Hjartsláttur þjóðar
5.10.2010 | 00:17
Austurvöllur mánudaginn 4. október 2010. Tvö ár frá mánudeginum 6. október 2008.
Fyrstu merkin um að eitthvað sérstakt væri að gerast í kvöld voru að á leiðinni inn að miðborginni sá ég að það dreif að kuldaklætt fólk hvaðanæva að gangandi og akandi í átt að Austurvelli.
Að ganga fyrir hornið á Dómkirkjunni í flasið á þúsundum er upplifun sem ég gleymi aldrei. Fullur Austurvöllur klukkan 20:00. Fullt út í hliðargötur. Allskonar fólk. Börn, unglingar, ellilífeyrisþegar, heilar fjölskyldur saman komnar til að sýna hug sinn.
Fánar í hálfa stöng. Pottar, pönnur, Machintosh dósir. Það er eitthvað sér íslensktvið að mæta með tóma Machintosh dósina frá jólunum til að búa til hávaða á mótmælum. Hvar annarsstaðar sæi maður það í veröldinni?
Skiltin. "Ég á ekki fyrir mat" "Viljið þið ekki fötin mín líka?" "Vér mótmælum öll!" "Flokka út - Fólk inn" "Skítt með skrílinn - Verjum auðvaldið" "ASÍ: Fundarlaun í boði". Einhvern skorti skiltplass til að segja allt sem segja þurfti, summaði upp í: "MARGT NIÐRANDI". Sagði allt sem segja þurfti.
Það var súrrealískt að standa í fremstu röð við "skjaldborgina", álvegginn umhverfis Alþingishúsið, og hlusta á stefnuræðuna í útvarpinu í öðru eyranu og dynjandi tunnusláttinn yfirgnæfandi allt í hinu. Það var eins og þetta væru tveir heimar sem mörgþúsund ljósár bar í milli, annars vegar raunveruleikinn fyrir utan þinghúsið og hins vegar veruleikafirringin inni í því.
Yfir öllu saman gnæfði Jón Sigurðsson á stalli sínum þögull og steinrunninn.
Mér þótti vænt um landa mína í kvöld. Ég fann að ég var hluti af einhverju stærra, að mínar áhyggjur eru allra áhyggjur. Að þótt ég haldi enn sem komið er höfðinu rétt ofan við vatnið þá er vandi þeirra sem hafa misst atvinnuna og eru við það að missa heimili sín, eiga ekki fyrir mat, það er líka minn vandi. Okkar örlög eru samtofin.. Við munum vinna okkur upp úr þessu saman, því við erum eitt. Ein þjóð. Ein heild.
Að standa og horfa yfir skjaldborgina á óeirðaklædda lögreglumenn, Alþingishúsið útatað eggjum og málningu, vakti blendnar tilfinningar. Stolt yfir því að þjóðin skuli loks vera vöknuð með látum. Og sorg yfir því að svona sé komið fyrir okkur.
Ég velti því fyrir mér þarna niður frá, hversu heppinn ég var að detta fyrir tilviljun inn í verkefni þar sem ég hef getað gert eitthvað, fengið útrás fyrir þörfina til að breyta einhverju, hafa áhrif á það sem er að gerast í kring um mig. Velti fyrir mér hversu brjálaður ég væri orðinn á þeirri tilfinningu að vera leiksoppur örlaganna, hefði ég ekki haft það tækifæri sem InDefence hefur veitt mér til að leggja mitt lóð á skálarnar.
Ég get ekki setið aðgerðalaus hjá. Og það eru margir sem hugsa þannig núna, fleiri en áður. Ekki sitja kyrr. Gerum eitthvað. Grasrótasamtök geta haft áhrif. Það hefur sýnt sig á þessum tveimur árum. Það er fullt af hópum sem hafa unnið frábært starf. Attac hópurinn, Hagsmunasamtök heimilanna, Raddir fólksins, fleiri og fleiri.
Við getum öll haft áhrif. Finnið vettvang, veljið verkefni og út á akurinn! Ef við erum ekki tilbúin að berjast fyrir okkur sjálf þá mun enginn gera það fyrir okkur. Það kostar vinnu, svita, svefnleysi og tár, en það getur skilað árangri. Það er þess virði.
Þetta er búið að vera ótrúlegt kvöld. Einn maður á Austurvelli bar af öðrum. Geir Jón Þórisson gekk milli fólks, brosti, tók í hendur, spjallaði, gerði sér far um að tengjast náunganum. Hann á heiður skilinn. Sýndi hvað það þýðir að vera lögreglumaður.
Klukkan sígur í miðnætti. Enn drynur taktfastur slátturinn við Alþingishúsið inn í nóttina. Eins og hjartsláttur þjóðar.
Rúður brotnar í þinghúsinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Engu við þetta að bæta
Tek mér bessaleyfi og tengi inn á Facebook.
Anna Grétarsdóttir (IP-tala skráð) 5.10.2010 kl. 00:45
"Ekkert er eins máttugt og hugmynd hvers tími er kominn". Steve Biko
En sumar hugmyndir eru hættulegar. Ein hættulegasta hugmynd okkar tíma er sú að hægt sé að velja sér fulltrúa á lýðræðislegan hátt til að sitja á löggjafarþingi og velja ríkisstjórn, án þess að til þurfi aðkomu stjórnmálaflokka. Slík hugmynd , kæmi hún til framkvæmda, mundi riðla öllu valdakerfi landa og gera meirihluta og stjórnarandstöðu að úreltum fyrirbærum. Sem sagt mjög hættuleg hugmynd.
Þakka annars fyrir þessa ágætu lýsingu á hughrifum kvöldsins.
Svanur Gísli Þorkelsson, 5.10.2010 kl. 00:49
Ef fólk hefur áhuga á stjórnmálum, þá hef ég tekið saman lista yfir stjórnmálafélög á Íslandi.
Axel Þór Kolbeinsson, 5.10.2010 kl. 09:52
Ég var þarna að mynna Jóhönnu, á loforð sem hún gaf Þjóðinni,
frjálsar handfæraveiðar, þúsundir starfa hefðu orðið til,
hefði hún efnt þetta.
Aðalsteinn Agnarsson, 5.10.2010 kl. 22:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.