Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
Icesave friðþægingin
5.10.2009 | 09:55
Þegar Alþingi samþykkti ríkisábyrgð á Icesave lánasamningunum voru settir skýrir fyrirvarar við ríkisábyrgðina. Þessir fyrirvarar voru árangur þrotlausrar samvinnu fólks í öllum flokkum. Út af fyrir sig óvenjuleg upprisa íslenskra þingmanna úr pólitísku skotgröfunum og mjög jákvæð þróun þingstarfa.
Þessir fyrirvarar gerðu vonda Iceseve samninga ögn bærilegri frir íslenska skattborgara, jöfnuðu taflið örlítið miðað við þann herfilega samningstexta sem samninganefnd Íslands skrifaði undir þann 5. júní, og ríkisstjórnin samþykkti fyrir sitt leyti óséðan.
Mikilvægt er að halda því til haga að samningstextinn sjálfur hefur ekkert breyst við lög um ríkisábyrgð. Enn eru þar inni óvenju víðtækar gjaldfellingarheimildir svo dæmi sé nefnt, sem geta valdið Íslandi miklum vanda ef illa gengur að afla gjaldeyris til afborgana á næstu árum, jafnvel á öðrum lánum ríkisins, ótengdum Icesave. Samningurinn er því ekkert betri eftir lagasetninguna, aðeins örlítið minna hörmulegur.
Eitt mikilvægasta atriðið í lögunum kemur fram í fyrstu grein þeirra. Þar segir: "Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá. Enn fremur að lánveitendur samkvæmt þeim lánasamningum sem greinir í 1. mgr. viðurkenni að skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta séu háðar sömu fyrirvörum og ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum."
Þetta ákvæði gefur til kynna skýran vilja Alþingis: Að ríkisábyrgð skuli því aðeins veitt ef þessum fyrirvörum er fullnægt. Þetta gæti ekki verið skýrara. Alþingi tók langan tíma í að vinna faglega og þverpólitískt að þessum fyrirvörum og þetta er niðurstaðan.
Ríkisstjórn Íslands kaus hins vegar að virða ekki þessa niðurstöðu Alþingis. Strax í byrjun september fékk ríkisstjórnin vitneskju um að Bretar og Hollendingar gerðu athugasemdir við fyrirvara Alþingis, höfnuðu þeim í raun. Svar íslenskra stjórnvalda þá þegar hefði átt að vera einfalt: Gott og vel, þá er engin ríkisábyrgð.
Slíkt svar, slík einurð og skýr afstaða með afgreiðslu Alþingis og með augljósum hagsmunum Íslands í málinu hefði ekki einungis haft fullan stuðning Alþingis, heldur einnig stuðning meirihluta íslensku þjóðarinnar, sem hefur sýnt það í skoðanakönnunum hversu mikla andúð hún hefur á kúgunartilburðum Breta og Hollendinga til að láta Íslenskan almenning bera þessa skuld að fullu.
Það er ekkert leyndarmál lengur að Bretar og Hollendingar nota Alþjóða gjaldeyrissjóðinn til að knýja Íslendinga til að samþykkja Icesave og þannig í raun til að kúga fé út úr íslensku þjóðinni. Steingrímur J. Sigfússon staðfesti þetta við fulltrúa InDefence í símtali strax 7. júní og nú fyrir skömmu lýsti Össur Skarphéðinsson yfir vanþóknun á þessu athæfi á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Gordon Brown hefur heldur ekki farið í felur með þetta athæfi, en hann lýsti því yfir á breska þinginu á meðan á samningum stóð að Bretar væru að "vinna að því í samvinnu við AGS að sjá til þess að Íslendingar greiddu skuldir sínar" vegna Icesave. Það ætti því ekki að dyljast neinum að AGS er notað sem kúgunartæki og ekkert annað. Ef Ísland greiðir ekki Icesave þá skuli engin endurskoðun á efnahagsáætluninni fara fram og þar með engin lán berast til Íslands og svo framvegis.
Íslensk stjórnvöld hefðu átt að hrópa þessa skömm Breta og Hollendinga af húsþökum í öllum stærstu fjölmiðlum heims allt frá upphafi og þannig gera alþjóðasamfélaginu þetta ljóst. Það hefði ekki komið vel út fyrir AGS og hefði styrkt okkar samningsstöðu. Það var ekki gert. Ísland hefði átt að standa upp frá samningsborðinu og gera Bretum og Hollendingum það ljóst að það yrði ekki einn einasti fundur um málið fyrr en þessari hegðun lyki. Það var ekki gert. Í staðinn var þagað og kúgunin látin viðgangast. Og þess vegna viðgengst kúgunin enn í dag.
Í stað þess að standa með fyrirvörum Alþingis kaus ríkisstjórnin í byrjun september að ljúga að þjóðinni í hartnær tvær vikur að engin svör hefðu borist. Á meðan var hafist handa við að semja um breytingar á fyrirvörum Alþingis, enn á ný undir kúguninni um frestun endurskoðunar AGS.
Jóhanna Sigurðardóttir orðaði það svo á opnum fundi Samfylkingarinnar þann 30. september sl. að það væri verið að reyna að ná niðurstöðu um nokkur atriði fyrirvaranna sem báðir aðilar gætu sætt sig við, og ef það næðist myndu Íslendingar "biðja" Breta og Hollendinga aflétta þrýstingi sínum á AGS svo endurskoðunin gæti farið fram strax og samningum lyki.
Þetta er ekkert annað en óskiljanleg þrælslund. Það er engin tilviljun að Neville Chamberlain hefur orðið að athlægi í sögunni fyrir að láta eftir landakröfum Adolf Hitlers í München 1938, í þeim tilgangi að biðja hann um að hætta að gera meiri landakröfur í Evrópu. Allir vita hvert gildi skjals Chamberlains um "frið á vorum tímum" var. Friðþæging íslensku ríkisstjórnarinnar á kröfum Breta og Hollendinga um afslætti á fyrirvörum Alþingis er af nákvæmlega sama meiði og friðþæging Chamberlains.
Ríkisstjórnin er að uppfylla kröfur kúgarans til að biðja hann um að hætta að kúga sig. Í slíkri stöðu gerist alltaf það sama: Kúgarinn nær markmiðum sínum, kúgunin virkar.
Ég skora á ríkisstjórn Íslands að láta slíkt ekki yfir þjóð sína ganga. Ég skora á ríkisstjórn Íslands að segja við Breta og Hollendinga: Hingað og ekki lengra, nú er nóg komið!
Ríkisstjórnin er ekki í slæmri samningsstöðu. Þann 23. október nk. verður innlánatrggingasjóður gjaldþrota ef ekki hefur samist um ríkisábyrgð. Það er ekki Bretum og Hollendingum í hag og þeir munu aldrei velja þá leið sjálfviljugir. Því er nú rétti tíminn fyrir Íslendinga að snúa taflinu við. Skilaboð ríkisstjórnar Íslands, Alþingis og íslensku þjóðarinnar til Breta og Hollendinga ættu því að vera einföld og skýr:
Fyrst AGS endurskoðun strax. Svo getum við rætt saman um Icesave. Ekki fyrr. Íslenska þjóðin lætur ekki kúga sig lengur!
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)