinn lítur því svona út:

ICESAVE 2Gengi um áramót

 

Evran = 180 krónur

Krafan = 3,91*180 =

 

703 milljarðar króna

Mögulegur ICESAVE 3 ?Gengi í dag:

 

Evran= 156 krónur

Krafan = 3,91*156 =

 

610 milljarðar króna

Gengismunur á Icesave 2 og mögulegum Icesave 3 703 – 610 =93 milljarðar króna

Þarna hefur myndast 93 milljarða króna gengismunur.  Það gæti því verið freistandi að reyna að selja þjóðinni samninginn á þeim grundvelli að höfuðstóllinn og þar með greiðslubyrðin hafi lækkað um 90 milljarða. Það væri hins vegar rangt.

Ef gengi krónunnar fellur aftur, til dæmis í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta, þá hækkar greiðslubyrði Íslands á ný og getur jafnvel hækkað upp fyrir það sem hún var um áramót ef gengisfallið er mikið.

Því er 90 milljarða króna lækkun Icesave greiðslna vegna gengis krónunnar merkingarlaus með öllu, og alls ekki nein gæði í hendi til að flagga í nýjum samningi.

 

Þjóðaratkvæðagreiðslan snerist um fleira en lægri vexti!

Icesave 2 var algerlega hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars. Sú höfnun var ekki samþykki fyrir því að fá nákvæmlega sama samning en með lægri vöxtum.  Eins og við í InDefence hópnum höfum ítrekað bent á þá eru fjöldamörg atriði í samningstextanum sjálfum sem eru óásættanleg fyrir Ísland og verður að breyta, og margt af því er ennþá beint upp úr Svavarssamningnum frá því í júní 2009. Fyrirvarar Alþingis eru þar einnig fótum troðnir eins og InDefence hefur margoft bent á.

Ég óttast að þriðji Icesave samningurinn verði kópía af þeim sem við höfnuðum í þjóðaratkvæðagreiðslunni, nema bara með lægri vöxtum. Og þótt lægri vextir séu mjög góð byrjun þá er það ekki nóg til að hægt sé að sætta sig við byrðarnar og alla áhættuna sem slíkum samningi myndi fylgja.


mbl.is 6,4% atvinnuleysi í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Gleymir þú ekki í þessum útreikningum öllum að nú þegar eru til staðar greiðslur í Landsbanka upp á 2 eða 300 milljarða sem við fara að minnsta kosti að hálfu upp í Icesave þannig að höfuðstóllin verður eftir það 470 til 500 milljarðar. Minnir meira að segja að vegna samninga við Lux hafi lostnað um 100 milljarða í vðbót þannig að höfðustóll Icesave sem væri vaxta laus væri því kominn niður í kannski um 400 milljarða. Fyrrgreindir 2 til 300 milljarðar sem eru á reikningum í breska Seðalbankanum eru miðaðar við stöðu síðasta vor og hafa hækkað sjálfsagt töluvert og því eru höfðustóll lánsins væntanlega kominn niður fyrir 400 milljarða áður en farið er að reikna vexti. Skv. nýjust fréttum hefður endurheimtuhlutfallið með þessum samningi sem gerður var í Luxemborg hækkað í 93% minnir mig og fer hækkandi. Og skv. síðustu samningum verður ekki farið að reikna vexti fyrir 2012. Held að upphæðin á vaxtaberandi höfuðstól hjá þér sé allt of há og út úr korti. Við erum að tala um að eignir í úr þrotabúi Landsbankans upp í höfðustól  icesave gæti verið um 550 til 600 milljarðar því eru upphæðir sem þú reiknar á ríkið orðum auknar held ég. Minni á að eign Landsbanka í Iceland keðjunni er metinn á 200 milljarða minnir mig nú en var um 80 milljarðar fyrir ári því held ég að mat Jóns Daníelssonar sé ekki rétt í dag.

Magnús Helgi Björgvinsson, 26.10.2010 kl. 10:31

2 Smámynd: Jóhannes Þór Skúlason

Það er alveg rétt Magnús að útreikningur Jóns er auðvitað miðaður við þær forsendur sem þá voru til staðar.

Sem betur fer lítur út fyrir að eignaheimturnar verði um 90% eftir allt saman og það er gott. Útreikningurinn á mögulegum kostnaði vegna febrúartilboðsins er miðaður við 90% heimtur. Verði heimturnar meiri er það besta mál.

Eins og ég sagði í upphafi skyldi skoða þetta allt með varúð þar sem ekkert er orðið fast á blaði svo við vitum.

Það sem ég er fyrst og fremst að benda á hér er tvennt:

1) Lægri vextir er ekki nóg ef sama gamla áhættan fyrir Ísland er öll enn til staðar í uppdubbuðum Icesave 2 samningi.

2) Það er mjög varasamt að reikna sér gjaldeyrismun til tekna þegar nýr samningur kemur á borðið. Sá gengismunur getur snúist upp í andhverfu sína ef krónan fellur aftur.

Jóhannes Þór Skúlason, 26.10.2010 kl. 11:39

3 identicon

Gengistryggð skuld nýja Landsbankans við gamla bankann með ríkisábyrgð uppá 300 milljarða, var aðferð Steingríms til að greiða inná Icesave bakdyramegin.

marat (IP-tala skráð) 26.10.2010 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband