Beint lýðræði? Er það eitthvað ofan á brauð?

Beint lýðræði í ríkjum nútímans er réttur fólksins í landinu til að fá að taka beinan þátt í ákvarðanatöku í einstökum málum sem varða stjórn ríkisins eða skipan. Langflest lýðræðisríki í dag byggja fyrst og fremst á fulltrúalýðræði, þ.e. almenningur kýs fulltrúa (t.d. þingmenn) sem í þeirra umboði taka ákvarðanir og stjórna ríkinu.

Þótt þetta fyrirkomulag hafi verið við lýði á Íslandi síðan um miðja 19. öld er ekki þar með sagt að það sé það besta sem í boði er. Þvert á móti eru til þónokkur dæmi um að þjóðin hefði gjarnan viljað komast með fingurna nær ákvarðanavaldinu í einstökum málum, sérstaklega eftir lýðveldisstofnun.

Hvers vegna fékk íslenska þjóðin ekki að greiða atkvæði um inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið árið 1949? Hvers vegna fékk hún ekki að segja álit sitt á því hvort hún vildi gerast aðili að evrópska efnahagssvæðinu á tíunda áratugnum? Hvers vegna voru fjölmiðlalögin ekki borin undir þjóðina árið 2004?

Hver ræður því hvort þjóðin fær að segja sína skoðun?

Staðreyndin er sú að íslenska þjóðin er múlbundin. Eina von hennar um að fá að segja skoðun sína á mikilvægum málum í beinni þjóðaratkvæðagreiðslu liggur hjá forseta Íslands skv. 26. grein stjórnarskrárinnar. En jafnvel sá farvegur hefur verið forsmáður nánast alla lýðveldissöguna vegna þess að hefðbundið þótti að forseti nýtti ekki málskotsréttinn.

Það segir ákveðna sögu að jafnvel loksins þegar forseti nýtti málskotsréttinn í fyrsta sinn árið 2004 varð geypilegt uppistand vegna þess hjá handhöfum framkvæmdavalds og löggjafarvalds og að lokum fór svo að ákvæði stjórnarskrár voru ekki virt og engin þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram.

Það er beinlínis sorglegt fyrir íslensku þjóðina að fyrsta þjóðaratkvæðagreiðsla lýðveldissögunnar skuli ekki hafa litið dagsins ljós fyrr en 6. mars 2010, 66 árum eftir lýðveldisstofnun. Hvað segir það um ástand lýðræðisins á Íslandi?

Þjóðin hefur hingað til verið upp á náð og miskunn forseta komin um þjóðaratkvæði, orðið að treysta á að geðþóttaákvörðun eins einstaklings á Bessastöðum félli sér í vil. Það er ekki ásættanlegt fyrir þjóð sem gefur sig út fyrir að vera lýðræðiselskandi.

Vald Alþingis kemur frá þjóðinni og þjóðin á að hafa eftirlit með því hvernig farið er með það.

Þetta snýst um það í hverra höndum öryggisventillinn á löggjafarvaldið á að liggja. Á íslenska þjóðin að vera upp á einn mann komin með eftirlit með löggjafarvaldinu um alla framtíð eða á þjóðin sjálf að geta átt frumkvæðið að slíku eftirliti?

Löggjafarvaldið er af þjóðinni falið 63 fulltrúum á Alþingi. Það liggur því beinast við að þjóðin sjálf hafi eftirlit með fulltrúum sínum og geti gripið inn í milliliðalaust ef þeir eru ekki að standa sig sem skyldi. En hvernig er hægt að gera það?

Í Sviss hefur beint lýðræði verið hluti af stjórnskipan ríkisins einmitt á þennan hátt. Ef ríkisborgararnir safna ákveðnum fjölda undirskrifta á ákveðnum tíma eru viðkomandi lög lögð undir þjóðaratkvæði. Meginreglan er að safna þarf undirskriftum 50.000 manna á innan við 100 dögum.

Undirskriftasöfnun InDefence til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um síðari Icesave lögin sýnir svart á hvítu að þetta fyrirkomulag gæti vel virkað hér á landi. Þar var tæplega 60.000 undirskriftum safnað á um tveimur mánuðum. Til forseta Íslands var skilað 56.089 gildum undirskriftum, sem slær mjög nálægt 25% allra kosningarbærra manna á Íslandi þá. Þrátt fyrir það var það upp á geðþótta forseta komið hvort þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram eða ekki. Það er að mínu mati óásættanlegt fyrirkomulag.

Ég set því fram einfalda tillögu til breytingar á stórnarskránni í átt að auknu beinu lýðræði: Að þjóðin sjálf hafi í hendi sér að setja einstök mál í þjóðaratkvæði með því að safna undirskriftum ákveðins fjölda kosningarbærra manna á ákveðnum tíma. Eina spurningin er hvar við setjum fjöldamörkin og tímamörkin svo það verði hvorki of auðvelt né of erfitt.

Með þessu fyrirkomulagi verður til virkt eftirlit þjóðarinnar með störfum Alþingis og þannig bætir beint lýðræði upp galla fulltrúalýðræðisins.


mbl.is 523 í framboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Benediktsson

Mjög góð tillaga!

Halldór Benediktsson, 25.10.2010 kl. 18:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband