Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Skammarlega lélegt hjá ASÍ

Umsögn ASÍ um frumvarp vegna nýju Icesave samninganna er eitt arfaslakasta skjal sem ég hef nokkurntíma lesið.

Byrjum á að rifja upp að ASÍ forystan hefur frá því Svavarssamningurinn var undirritaður haldið því fram að Icesave deiluna verði að leysa sem allra fyrst, Alþingi bara verði að afgreiða málið hratt, staðfesta hvaða samning sem liggur fyrir.

Þetta gerðist þegar Icesave 1 var lagður fyrir í júní 2009. Engu máli virtist skipta ASÍ hversu slæmur þessi samningur var.  Einhliða skuldabréf íslenskra skattborgara, minnst 300 milljarða vaxtagreiðslur, fullveldisafsal og allar eigur íslenska ríkisins aðfararhæfar. Forysta ASÍ setti flýti og afgreiðslu málsins fram fyrir augljósa hagsmuni Íslenskra skattgreiðenda.

Þetta gerðist líka þegar Icesave 2 viðaukasamningarnir voru lagðir fram í október 2010.  Þá hvöttu Gylfi Arnbjörnsson og fleiri forseta Íslands til að skrifa strax undir Icesave lögin, sem tæp 25% kjörgengra Íslendinga skoraði á forseta að gera ekki. "Ég tel að við munum skaðast áður en tekst að umturna alþjóðlegu fjármálakerfi," sagði Gylfi þá, og að "klára þurfi málið, það sé komið í gegnum Alþingi og ótækt að opna það á ný." Aftur öll áhersla á flýti og afgreiðslu án tillits til innihalds samningsins.

Síðan Icesave 3 samningurinn frá desember 2010 kom fram hafa nánast allir sem tjáð sig hafa um málið bent á hversu miklu betri þeir líta út fjárhagslega fyrir íslenska skattgreiðendur. Í frumvarpinu sjálfu er reiknað út að munirinn á Icesave 2 og Icesave 3 sé 71% kostnaðarminnkun. Steingrímur og Jóhanna hafa bæði talað um það að árangur hafi náðst.  Jafnvel menn eins og Vilhjálmur Egilsson hafa dregið í land og játað að mikill árangur hafi náðst í þriðju samningalotunni miðað við fyrri samninga. En ASÍ og Gylfi eru enn við sama heygarðshornið og kunna ekki að skammast sín.

Fjárlaganefnd bað ASÍ að skila inn umsögn um frumvarp vegna Icesave 3 samningana. Sú umsögn er í stuttu máli óskaplega rýrt plagg, bæði að efni og innihaldi.  Ein og hálf blaðsíða, og er þá bréfsefnishaus og undirritun talin með. Jafnvel TIF, sem í raun skilar bara inn skjali til að segja að þau hafi verið með í samningagerðinni og hafi því ekkert meira um málið að segja, nær að segja það á tveimur og hálfri síðu. Greinilega metnaðarfull vinna hjá ASÍ.

Í þessari umsögn gerir Gylfi Arnbjörnsson, sem undirritar hana, ansi margt til að verja og breiða yfir fyrri afglöp sín og Alþýðusambandsins í málinu. Gylfi gerir sér hins vegar ekki grein fyrir því að þessi yfirbreiðsla er götótt og gagnsæ. Hvergi í umsögninni er nokkuð getið um efnisatriði frumvarpsins sem ASÍ átti að veita umsögn um. Einni setningu er vikið að efnisatriðum samninganna, sem Gylfa og ASÍ er svo óskaplega umhugað um að verði ... jú þið gátuð rétt til ... staðfestir án tafar.

Grípum hér niður í nokkur atriði umsagnarinnar:

1) Gylfi ræðir um muninn á fyrri og núverandi samningum:

"Nýr samningur um lausn Icesave deilunnar virðist hagstæðari en fyrri samningar, þó erfitt sé að meta það einhlýtt."

Þetta er ótrúleg setning, komandi frá formanni samtaka sem á sínum snærum hefur t.d. hagfræðing í fullri vinnu. Það er ekkert flókið eða erfitt við að fjárhagslegan mun á Icesave 1 og Icesave 2. Fyrir utan það að forsendurnar eru útskýrðar nokkuð ítarlega í greinargerðinni með frumvarpinu sem ASÍ átti að veita umsögn um, tókst mörgum öðrum umsagnaraðilum ágætlega upp í því efni. Þar má t.d. nefna IFS greininguGAM Management og InDefence.  Að Gylfi Arnbjörnsson haldi því fram að erfitt sé að meta muninn á samningunum segir einfaldlega það að engin vinna fór í að skoða það.  Miðað við þetta lítur sannarlega út fyrir að Gylfi og félagar í ASÍ hafi hvorki lesið frumvarpið, greinargerðina né samningana sem þeim er svo annt um að koma í gildi.

2) Gylfi reynir að breiða yfir þann áþreifanlega árangur að vextir eru mun lægri en í samningunum sem hann vildi láta staðfesta 2009.

"Einnig skiptir máli að náðst hafa lægri vextir á lánum Breta og Hollendinga, þó fyrri samningar hafi falið í sér möguleika á endurupptöku þeirra ákvæða."

Það kom kyrfilega fram í löngum umræðum um Icesave 1 og Icesave 2 frá júní til desember 2009 að endurupptökuákvæði þeirra samninga voru fullkomlega ónýt. Í besta falli voru þau ákvæði loforð um teboð. Engin skylda lá á Bretum og Hollendingum að breyta neinu í skuldabréfinu eftir að það var komið í gildi, sama hvaða hörmungar dyndu yfir Ísland. Að halda því fram að "endurupptökuákvæði" Icesave 1 og 2 hafi gefið vonir um lækun vaxta síðar er algerlega óraunhæft og hreinlega ekki í neinni tengingu við raunveruleikann.

Þessi setning er þarna í þeim eina tilgangi að breiða yfir þá staðreynd að ASÍ barðist hart fyrir því að ábyrgð á einhliða skuldabréfi með 5,55% vexti (2,35 prósentustigum hærri en meðalvextir núverandi samninga), væri sett á íslenska skattgreiðendur án athugasemda.

3) Gylfi greinir  mismunandi stefnur sem málið hefði getað tekið:

Hvort er hyggilegra að fara fram með ákveðinni sjálfsgagnrýni gagnvart þeim atburðum sem hér urðu á fjármálamarkaði (án þess að hvika frá grundvallar hagsmunum okkar) en gera jafnframt kröfu um ákveðin skilningi [sic.] alþjóðasamfélagsins á getu okkar til að axla afleiðingar af óábyrgu hátterni bankamanna (innlendra sem erlendra)

eða

setja fram ýtrustu kröfur og taka á þeim af hörku án þess að setja okkur inn í þann vanda sem viðsemjendur okkar eru í.

Ef ég lít fram hjá þeirri staðreynd að þessi ambögutexti fer í mínar fínustu kennarataugar, þá eru þarna þrjú atriði sem ég geri alvarlegar athugasemdir við.

í fyrsta lagi, hvað á Gylfi við með að gefa í skyn að sjálfsgagnrýni vanti í Iceasve málinu? Íslendingar hafa lítið annað gert frá hruni en að gagnrýna eigið fjármála- og stjórnmálakerfi. Heil Rannsóknarskýrsla Alþingis hefur verið unnin og þar er "sjálfsgagnrýni á þá atburði sem urðu hér á fjármálamarkaði" upp á tæpar þúsund blaðsíður. Hvað vill Gylfi meira? Íslendingar hafa skipt um ríkisstjórn, skipt um Seðlabankastjórn, skipt um yfirmenn fjármálaeftirlits, og í Icesave málinu lýst ítrekað yfir pólitískum vilja til að taka ábyrgð á greiðslu 20.887 evra á hvern Icesave reikning. Gylfi Arnbjörnsson getur ekki haldið því fram sem rökum fyrir því að Icesave samninga hefði átt að samþykkja fyrr vegna þess að "sjálfsgagnrýni" skorti. Það sem skiptir máli í Icesave málinu er þetta: Þrátt fyrir alla þessa sjálfsgagnrýni, þá eigum við ekki að samþykkja hvaða samning sem er, hversu slæmur og áhættusamur hann er. En það er það sem Gylfi hefur talað fyrir frá upphafi og það er það sem þessi málsgrein er að segja í raun.

í öðru lagi, hvernig skilgreinir Gylfi "grundvallar hagsmuni okkar"? Það væri fróðlegt að fá nánari útskýringu á því hugtaki þarna, því að það má færa fyrir því rök í löngu máli að málflutningur Gylfa og ASÍ hafi frá upphafi Icesave málsins algerlega litið fram hjá "grundvallar hagsmunum okkar", a.m.k. eins og ég skilgreini þá. T.d. því grunnatriði að við eigum ekki að samþykkja samning sem hefur í för með sér 10-25% líkur á gjalþroti ríkissjóðs.

Í þriðja lagi er stórfurðurleg ályktun að Ísland hafi sett fram ítrustu kröfur og ekki sett okkur inn í vanda viðsemjenda okkar. Hvaða vanda? þær upphæðir sem Bretar og Hollendingar lögðu fram til að greiða út innistæður upp að 20.887 evrum eru smáaurar í heildarpakka sem þessi ríki hafa lagt fram til að bjarga eifin bankakerfi. Icesave krafa Bretlands nemur t.d. aðeins um 0,4% af þeim 512 milljörðum punda sem breska ríkið hefur lagt bönkunum til af skattfé. Eini vandi viðsemjenda okkar og alþjóðasamfélagsins er að innistæðutryggingakerfi Evrópusambandsins var og er meingallað, og það er pólitískt óhentugt að viðurkenna þann galla. Viðhalda verður blöffinu gagnvart innistæðueigendum svo þeir taki ekki út peningana sína. Fyrst og fremst þess vegna, þarf að sjást að Ísland borgi innistæður. Ísland er blóraböggull fyrir gallað kerfi ESB ríkjanna. Raunverulegur fjárhagslegur vandi Bretlands og Hollands vegna Iceasve er enginn.

Að halda því fram að Ísland hafi sett fram ítrustu kröfur í Icesave málinu er della. Ítrustu kröfur væru að borga ekki grónu á grundvelli þess að engin lagastoð er fyrir ríkisábyrgð á innistæðum í Evrópusambandinu eða á Íslandi. Þvert á móti hefur Ísland komið mjög langt til móts við ESB og viðsemjendur sína með Brussel viðmiðunum í nóvember 2008, þar sem skrifað var undir pólitíska lausn málsins. Hún fól það í sér að Ísland gekkst við greiðslum á lágmarkstryggingunni gegn því að fá samninga sem ekki knésettu landið og gerðu því kleift að endurreisa efnahagskerfið.  Íslendingar hafa alla tíð síðan staðið fullkomlega við sinn hluta þessa samkomulags. Aldrei hefur því verið lýst yfir að Ísland myndi ekki borga. Aftur og aftur hefur það verið áréttað að Ísland muni axla þessa ábyrgð, af ríkisstjórn, af forseta, í viljayfirlýsingum til AGS svo eitthvað sé nefnt.

Það má miklu frekar, og auðveldlega, halda því fram að samningsaðilar okkar hafi haldið fram ítrustu kröfum sínum og hreinlega ekki uppfyllt sinn hluta Brussel viðmiðana. Fyrsti samningurinn var með þvílíkum ólíkindum að það er furðulegt að nokkur íslensk samninganefnd hefði ljáð máls á því að skrifa undir það plagg, hvað þá ríkisstjórnin sjálf. Þar voru hagsmunir Íslands algerlega bornir fyrir borð. ASÍ krafðist þess að þeir yrðu samþykktir hið fyrsta. Annar samningurinn var litlu skárri og bar enn í sér stórhættu á gjaldþroti ríkisins eða eilífðarskuld þess með tilheyrandi álögum á skattgreiðendur áratugi inn í framtíðina. ASÍ krafðist þess að þeir yrðu samþykktir án tafar.

Að halda því fram að Íslendingar hafi verið óbilgjarnir og kröfuharðir í þessu máli er einfaldlega rangt Gylfi Arnbjörnsson. Þvert á móti hafa Íslendingar sýnt ótrúlega sanngirni gagnvart kröfum sem eiga sér enga lagastoð, og það þrátt fyrir tveggja ára langa kúgunartilburði viðsemjenda sinna á ýmsum vettvangi.

4) Gylfi reynir að kenna töfum Icesave málsins um skaddað lánstraust og glötuð tækifæri.

"Óvissan er búin að valda okku miklum búsifjum eins og m.a. margir af forsvarsmönnum stærstu fyrirtækja landsins í orku og hátækni hafa bent á. Lánstraust er minna, orðspor Íslands er laskað og miklir fjármunir og tækifæri hafa glatast vegna þessa."

Hvaða "margir forsvarsmenn" eru þetta Gylfi? Það sem Gylfi er að skauta yfir hér eigin málflutningi til hjálpar er að þessir forsvarsmenn eru í raun aðeins tveir, annars vegar talsmenn Landsvirkjunar og hins vegar forstjóri Össurar.

Landsvirkjun hefur verið í vanda við að fjármagna Búðarhálsvirkjun. En skýringin er einföld, og hún er sú að sú fjármögnun átti að koma úr Evrópska fjárfestingabankanum, banka sem er stýrt beint af fjármálaráðherrum Evrópuríkjanna. Í stjórn bankans eiga því sæti fjármálaráðherrar Bretlands og Hollands.  Að öðru leyti hefur Landsvirkjun fjármagnað sig að fullu til 2012.

Forstjóri Össurar lýsti því í haust  hversu erfitt Icesave málið væri fyrir fjármögnun einkafyrirtækja. Stuttu síðar bárust fréttir af fullri fjármögnun Marel, þar á meðal frá þrem stærstu bönkum Hollands. Þar þurfti að vísa frá lánsfjáreigendum sem vildu lána Íslensku fyrirtæki.

Þessi flökkusaga um að Icesave stöðvi allar erlendar lánveitingar og fjárfestingar á ekki við nein rök að styðjast og það er sorglegt að sjá henni haldið fram af ASÍ eftir öll þau augljósu dæmi sem komið hafa fram um hið gagnstæða. Til frekari glöggvunar á þessu bendi ég á "Viðauka IV: Icesave og erlend fjárfesting" í umsögn InDefence hópsins til fjárlaganefndar um Icesave 3. Þar er gerð ágæt grein fyrir þessum málum.

Varðandi lánstraust er vert að skoða skuldatryggingaálagið. Skuldatryggingaálag Íslands (til 5 ára) í byrjun nóvember 2010 (7 mánuðum eftir þjóðaratkvæði um Icesave) var 273 punktar. Það er aðeins 90 punktum yfir meðalskuldatryggingarálagi Vestur-Evrópuríkja, sem á sama tíma var 184 punktar. Til samanburðar má nefna að Grikkland stóð þá í 852 punktum, Portúgal í 439 punktum og Írland í 583 punktum.  NB: þetta er staðan tæpum mánuði áður en Írar fengu risalán frá AGS og ESB. Það má líka benda á að skuldatryggingaálag Íslands fór upp í 675 punkta í febrúar 2010.  Icesave þjóðaratkvæði var 6. mars og síðan þá var Icesave óleyst fram í desember.  Á þeim tíma lækkaði álagið stöðugt um c.a. 400 punkta. Það er líka vert að benda á að síðan Icesave 3 samningurinn kom á borðið í desember hefur skuldatryggingaálag Íslands hækkað.

Að síðustu

Hér hefur verið vitnað í 14 línur af samtals 34 sem umsögnin samanstendur af. Afgangurinn tengist ekki Icesave málinu á annan hátt en að þar er Alþingi eggjað til að ljúka málinu sem fyrst, annað muni hafa alvarlegar afleiðingar sem taldar eru upp. Vissulega er einnig hægt að gera ákveðnar athugasemdir við þann málflutning, en það skal látið kyrrt liggja hér.

Eftir stendur að það er óskiljanlegt hvers vegna heildarsamtök launamanna skila svona hrákavinnu til Alþingis í jafn mikilvægu máli, þar sem þau hafa verið áberandi aðilar á öðrum vængnum. forysta ASÍ skuldar félagsmönnum sínum, íslenskum skattgreiðendum, að taka ábyrgari þátt í Icesave umræðunni sem framundan er heldur en hún hefur sýnt hingað til. Fyrsta skrefið gæti verið að draga þetta skjal til baka og skila alvöru umsögn um málið til fjárlaganefndar


Vilhjálmur Egilsson, íslensk fyrirtæki og Icesave

Það er á almannavitorði að þrátt fyrir að enginn Icesave samningur liggi á borðinu þá hefur fjármálaráðuneytið fyrir nokkrum vikum síðan haldið fundi me

ð forkólfum viðskipta- og atvinnulífsins á Íslandi til að kynna þeim valin atriði úr því “samkomulagi” sem á að hafa náðst um grunnatriði málsins. Á þessum fundum var lögð áhersla á að samkomulagið væri nánast í höfn, nema að stjórnarandstaðan virtist ætla að standa í vegi fyrir því enn einu sinni.

Þessi taktík ríkisstjórnarinnar virðist nú hafa skilað þeim árangri að Vilhjálmur Egilsson og fleiri (skv. fréttum) eru farnir að hringja í þingmenn stjórnarandstöðunnar og hvetja þá til að styðja Icesave samning sem enn er ekki tilbúinn og hann sjálfur veit ekki hvað verður í á endanum. Fjármálaráðuneytinu hefur því tekist það ætlunarverk sitt að gera hagsmunaaðila eins og SA að lobbíistum sínum gagnvart stjórnarandstöðunni í Icesave málinu.

Ástæður þess að SA og Vilhjálmi liggur svo á að klára Icesave málið eru sama gamla bilaða platan: 1) að Icesave málið sé að stöðva erlenda fjárfestingu og erlent fjármagn fyrir íslensk fyrirtæki  2) að ekki sé hægt að afnema gjaldeyrishöft og þar með bæta stöðu íslenskra fyrirtækja nema ljúka Icesave málinu. Skoðum þetta aðeins betur.

1) Fyrirtækin Össur, Marel, Landsvirkjun og Icelandic Group hafa öll fengið aðgang að því fjármagni sem þau þurfa á að halda síðastliðið ár, þar af Marel og IG nú á síðustu vikum. Þessi endurfjármögnun svo mikilvægra fyrirtækja sýnir svart á hvítu að íslensk fyrirtæki njóta eðlilegra kjara á erlendum fjármálamarkaði miðað við stöðu íslensks efnahagslífs. Lítum stuttlega á tvö þessara dæma:

  • Icelandic Group hefur endurfjármagnað erlendar skuldir fyrir um 125 milljarða evra á árinu. Erlendir bankar endurfjármögnuðu lán félagsins að stærstu leyti en Icelandic þarf að borga tæplega 300 punkta álag ofan á LIBOR fyrir fjármögnunina. Um er að ræða sambærileg kjör og íslenska ríkið fékk á lánum frá Norðurlandaþjóðunum vegna efnahagsáætlunar AGS. Engin merki eru um að Icesave málið hafi tafið eða skemmt fyrir endurfjármögnun Icelandic Group.
  • Marel gerði nýlega samning við hóp sex alþjóðlegra banka um langtímafjármögnun að upphæð 350 milljónir evra. Meðal vaxtakjör í upphafi samnings eru EURIBOR/LIBOR + 320 bps og er reiknað með að vaxtaálag muni lækka á lánstímabilinu, í takt við aukinn fjárhagslegan styrk fyrirtækisins. Sex alþjóðlegir bankar, undir forystu ING Bank, Rabobank og ABN Amro standa að þessum heildar fjármögnunarpakka. Meðal þess sem vekur athygli í endurfjármögnun Marel er að vaxtakjörin eru svipuð og íslenska ríkinu bjóðast, og að stærstu bankar Hollands standa að fjármögnuninni. Ef einhverjir ættu að gjalda varhug við að lána íslenskum fyrirtækjum peninga hlytu það helst að vera nákvæmlega þessir bankar. Talsmenn Marel hafa tekið fram að Icesave málið hafi ekki einu sinni verið rætt í þessu sambandi.

Líta má á endurfjármögnun Marel hjá stærstu bönkum Hollands sem síðasta naglann í kistuna fyrir þessa goðsögn um að Icesave stöðvi alla efnahagslega uppbyggingu á Íslandi. Það er því rétt að menn hætti loksins að tyggja þessa úreltu tuggu í fjölmiðlum og leiti annarra skýringa á töfum á uppbyggingu efnahagslífsins, t.d. í stefnu ríkisstjórnarinnar sjálfrar gagnvart erlendum fjárfestum og fyrirtækjum.

Ein kjarnaspurningin hér innanlands í Icesave málinu hefur verið þessi:Hefur Icesave málið tafið uppbyggingu efnahagslífsins, skemmt fyrir íslenskum fyrirtækjum og sett “allt í frost” gagnvart Íslandi á erlendum fjármagnsmörkuðum undanfarið ár?

Það er auðvitað erfitt að segja með beinum rökum og tilvitnunum.  Enda hafa þeir sem halda þessu fram aldrei nefnt bein dæmi um þetta máli sínu til stuðnings. Aðeins liggja fyrir, því miður, óljósar alhæfingar ýmissa aðila um að þetta sé svona, óstuddar beinum rökum eða dæmum.  Hins vegar ber ekki að draga úr því að þetta mál hefur verið milli tannana á heimspressunni og hefur því eflaust haft einhver áhrif á íslensk fyrirtæki erlendis.  Fullyrðingar um Icesave fjármálafrostið eru samt sem áður greinilega stórlega orðum auknar miðað við það sem var nefnt hér að ofan.

Ein augljós staðreynd varpar þó nokkru ljósi á þetta atriði, skuldatryggingarálag Íslands.  Skuldatryggingarálag segir í mjög grófum dráttum til um traust fjárfesta á íslenska ríkinu. Sé skuldatryggingaálag lágt má draga þá ályktun að fjárfestar telji góðar líkur á að fá kröfur sínar greiddar. Eftir því sem traustið minnkar, hækkar skuldatryggingaálagið.

Hér er vert að skoða söguna frá því Icesave 2 var samþykkt á Alþingi við áramót 2010. Þegar forseti Íslands synjaði lögunum staðfestingar upphófst mikill kór um að íslenskt efnahagslíf og traust á íslenska ríkinu á erlendum mörkuðum myndi hrapa suður á bóginn yrði Icesave lögunum hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í byrjun febrúar 2010, mánuði fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, var skuldatryggingarálag Íslands (til 5 ára) 675 punktar (6,75%).  Síðan þá hefur álagið farið lækkandi og í byrjun nóvember stóð það í 273 punktum.  Á meðan Icesave málið hefur staðið óleyst hefur traust erlendra fjárfesta á Íslandi farið vaxandi þannig að skuldatryggingaálagið hefur lækkað um 400 punkta.

Skuldatryggingaálag Íslands (til 5 ára) í byrjun nóvember var 273 punktar.  Það er aðeins 90 punktum yfir meðalskuldatryggingarálagi Vestur-Evrópuríkja, sem á sama tíma var 184 punktar. Til samanburðar má nefna að Grikkland stóð þá í 852 punktum, Portúgal í 439 punktum og Írland í 583 punktum. Það er athyglivert að þetta er staðan tæpum mánuði áður en Írar fengu risalán frá AGS og ESB.

Skuldatryggingaálag er ein af fáum tölum sem gefa til kynna hver raunveruleg staða Íslands er á erlendum fjármálamörkuðum.

2) Samkvæmt Seðlabankanum er ekki í spilunum að afnema gjaldeyrishöft á næstunni.  Seðlabankastjóri gaf miklu frekar upp boltann með að þau gjaldeyrishöft yrðu framlengd í Yfirlýsingu vegna gjaldeyrishafta frá 3. nóvember 2010. Þar segir t.d. í 8. lið:

“Að gefnu því að það gæti dregist til áramóta að bæta úr hugsanlegri vöntun á eigin fé í bankakerfinu, þá er ekki raunhæft að ætla að önnur skref … verði stigin til að aflétta höftum á útflæði fjármagns fyrir árslok. Auk þess verða engin slík skref stigin áður en endurskoðuð áætlun hefur verið kunngerð.  Ennfremur verða engar grundvallarbreytingar á núverandi reglum gerðar fyrr en í mars 2011 þótt endurskoðuð áætlun verði tilbúin fyrir þann tíma. … Þessi skuldbinding er studd af efnahags- og viðskiptaráðherra. Hafa ber í huga að heimildir í lögum um gjaldeyrishöft renna út í lok ágúst 2011. Hins vegar gæti tillaga um framlengingu lagaheimildarinnar orðið hluti af endurskoðaðri áætlun”

Það er vert að taka það fram að þrátt fyrir að Seðlabankastjóri hafi áður verið óhræddur við að tala um Icesave málið í yfirlýsingum sínum þá er eftir því takandi að á það er ekki minnst hér.  Þetta er sérstaklega athyglivert í ljósi þeirrar áherslu sem SA og aðrir aðilar íslensks viðskipta- og atvinnulífs hafa lagt á að Icesave málið standi í vegi fyrir afnámi gjaldeyrishafta.

Ef við lítum á einfaldar staðreyndir þá er miklu líklegra að Icesave samningur sem bindur íslenska ríkið til að standa skil á greiðslum upp á tugi eða hundruð milljarða í erlendum gjaldeyri muni valda því að gjaldeyrishöft verði viðvarandi forsenda íslensku efnahangslífi mörg ár inn í framtíðina.  Það sem alltaf virðist gleymast er að Icesave kröfur Breta og Hollendinga eru í evrum og pundum, ekki í íslenskum krónum.

Ef “skuld” íslenska ríkisins er metin á 60 milljarða króna þarf að breyta þeim krónum í evrur og pund áður en greitt er. Til þess þarf ríkissjóður að afla gjaldeyris, þ.e. evrur og pund verða að vera til í sjóði sem hægt er að draga á.  Í því sambandi er rétt að athuga tvær staðreyndir:

a) Ríkissjóður Íslands á ekki allan gjaldeyri sem kemur inn í landið. Það eru útflutningsgreinarnar, fiskvinnslan og áliðnaðurinn sérstaklega, sem aðallega afla gjaldeyris inn í landið. Önnur fyrirtæki hjálpa til. Á einhvern hátt þarf ríkissjóður svo að sjá til þess að þessi gjaldeyrir skili sér í kassann til að hægt sé að nota hann til að greiða fyrir Icesave samninginn.  Hvernig á að gera það? Er ekki einfaldasta leiðin að viðhalda gjaldeyrishöftum og hækka skatta á fyrirtækin í landinu? Hvort tveggja er atvinnulífinu augljóslega mjög óhagstætt og vandskilið hvernig Vilhjálmur Egilsson gengur erinda umbjóðenda sinna með því að hvetja til þess að Alþingismenn samþykki samning sem ber í sér slíka áhættu.

b) Vegna þess að krafan er í erlendum gjaldeyri en ekki krónum verður til gengisáhætta. Krónutalan sem íslenska ríkið þarf að greiða getur því breyst dramatískan hátt ef sveiflur verða á gengi krónunnar. Gott dæmi um þetta er að krónan hefur stykst gagnvart evru frá janúar 2010, úr 180 krónum í um 154 kr á evru. Það þýðir að heildarkrafa UK og HOL í krónum hefur lækkað um c.a. 100 milljarða króna.Hún hefur samt ekkert lækkað í raun og veru.  Það er því augljóst að íslenska ríkið á gríðarlega hagsmuni í Icesave málinu undir því komna að gengi krónunnar styrkist, eða í það minnsta falli ekki hratt og djúpt.  Ef gengi krónunnar fellur geta greiðslur vegna Icesave samnings hækkað skyndilega um tugi milljarða króna. Undanfarin tvö ár hefur krónunni verið haldið í öndunarvél með gjaldeyrishöftum.

Það vita allir að gengi Seðlabankans er mun hærra en raunverulegt gengi krónunnar á erlendum markaði.  Það er því jafn augljóst að þegar gjaldeyrishöft verða afnumin þá mun krónan óumflýjanlega og örugglega falla töluvert.  Hversu hratt og hversu djúpt er erfitt að segja.  Þetta er augljósa ástæðan fyrir því að gjaldeyrishöft hafa ekki verið afnumin. Punkturinn hér er sá að ef kominn er á Icesave samningur sem gerir ráð fyrir greiðslum á tugum eða hundruðum milljarða í erlendum gjaldeyri þá verða gjaldeyrishöft nær örugglega enn nauðsynlegri en fyrr, til að tryggja að sú “skuld” hækki ekki um tugmilljarða í krónum á einni nóttu vegna annars óumflýjanlegs gengisfalls krónunnar.

Það væri skynsamlegt að áætla að Vilhjálmur Egilsson, Samtök atvinnulífsins og aðrir hagsmunaaðilar sem nú er pressað á að gerast lobbíistar Icesave samkomulags gagnvart þingi og þjóð, hafi kynnt sér þetta allt í þaula.  Eitt af því sem skynsamlegt væri að áætla að þeir hafi kynnt sér, rætt, aflað sér upplýsinga um og komist að niðurstöðu um eru þær 40 spurningar sem InDefence hópurinn sendi frá sér fyrir viku síðan. Ekki vegna þess að þær komu frá InDefence hópnum, heldur vegna þess að margar þeirra eru grundvallarspurningar sem er bráðnauðsynlegt að fá svör við áður en gengið er frá nýjum Icesave samningum og allir sem ræða eða taka ákvarðanir um Icesave málið verða að fá svör við áður en þeir geta tekið upplýsta afstöðu til nýrra samninga.

Því miður virðist skynsemin ekki hafa ráðið för hjá Vilhjálmi og SA frekar en fyrri daginn í Icesave málinu. Það væri óskandi að þeir sem taka ákvarðanir í þessu máli, sem og þeir sem taka að sér að reyna að pressa á ákveðna niðurstöðu í því, gerðu sér far um að skoða til hlítar rök, upplýsingar og staðreyndir um málið í stað þess að treysta blindandi á opinberar yfirlýsingar og misvitrar upphrópanir um málið í fjölmiðlum.

Ef það hefði ráðið ferðinni frá upphafi væri staðan í þessu máli hugsanlega heldur skárri en hún er í dag.


Sex afsakanir fyrir því að kjósa ekki – og af hverju þær virka ekki.

Ég leyni því ekki að ég er undrandi og vonsvikinn með mína ágætu þjóð. Ég átti von á því að fólk sem hefur talað í tvö ár um

  • - meiri áhrif fólksins í landinu,
  • - meiri þátttöku í ákvarðanatökum um framtíðina,
  • - minni áhrif stjórnmálaflokkanna,
  • - að landið eigi að vera eitt kjördæmi eða að atkvæðavægi eigi að vera jafnt á annan hátt,
  • - að við eigum að fá meiri rétt til að kjósa einstaklinga en ekki flokka – persónukjör

myndi þegar allt þetta er í boði í einni atkvæðagreiðslu mæta á kjörstað og nýta tækifærið, nýta atkvæðisréttinn.

En nei.  Staðreyndin virðist því miður vera sú að þegar tækifærið gefst þá sitja 60% þjóðarinnar heima og láta sér fátt um finnast. Það gerir mig sorgmæddari en orð fá lýst.

Ekki vegna þess að ég vildi að þetta fólk kysi mig. Nei. Vegna þess að nú munu úrtölumenn framtíðarinnar geta sagt: “Þjóðaratkvæði? Þjóðarfrumkvæði? Lýðræði yfir höfuð? Það er ekki til neins, sjáið bara stjórnlagaþingskosningarnar.”

Ég get á engan hátt skilið það hvers vegna fólk nýtir ekki atkvæðisréttinn, helgustu réttindi þegns í lýðræðissamfélagi. Ég bara skil það ekki.

Og skýringarnar sem ég heyri eru allar jafn ótrúlega fáránlegar og/eða órökréttar. Hér eru þær helstu:

1. Ég er að mótmæla þessu rugli, það á að eyða peningunum í mikilvægari hluti.

Mættu þá á kjörstað og skilaðu auðu.  Það er líka gild afstaða. Og auður seðill er augljósari mótmæli en að sitja heima og vera flokkaður með letingjunum sem nenntu ekki eða var alveg sama.

2.  Það eru of margir í framboði, ég hef ekki tíma/hef ekki þekkingu/get ekki valið 25 af 522.

Þú þurftir ekki að kjósa 25. Það var jafn gilt atkvæði að kjósa einn. Allir hefðu auðveldlega getað fundið einn af þessum 522 sem þeim leist vel á.

3. Þetta nýja kosningakerfi er svo flókið. Ég skil það ekki.

Þetta er einföld forgangsröðun. Sá sem þú vilt helst kjósa fer í efstu línuna, sá sem þér finnst næstbestur fer í línu tvö og svo framvegis. Í alvöru, hvað er flókið við þetta?

4. Þetta er of mikið vesen, of margar tölur, þetta mun taka of mikinn tíma, það verða endalausar biðraðir, ég nenni ekki að eyða öllum deginum í þetta.

Aftur, kjóstu þá bara einn=bara ein tala að muna. Notaðu æfingaseðilinn og afritaðu tölurnar yfir á kjörseðilinn í kjörklefanum=tekur 5 mínútur í mesta lagi. Það voru 10 kjörklefar í hverri kjördeild = ekki lengri biðröð en í öðrum kosningum. Þú ert letingi og þetta eru afsakanir letingjans.

5.  Ég er á móti því að breyta stjórnarskránni, hún er fín eins og hún er. Hrunið var ekki stjórnarskránni að kenna.

Þá hefðir þú átt að kjósa þá frambjóðendur sem börðust fyrir nákvæmlega þessu, að breyta engu eða litlu. Þeir voru fleiri en 25. Þannig hefðir þú getað séð til þess að þín sjónarmið ættu málsvara á stjórnlagaþinginu. Með því að sitja heima hefur þú séð til þess að þín sjónarmið eiga minni möguleika.

6. Þetta skiptir engu máli. Helvítis Fjórflokkurinn á Alþingi mun ekkert fara eftir því sem stjórnlagaþingið segir. Helvítis stjórnmálamenn grumblegrumble…

Ef einhver hefur séð til þess að þetta geti gerst þá ert það þú, sem sast heima og tókst ekki þátt. Því að sterkasta afsökun Alþingis til að breyta tillögum stjórnlagaþings eða fara ekki eftir þeim er einmitt að það hafi lélegt umboð þjóðarinnar, þ.e. að kosningaþátttakan hafi verið svo lág að stjórnlagaþingmenn séu ekki raunverulegir fulltrúar þjóðarinnar. Þetta er það sem kallað er “self-fulfilling prophecy”.  Mundu því, að ef þetta gerist þá þýðir ekki að væla því það er á þína eigin ábyrgð!


Félagsmálaráðuneytið fjarlægt strax af listanum.

Félagsmálaráðuneytið sendi InDefence póst á press@indefence.is og bað um að kennitala ráðuneytisins væri tekin af listanum.  Það var gert um hæl.

Ég hvet fólk til að nota möguleikann "athuga skráningu" á indefence.is ef það heldur að  það hafi verið skráð að því forspurðu. Ef svo er, þá er best að senda póst til okkar strax og við munum að sjálfsögðu afskrá viðkomandi eins fljótt og auðið er.

Nú hafa okkur borist alls um 30 afskráningarbeiðnir.  Það hlýtur að teljast lítið hlutfall af rúmlega 60 þúsund undirskriftum. Það er því mjög sérstakt að horfa upp á það niðurrif sem nú stendur sem hæst, þar sem haldið er fram að "fjöldi fólks" sé skráð á listann án sinnar vitundar.

 


mbl.is Ráðuneyti skráð á lista InDefence
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með Sviss? Rangt hjá Árna Þór.

Enn og aftur er það dregið upp sem einhver Stóri Sannleikur að "almennt sé viðurkennt" hjá "flestum þjóðum" að ákveðin mál megi ekki setja í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Nú segir Árni Þór Sigurðsson þetta:

  „Auk þess er það yfirleitt svo hjá þeim þjóðum sem hafa slíkan ramma [um þjóðaratkvæðagreiðslur] að mál af ýmsum gerðum eru undanskilin þjóðaratkvæðagreiðslum, s.s. fjárlög, skattamál, þjóðréttarlegar skuldbindingar og slíkir hlutir. Þetta mál er þeirrar gerðar. Ég sé ekki að þetta sé bært til að setja í þann farveg,“ segir Árni

Nú er það svo að Árni er fulltrúi flokks sem hefur það skýrt á stefnuskrá sinni að væntanlegur aðildarsamningur Íslands við Evrópusambandiðskuli skilyrðislaust borinn undir þjóðina til samþykktar eða synjunar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 Í ljósi þessa vil ég benda Árna Þór Sigurðssyni, Steingrími J. Sigfússyni, Björgvin Sigurðssyni og öðrum sem viðhafa sömu rök, á eftirtaldar, einfaldar staðreyndir:

1. Danmörk eina Norðurlandaríkið sem hefur slík takmarkandi ákvæði í stjórnarskrá sinni.

2. Af stjórnarskrám helstu nágrannaríkja okkar eru aðeins Danmörk og Ítalía sem undanskilja ákveðin málefni þjóðaratkvæði á þennan hátt. Þar eru sérstaklega tiltekin fjárlög og alþjóðasamningar.

3. Mjög skýrt dæmi um hið gagnstæða er Sviss, ríki með mjög sterka hefð fyrir beinu lýðræði. Í Sviss getur almenningur (með undirskriftasöfnun) krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um hvaða mál sem er. eina skilyrðið er að 50.000 undirskriftir safnist á innan við 100 dögum. Engin málefni eru þar undanskilin, hvorki alþjóðasamningar né fjárlög. Þessu gleyma Árni Þór og félagar alltaf á hentugan hátt þegar þeir draga dönsku stjórnarskrána fram sem dæmi.

4. Því má bæta við að 50.000 manns eru 0,6% af svissnesku þjóðinni,sem telur um 8 milljónir manna. Í dag hafa 33.000 undirskriftir á www.indefence.is verið sannreyndar með samkeyrslu við þjóðskrá.  Það eru 10,4% af íslensku þjóðinni (m.v. desembertölur Hagstofunnar).  Það er sautjánfaldur fjöldi þeirra sem til þyrfti ef notast væri við sama hlutfall og í Sviss.   


5. Icesave samningarnir eru ekki alþjóðasamningar. Stór hluti af vandanum við samningana kemur til vegna þess að þeir eru lánasamningar gerðir á grundvelli einkaréttar, sem íslenska ríkið á aðeins aðild að sem ábyrgðaraðili. 

6.  Þjóðaratkvæðagreiðsla um málið eins og það liggur nú fyrir Alþingi myndi því ekki snúast um rétt ríkisins til að skuldbinda ríkissjóð skv. alþjóðasamingi.  Auk þess hefur Alþingi þegar samþykkt að veita ríkisábyrgð að uppfylltum ákveðnum fyrirvörum. Bretar og Hollendingar eru því með vilyrði í höndunum fyrir fullgildum samningi. Þjóðaratkvæðagreiðsla um málið eins og það er nú myndi því aðeins snúast um það hvort breytingalögin, (þ.e. nýju útþynntu fyrirvararnir), ættu að gilda eða hvort lögin sem nú eru í gildi, (gömlu fyrirvararnir frá því í ágúst) ættu að gilda áfram.  

 

Og hér er svo að síðustu áleitin spurning sem ég skora á Árna Þór og félaga að svara opinberlega:

7. Ef það er rétt sem sumir halda fram (með sérvöldum dæmi um dönsku stjórnarskrána sér til stuðnings), að það sé almennt ekki álitið gott að alþjóðasamningar og mál sem lúta að fjárskuldbindingum ríkisins séu lögð í þjóðaratkvæði, hvers vegna eru þá allir stjórnmálaflokkar á Íslandi, og flest nágrannaríki (t.d. Danmörk) sammála um að aðildarsamning við ESB skuli ótvírætt leggja undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar?

Aðildarsamningur Íslands að ESB hlýtur að vera mikilvægasti alþjóðasamningur Íslandssögunnar, auk þess sem aðild að ESB myndi krefjast mikilla fjárskuldbindinga af hendi Íslands, sem og ákveðið afsal fullveldisréttinda í hendur yfirþjóðlegu valdi og mögulega einhvers konar afsal yfirráða (eða sameiginleg yfirráð að einhverju marki) yfir auðlindum landsins, t.d. fiskimiðum.

Árni Þór,hvernig eru þetta samrýmanleg sjónarmið:

a) annars vegar að þjóðinni skuli skilyrðislaust ráða örlögum aðildarsamnings að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu,

og

b) hins vegar að þjóðin geti ekki fengið að segja álit sitt á einfaldri ríkisábyrgð á einföldum lánasamningi ríkissjóðs vegna þess að "það sé almennt viðurkennt að milliríkjasamninga og málefni varðandi fjárskuldbindingar ríkisins séu undanskilin, eða henti ekki, þjóðaratkvæði" ?

 Rúmlega 30.000 Íslendingar sem hafa ritað nafn sitt á indefence.is eiga kröfu á skýru og greinargóðu svari frá Árna Þór Sigurðssyni, Steingrími J. Sigfússyni, Björgvin Sigurðssyni og öllum öðrum sem hafa á síðustu vikum fullyrt að þjóðin geti ekki fengið að greiða atkvæði um ný Icesave lög, og hafa aðeins nefnt dönsku stjórnarskrána sem sitt eina haldreipi því til stuðnings. Slík rökfærsla er aðeins til þess fallin að kasta ryki í augu fólks. 

 


mbl.is Fyrst þyrfti löggjöf um þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áskorun til forseta Íslands. Þjóðaratkvæðagreiðsla um ný Icesave-lög. - www.indefence.is

* InDefence hópurinn efnir til undirskriftasöfnunar: Forseti Íslands synji breytingalögum um Icesave staðfestingar verði þau samþykkt á Alþingi.
* Kjarni málsins er sú sanngjarna krafa að hin þunga efnahagslega byrði, sem ríkisábyrgð leggur á íslenskan almenning og framtíðarkynslóðir þessa lands, verði borin undir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.
* Staðfesting forsetans á lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave síðastliðið sumar var með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis.
* Fyrirvarar Alþingis eru fyrir borð bornir í nýju Icesave-lagafrumvarpi.


Alþingi Íslendinga hefur nú til meðferðar frumvarp til breytinga á lögum nr. 96/2009 um ríkisábyrgð á Icesave samningum. Verði frumvarpið samþykkt, sem enn verður að vona að ekki komi til, er ljóst að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar er stefnt í hættu vegna krafna sem fullar forsendur eru til að þjóðin hafni. Framtíðarkynslóðir Íslands yrðu skuldsettar og lífskjör þeirra skert um langa framtíð.
Við staðfestingu laga nr. 96/2009 ítrekaði forseti Íslands mikilvægi fyrirvara Alþingis með sérstakri áritaðri tilvísun til þeirra, sbr. yfirlýsingu hans dags. 2. september 2009.

Þeir fyrirvarar við ríkisábyrgð sem samþykktir voru í ágúst voru sameiginleg niðurstaða fjögurra þingflokka á Alþingi en með þeim setti Alþingi upp efnahagslegt skjól fyrir þjóðina. Fyrirvararnir taka mið af sanngjörnum rétti og hagsmunum Íslendinga og alþjóðlegri samábyrgð, eins og segir í yfirlýsingu forseta Íslands.

Í nýja Icesave-frumvarpinu eru þeir fyrirvarar Alþingis sem mestu skipta til að takmarka ríkisábyrgðina og verja hagsmuni þjóðarinnar vegna Icesave-samninganna hins vegar nánast að engu gerðir. Með samþykki þessa frumvarps verða skuldbindingar íslenska ríkisins á ný ófyrirsjáanlegar bæði hvað varðar fjárhæðir og tímalengd.

InDefence hópurinn efndi til undirskriftasöfnunar í október 2008 vegna beitingar hryðjuverkalaga gegn Íslendingum. Tugir þúsunda tóku þátt í þeirri söfnun, sem vakti heimsathygli. Með þá reynslu í huga hefur hópurinn ákveðið að efna til undirskriftasöfnunar nú meðal Íslendinga þar sem skorað er á forseta Íslands að synja breytingalögum vegna Icesave-samninga staðfestingar. Í kjölfarið verði sú efnahagslega byrði sem ríkisábyrgðin leggur á íslenskan almenning og framtíðarkynslóðir þessa lands borin undir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Áskorunin hljóðar svo:

Ég skora á forseta Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson, að synja nýjum Icesave-lögum staðfestingar. Ég tel að það sé sanngjörn krafa að sú efnahagslega byrði, sem ríkisábyrgðin leggur á íslenskan almenning og framtíðarkynslóðir þessa lands, verði borin undir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hægt er að skrifa undir áskorunina á vefnum:

www.indefence.is

mbl.is Forseti synji Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árituð tilvísun forseta til fyrirvara Alþingis og ný Icesave lög.

Eftirfarandi grein eftir undirritaðan og Eirík Svavarsson lögmann birtist í Morgunblaðinu í dag.

---

 Árituð tilvísun forseta til fyrirvara Alþingis og ný Icesave lög.

Í september staðfesti forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, lög nr. 96/2009 um ríkisábyrgð vena Icesave. Alþingi hafði þá samþykkt ríkisábyrgð með sérstökum fyrirvörum sem voru afleiðing þverpólitísks samstarfs þingmanna úr öllum flokkum. Einnig komu að gerð fyrirvaranna fjöldi sérfræðinga og áhugafólks úr röðum almennings.

Með hliðsjón af þessu kaus forseti Íslands að staðfesta lögin með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis. Um leið og hann staðfesti lögin, þann 2. september 2009,  gaf hann út yfirlýsingu sem sjá má á heimasíðu forsetaembættisins. Í tilvísun forseta sagði meðal annars að fyrirvararnir sem Alþingi samþykkti tækju að hans mati mið af: „sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagsmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð."

Með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis hefur forseti ítrekað að hann telji fyrirvarana svo mikilvægan hluta laganna að staðfesting hans hafi krafist sérstakrar tilvísunar til þeirra. Af þessari sérstöku áherslu forseta má því álykta að án fyrirvaranna hefði hann synjað lögunum staðfestingar. Að öðrum kosti hefði sérstakrar tilvísunar til þeirra tæpast verið þörf. Þar fyrir utan er sérstök árituð tilvísun forseta Íslands við staðfestingu laga að öllum líkindum fordæmalaus í lýðveldissögunni.

Ný Icesave lög fella niður marga fyrirvara Alþingis.

Alþingi Íslendinga hefur nú til meðferðar frumvarp sem felur í sér grundvallar breytingar á  lögum nr. 96/2009 um ríkisábyrgð vegna Icesave. Margir fyrirvarar Alþingis sem forseti vísaði til í sérstakri áritun sinni eru felldir niður að hluta eða í heild. Sem dæmi um mikilvæg ákvæði í þessu sambandi sem nú eru í gildi í fyrirvörum Alþingis má nefna fyrirvara um lok ríkisábyrgðar árið 2024 og fyrirvara um að allar greiðslur skuli háðar ákveðnu hámarki miðað við hagvöxt. Í nýju frumvarpi er fallið frá þessum fyrirvörum og  gert ráð fyrir því að ríkisábyrgð hafi engan endi, heldur framlengist um fimm ár í senn þar til skuldin er að fullu greidd. Jafnframt er gert ráð fyrir að vextir skuli ávallt greiddir utan greiðsluhámarks, óháð íslenskum hagvexti. 

Af þessu er ljóst að sérstök árituð tilvísun forseta Íslands til fyrirvara Alþingis hlýtur að hafa gildi ef þetta nýja Icesave frumvarp verður samþykkt á Alþingi og verður lagt fyrir forseta til staðfestingar.  Forseti Íslands setti sér, með áritaðri tilvísun í september s.l., ákveðin og skýr viðmið um að lög um ríkisábyrgð vegna Icesave skuli til að hljóta staðfestingu taka mið af „sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð." Þessi skilyrði taldi hann einungis vera uppfyllt með fyrirvörum Alþingis í núgildandi lögum. 

Getur forseti Íslands staðfest ný lög um Icesave miðað við eigin skilyrði?

Af ofansögðu má þrennt ljóst vera:

1.      Forseti Íslands taldi fyrirvara Alþingis forsendu staðfestingar laga um ríkisábyrgð vegna Icesave. Ekki er hægt að túlka sérstaka áritaða tilvísun hans til fyrirvara Alþingis á annan hátt.

2.      Ný lög um Icesave munu fella úr gildi marga af mikilvægustu fyrirvörum Alþingis, sem forseti lagði svo sérstaka áherslu á við staðfestingu laganna.

3.      Forseti hefur með opinberri yfirlýsingu sett sér og embætti sínu skýr viðmið um það hvaða skilyrði lög um ríkisábyrgð vegna Icesave skulu uppfylla til að hljóta staðfestingu forseta.

Í ljósi þessa hlýtur það að vera sanngjarnt að spyrja hvort forseti Íslands verði samkvæmur eigin yfirlýsingu, ef ný lög um ríkisábyrgð vegna Icesave berast honum til staðfestingar? Ef forseti leggur í raun og sannleika áherslu á að slík lög taki mið af hagsmunum Íslendinga á komandi árum, sem hann taldi fyrirvara Alþingis tryggja í september, á hann tæpast annarra kosta völ nú en að synja lögunum staðfestingar og leggja þau í dóm íslensku þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Slík staðfesta í máli sem varðar sanngjarnan rétt þjóðarinnar, þar sem óumdeilanlega er verið að leggja miklar efnahagslegar byrðar á núverandi og komandi kynslóðir Íslendinga, hlyti að teljast forseta Íslands til sóma. 

 


mbl.is 79 þúsund borga Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave friðþægingin

Þegar Alþingi samþykkti ríkisábyrgð á Icesave lánasamningunum voru settir skýrir fyrirvarar við ríkisábyrgðina.  Þessir fyrirvarar voru árangur þrotlausrar samvinnu fólks í öllum flokkum. Út af fyrir sig óvenjuleg upprisa íslenskra þingmanna úr pólitísku skotgröfunum og mjög jákvæð þróun þingstarfa.

Þessir fyrirvarar gerðu vonda Iceseve samninga ögn bærilegri frir íslenska skattborgara, jöfnuðu taflið örlítið miðað við þann herfilega samningstexta sem samninganefnd Íslands skrifaði undir þann 5. júní, og ríkisstjórnin samþykkti fyrir sitt leyti óséðan. 

Mikilvægt er að halda því til haga að samningstextinn sjálfur hefur ekkert breyst við lög um ríkisábyrgð.  Enn eru þar inni óvenju víðtækar gjaldfellingarheimildir svo dæmi sé nefnt, sem geta valdið Íslandi miklum vanda ef illa gengur að afla gjaldeyris til afborgana á næstu árum, jafnvel á öðrum lánum ríkisins, ótengdum Icesave.  Samningurinn er því ekkert betri eftir lagasetninguna, aðeins örlítið minna hörmulegur.

Eitt mikilvægasta atriðið í lögunum kemur fram í fyrstu grein þeirra.  Þar segir: "Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá. Enn fremur að lánveitendur samkvæmt þeim lánasamningum sem greinir í 1. mgr. viðurkenni að skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta séu háðar sömu fyrirvörum og ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum."

Þetta ákvæði gefur til kynna skýran vilja Alþingis: Að ríkisábyrgð skuli því aðeins veitt ef þessum fyrirvörum er fullnægt.  Þetta gæti ekki verið skýrara.  Alþingi tók langan tíma í að vinna faglega og þverpólitískt að þessum fyrirvörum og þetta er niðurstaðan.

Ríkisstjórn Íslands kaus hins vegar að virða ekki þessa niðurstöðu Alþingis.  Strax í byrjun september fékk ríkisstjórnin vitneskju um að Bretar og Hollendingar gerðu athugasemdir við fyrirvara Alþingis, höfnuðu þeim í raun.  Svar íslenskra stjórnvalda þá þegar hefði átt að vera einfalt:  Gott og vel, þá er engin ríkisábyrgð.  

Slíkt svar, slík einurð og skýr afstaða með afgreiðslu Alþingis og með augljósum hagsmunum Íslands í málinu hefði ekki einungis haft fullan stuðning Alþingis, heldur einnig stuðning meirihluta íslensku þjóðarinnar, sem hefur sýnt það í skoðanakönnunum hversu mikla andúð hún hefur á kúgunartilburðum Breta og Hollendinga til að láta Íslenskan almenning bera þessa skuld að fullu.

Það er ekkert leyndarmál lengur að Bretar og Hollendingar nota Alþjóða gjaldeyrissjóðinn til að knýja Íslendinga til að samþykkja Icesave og þannig í raun til að kúga fé út úr íslensku þjóðinni.  Steingrímur J. Sigfússon staðfesti þetta við fulltrúa InDefence í símtali strax 7. júní og nú fyrir skömmu lýsti Össur Skarphéðinsson yfir vanþóknun á þessu athæfi á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.  Gordon Brown hefur heldur ekki farið í felur með þetta athæfi, en hann lýsti því yfir á breska þinginu á meðan á samningum stóð að Bretar væru að "vinna að því í samvinnu við AGS að sjá til þess að Íslendingar greiddu skuldir sínar" vegna Icesave.  Það ætti því ekki að dyljast neinum að AGS er notað sem kúgunartæki og ekkert annað.  Ef Ísland greiðir ekki Icesave þá skuli engin endurskoðun á efnahagsáætluninni fara fram og þar með engin lán berast til Íslands og svo framvegis.  

Íslensk stjórnvöld hefðu átt að hrópa þessa skömm Breta og Hollendinga af húsþökum í öllum stærstu fjölmiðlum heims allt frá upphafi og þannig gera alþjóðasamfélaginu þetta ljóst.  Það hefði ekki komið vel út fyrir AGS og hefði styrkt okkar samningsstöðu. Það var ekki gert. Ísland hefði átt að standa upp frá samningsborðinu og gera Bretum og Hollendingum það ljóst að það yrði ekki einn einasti fundur um málið fyrr en þessari hegðun lyki.  Það var ekki gert. Í staðinn var þagað og kúgunin látin viðgangast.  Og þess vegna viðgengst kúgunin enn í dag.

Í stað þess að standa með fyrirvörum Alþingis kaus ríkisstjórnin í byrjun september að ljúga að þjóðinni í hartnær tvær vikur að engin svör hefðu borist.  Á meðan var hafist handa við að semja um breytingar á fyrirvörum Alþingis, enn á ný undir kúguninni um frestun endurskoðunar AGS.

Jóhanna Sigurðardóttir orðaði það svo á opnum fundi Samfylkingarinnar þann 30. september sl. að það væri verið að reyna að ná niðurstöðu um nokkur atriði fyrirvaranna sem báðir aðilar gætu sætt sig við, og ef það næðist myndu Íslendingar "biðja" Breta og Hollendinga aflétta þrýstingi sínum á AGS svo endurskoðunin gæti farið fram strax og samningum lyki.  

Þetta er ekkert annað en óskiljanleg þrælslund. Það er engin tilviljun að Neville Chamberlain hefur orðið að athlægi í sögunni fyrir að láta eftir landakröfum Adolf Hitlers í München 1938, í þeim tilgangi að biðja hann um að hætta að gera meiri landakröfur í Evrópu.  Allir vita hvert gildi skjals Chamberlains um "frið á vorum tímum" var. Friðþæging íslensku ríkisstjórnarinnar á kröfum Breta og Hollendinga um afslætti á fyrirvörum Alþingis er af nákvæmlega sama meiði og friðþæging Chamberlains. 

Ríkisstjórnin er að uppfylla kröfur kúgarans til að biðja hann um að hætta að kúga sig.  Í slíkri stöðu gerist alltaf það sama: Kúgarinn nær markmiðum sínum, kúgunin virkar.

Ég skora á ríkisstjórn Íslands að láta slíkt ekki yfir þjóð sína ganga.  Ég skora á ríkisstjórn Íslands að segja við Breta og Hollendinga: Hingað og ekki lengra, nú er nóg komið! 

Ríkisstjórnin er ekki í slæmri samningsstöðu.  Þann 23. október nk. verður innlánatrggingasjóður gjaldþrota ef ekki hefur samist um ríkisábyrgð.  Það er ekki Bretum og Hollendingum í hag og þeir munu aldrei velja þá leið sjálfviljugir.  Því er nú rétti tíminn fyrir Íslendinga að snúa taflinu við. Skilaboð ríkisstjórnar Íslands, Alþingis og íslensku þjóðarinnar til Breta og Hollendinga ættu því að vera einföld og skýr:

Fyrst AGS endurskoðun strax. Svo getum við rætt saman um Icesave. Ekki fyrr. Íslenska þjóðin lætur ekki kúga sig lengur!

 

 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband