Hvenær er lýðræðið marklaust?

Fyrsta þjóðaratkvæðagreiðsla lýðveldisins stendur fyrir dyrum 6. mars. Forsætisráðherra, fjármálaráðherra, fjölmiðlamenn og bloggarar keppast nú við að koma þeirri hugmynd inn hjá Íslendingum að þessi atkvæðagreiðsla sé markleysa, óþarfi, sóun á tíma og peningum. Engin skyldi því finna hjá sér þörf fyrir að taka þátt í vitleysunni, mæta á kjörstað er tómur óþarfi.  Jafnvel fjármálaráðherra sjálfur er að hugsa um að gera bara eitthvað annað þennan dag. Til hvers að kjósa í marklausri atkvæðagreiðslu?

Þetta er hreint makalaus afstaða hjá lýðræðislega kjörnum fulltrúum almennings. Hvenær er lýðræðið marklaust? Hvenær er vilji þjóðar sóun á tíma og peningum?  

Íslenska lýðveldið er enginn öldungur í samfélagi þjóðanna. Fólkið sem fagnaði sjálfstæði landsins í þjóðhátíðarveðrinu á Þingvöllum árið 1944 voru ekki fjarskyldir forfeður, heldur feður okkar og mæður, afar og ömmur. Enn lifir meðal okkar fólk sem ungt fagnaði fullveldi Íslands í skugga farsóttar og frostaveturs 1918. 

Íslenska lýðveldið hefur varla slitið barnsskónum. En þrátt fyrir það geta Íslendingar státað af lýðræðishefð sem hvaða þjóð gæti verið stolt af. Í fáum löndum taka íbúarnir lýðræðið jafn alvarlega og Íslendingar. Það birtist í því að á kjördag, hvort sem er í Alþingis- sveitarstjórna- eða forsetakosningum, þá þykir það sjálfsagt mál að nánast allir sem á annað borð eiga heimangengt mæti á kjörstað og nýti kosningarétt sinn.

Fjölmörg vestræn lýðræðisríki  hafa á síðustu 60 árum glímt við sídvínandi kosningaþátttöku og aukið áhugaleysi almennings á lýðræðinu. Á sama tíma hefur kosningaþátttaka á Íslandi verið að meðaltali 89% (USA=54%, UK=76%) og Ísland er í áttunda sæti yfir hæstu kosningaþátttöku í heiminum á síðari hluta 20. aldar. Íslendingar vita sem er að kosningarétturinn er grunnréttur hvers manns, og þeir nýta þennan rétt. 

Og kosningar eru enn mjög hátíðlegt tækifæri á Íslandi. Fólk klæðir sig gjarnan upp á til að fara á kjörstað, býður vinafólki í síðdegiskaffi og dregur fána að hún. Og hvers vegna? Jú, í þjóðarvitundinni situr nefnilega enn vitneskjan um að lýðræðið fékkst ekki ókeypis. Að þessi dýra gjöf, kosningarétturinn, kom ekki til að sjálfu sér. Að lýðræðið, réttur hvers og eins borgara til að hafa áhrif á líf sitt og stjórn ríkisins, er hvorki algilt né sjálfsagt.

Við búm vissulega við lýðræði, en við þurfum samt að búa það til á hverjum degi. Það er skylda okkar sem í dag förum höndum um grunngildi íslenska lýðræðissamfélagsins að ganga um þau af virðingu. Að gleyma því ekki í þrætum líðandi stundar að lýðræðið er stærra en svo að því megi kasta fyrir róða þegar á þarf að halda. Því ef lýðræðið er vegið á skálum skammtímahagsmuna og léttvægt fundið, þá var til lítils barist á árum áður.

Lýðræði er ekki bara eitthvert hugtak sem slengt er fram í ræðuhöldum á tyllidögum.  Það er í senn hugsjón og raunveruleiki, grundvallarréttur manna til að hafa áhrif á líf sitt og ákvarðanir samfélagsins. Þjóðaratkvæðagreiðsla, ákvarðanataka þjóðar um beinar stjórnarathafnir, getur því aldrei verið marklaus. Þótt stundarþref geti villt mönnum sýn þá breytir það ekki grundvallargildum lýðræðisins í einu vetfangi. 

Þegar íslenska þjóðin greiddi atkvæði um stofnun lýðveldis var tæpast nokkur maður sem ekki nýtti atkvæðisrétt sinn. Þá vissu menn, rétt eins og nú, að kosningaþátttaka hefur ekki siður mikið vægi en sjálf úrslitin. Því fyrsta skrefið í falli lýðræðisins er ætið fólgið í að telja fólkinu trú um að skoðun þess skipti ekki máli. Að atkvæðið þitt sé marklaust. Og til hvers að taka þátt í marklausum leik? 

En lýðræðið er aldrei marklaust. Því eggja ég alla þá sem hafa þennan helga rétt, kosningaréttinn, til að mæta á kjörstað og nýta hann á laugardaginn. Þar bjóðast þrír kostir, já, nei og að skila auðum seðli. Og allir þrír eru þeir betri kostir en að sitja heima í stundargremju og vanvirða lýðræðið.  

Það getur enginn setið heima á laugardaginn og sagt með sjálfum sér, "Ég tók ekki þátt í leiknum, ég ber ekki ábyrgð". Þvert a móti. Að sitja heima og kasta þannig frá sér kosningaréttinum, grundvallar byggingareiningu lýðræðissamfélagsins, í því liggur mesta ábyrgðin. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir þessa færslu!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 2.3.2010 kl. 01:07

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það var eitthvað svo fallegt, satt og einlægt við þessa grein, sem snerti mig djúpt. Svona eins og saknaðarstingur til æskunnar og hreinskiptninnar, sem stundum hellist yfir mann, þegar maður sér börn að leik. Hér er þó sá munur á að við getum upplifað þessa tíma aftur, ef við bara kærum okkur um það og sýnum festu. 

Mér finnst annars þessi athugasemd Jóhönnu bera vitni um kaldlyndi og tilfinningadoða Jóhönnu, sem á raunar ágætlega við myndina af henni í greininni. Hún er eins og vofa eða einhverskonar ísdrottning. Setur að mér hroll.

Ég þakka hjartanlega fyrir þetta greinakorn. Þú hefur greinilega góðan dreng að geyma.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.3.2010 kl. 03:39

3 Smámynd: Elís Már Kjartansson

Þakka þér kærlega fyrir þessa góðu grein.

Elís Már Kjartansson, 2.3.2010 kl. 13:40

4 Smámynd: Bergþór Gunnlaugsson

Þakka þér fyrir þessa grein.

Bergþór Gunnlaugsson, 2.3.2010 kl. 13:47

5 identicon

það er akkúrat ekki neitt lýðræði í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu, hún er eingöngu komin til af því að á Bessastöðum situr forseti sem var búinn að gera í buxurnar.

það er hvergi í stjórnarskránni stafur fyrir því að hann eigi að setja milliríkjasamning sem búið er að samþykkja frá lýðræðislega kjörnu alþingi, í þjóðaratkvæði!

Hann bullaði um bil milli þings og þjóðar, þegar allir vita að hann var að bjarga eigin skinni.

Hann fann rykfallinn vafasamann lagabókstaf, sem varla heldur og notaði hann sér til eigins framdráttar.

Breyttist úr klappstýru í þjóðhetju á svipstundu.

Hlustaði á lýðræði götunnar og svívirti alþingi.

Stjórnarskrá og lýðræði á ekkert skilt við Sirkus Bessastaði.

Ragnar Thorisson (IP-tala skráð) 2.3.2010 kl. 16:40

6 identicon

Fallegur texti, en mér þykir hann ekki alveg eiga við.

Lýðræði er vissulega markvert og mikilvægt, en mér þykir þetta bera vott af því að nota orðið eins og einhver heilagan, algildan stall og sannleika sem ekki má ræða og alltaf eigi við.

Lýðræði er til að tryggja að vilji fólksins nái fram að ganga, til að veita almenningi hlutdeild í ákvörðunum ríkisvaldsins og vald yfir þeim.

Það á að nota þegar umdeild og mikilvæg mál eru til umræðu og ákvörðunin er þá sett í hendur þjóðarinnar, þess eðlis var Icesave málið þegar forsetinn hafnaði því að skrifa undir lögin og fagna ég því.

Það skal hins vegar enginn segja mér að sama staða sé uppi í dag, það er á allra vitorði að Íslendingum býðst betri samningur en sá sem verið er að kjósa um og ekki einu sinni flutningsmaður frumvarpsins talar honum lengur bót.

Það er ekki lýðræði að halda atkvæðagreiðslu um mál sem allir eru sammála um, það er sýndarmennska. Mér þykir ákveðin lítilsvirðing við það ágæta hugtak, lýðræði, að beita því í þessu samhengi sem samningsbragði gegn öðrum ríkjum.

Hins vegar geta atkvæðagreiðslur átt við sem opinber staðfesting á þjóðarvilja og yfirlýsing almennings, eins og var 17. júní árið 1944 og eins og ég vona að verði 6. mars árið 2010.

Við Ragnar vil ég segja að ég fagna því að forseti þjóðarinnar skuli beita þeim "rykfallna bókstaf" sem stjórnarskrá lýðveldisins er gegn meirihlutaræði íslensks stjórnkerfis með þeim ágætu afleiðingum sem við okkur blasa í dag. Þar stendur vissulega ekki að hann "eigi" að skjóta málum til þjóðaratkvæðagreiðslu, en það stendur að honum sé það heimilt.

Hann fylgdi bæði lögum og þjóðarvilja og á hrós skilið fyrir það.

Viktor Orri Valgarðsson (IP-tala skráð) 5.3.2010 kl. 15:58

7 identicon

Það er eitt sem menn gleyma einmitt þegar þeir halda þessu fram eins og þú gerir viktor, að það sé betri samningur í boði. 

Það er að það er enginn nýr samningur á borðinu. Það eru bara viðræður og alls konar hugmyndir í gangi. 

 Á meðan enginn nýr samningur hefur verið undirritaður eða komist að samkomulagi um slíkt, eru lögin frá 30. des í fullu gildi og núverandi samningur vofir yfir okkur. Um hann er atkvæðagreiðslan.

Það er ekkert nýtt eða betra í hendi. Því er staðan gagnvart lögunum frá 30. desember í raun nákvæmlega sú sama og 5. janúar þegar forsetinn hafnaði lögunum. 

Jóhannes Þ. Skúlason (IP-tala skráð) 5.3.2010 kl. 18:53

8 identicon

Tja, það er alveg rétt að það þarf að ógilda þessa samninga. Það er hins vegar formsatriði, eitthvað sem enginn ágreiningur er um lengur, eitthvað sem ríkisstjórnin myndi væntanlega sjálf gera án atkvæðagreiðslu ef ekki væri hætta á því að það myndi veikja okkar málsstað gagnvart Hollendingum.

Atkvæðagreiðslan í dag hefur lítið með lýðræðislega ákvarðanatöku að gera; það er enginn ágreiningur og enginn vill sjá þessi lög lengur.

Þessar kosningar eru vettvangur þjóðarinnar til að gefa út stuðningsyfirlýsingu við íslensk yfirvöld í samningaviðræðum þeirra við Breta og Hollendinga. Þær eru tækifæri til að lýsa yfir óánægju okkar með núverandi stöðu mála.

Þjóðaratkvæðagreiðslan gefur þjóðinni rödd gagnvart alþjóðasamfélaginu og sem slík er hún að sjálfsögðu mikilvæg. Hún er hins vegar löngu hætt að vera spurning um hvort við viljum samninginn eða ekki, hún er bara spurning um hversu margir Íslendingar nenna að drattast á kjörstað til að styrkja stöðu íslensku samninganefndarinnar.

Ég ætla að kjósa nei í dag og hvet alla aðra til að gera slíkt hið sama. Ekki af ást minni við lýðræðið heldur af samhug við þjóð mína og réttlætiskennd gagnvart erlendri valdníðslu. Því röddin er sannarlega mikilvæg.

Viktor Orri Valgarðsson (IP-tala skráð) 6.3.2010 kl. 11:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband